BANDARÍSKIR hermenn náðu í gær á sitt vald öllum alþjóðaflugvellinum fyrir sunnan Bagdad en hann mun gegna miklu hlutverki í lokasókn gegn borginni. Ekki hafa verið mikil átök síðustu tvo sólarhringa og hafa bandamenn mætt lítilli mótspyrnu í sókn sinni til Bagdad. Þúsundir óbreyttra borgara voru í gær á flótta frá borginni.
Íraska herliðið hörfaði frá flugvellinum undan sókn Bandaríkjamanna en hélt uppi skothríð á hann í gær úr nokkurri fjarlægð. Var leitað hús úr húsi á flugvellinum og skotbyrgi hreinsuð en óttast var, að íraskir hermenn kynnu að leynast í miklu gangakerfi undir vellinum. Bandaríski herforinginn Vincent Brooks sagði, að bandamenn réðu nú öllum helstu vegum að Bagdad en lagði áherslu á, að það myndi taka sinn tíma að tryggja yfirráðin fyrir lokasóknina. Um 2.500 íraskir hermenn gáfust í gær upp fyrir bandarísku herliði, sem sótti til Bagdad úr norðri frá bænum Al-Kut.

Undrast um Lýðveldisvörðinn

Foringjar í liði bandamanna sögðu í gær, að varnir og herstjórn Íraka virtist vera í molum og margir velta því fyrir sér hvar sveitir Lýðveldisvarðarins séu niðurkomnar. Hugsanlegt er, að þær ætli að verjast í Bagdad en ljóst er, að þúsundir íraskra hermanna eru fallnar og margir geta sér þess til, að ótiltekinn fjöldi hafi lagt niður vopn og flúið.

Þúsundir óbreyttra borgara flýðu í gær frá Bagdad í hundruðum bíla af öllum stærðum og gerðum og einnig á hestvögnum. Voru farartækin að auki hlaðin hvers konar húsmunum, jafnvel sjónvarpstækjum, fatnaði, ábreiðum, mat og eldunaráhöldum.

Myndir, sem íraska sjónvarpið sýndi í gær af Saddam Hussein, og ávarp hans, sem flutt var í sjónvarpinu nokkru áður, virðast sýna, að hann sé á lífi en miklar vangaveltur hafa verið um það frá upphafi stríðsátakanna. Skoraði Saddam á íbúana að verjast innrásarliðinu og það gerði einnig Mohammad Saif al-Sahhaf upplýsingaráðherra, sem sagði, að bandamenn mættu búst við "óhefðbundnum" árásum. Sagði hann, að um yrði að ræða píslarvættisárásir af nýrri tegund. Viðurkenndi hann, að bandamenn réðu flugvellinum en sagði, að þeir væru "einangraðir" þar og ættu "sér ekki undankomu auðið".

Óvíst er hve margir íbúa Bagdadborgar sáu sjónvarpsmyndirnar af Saddam því að borgin var þá rafmagnslaus en það kom aftur á að hluta nokkru síðar.

Þjálfunarbúðir fyrir efna- og kjarnorkuhernað

Hermenn bandamanna hafa fundið þúsundir kassa með glösum undir vökva og hvítt duft, sem verið er að rannsaka og einnig hafa fundist þjálfunarbúðir í Vestur-Írak fyrir kjarnorku-, lífefna- og efnahernað. Tekið var þó fram, að ekki virtist sem gereyðingarvopn hefðu verið framleidd í búðunum.

Stanley McChrystal hershöfðingi sagði á fréttamannafundi í Washington í gær, að Bandaríkjaher hefði skotið 750 stýriflaugum og 14.000 gervihnattamiðuðum flugskeytum í Íraksstríðinu til þessa.

Bagdad, Washington. AP, AFP.