Eitthvað hefur áunnist en betur má ef duga skal. Af hverju eru einungis 18,7% forstöðumanna hjá ríkinu konur? Af hverju hefur bara þriðjungur ráðuneyta sett sér jafnréttisáætlun? Af hverju liggur ekkert fyrir um launamun kynjanna hjá ríkinu?
Í vikunni birtust niðurstöður könnunar Samtaka atvinnulífsins sem gerð var meðal aðildarfyrirtækja á ólíkum kostum og göllum kvenna og karla sem stjórnenda. Þær upplýsingar hafa fengist að flestir svarenda séu karlar en ekki sé hægt að greina svörin eftir kynjum. Í því ljósi verður að skoða staðhæfinguna: "Konur sækjast síður eftir stjórnunarstöðum" sem er yfirskrift fréttar Samtaka atvinnulífsins.

Þetta er sem sagt skoðun 56% þeirra sem töldu spurninguna "Sækjast konur eftir stjórnunarstöðum í þínu fyrirtæki?" eiga við hjá sér. Þeir telja að konur sækist ekki eftir stjórnunarstöðum, það er þeirra álit og skoðun. Hins vegar er ekki hægt að líta á þetta sem staðreynd út frá niðurstöðum svona könnunar og slá upp í fyrirsögn þar sem karlar tala fyrir munn kvenna. Þetta er eitt af því fjölmarga sem rætt er á femínistapóstlistanum um þessar mundir.

Þar var einnig bent á norska rannsókn sem gerð var á síðasta ári. Þar voru 1.360 lögfræðingar, viðskiptafræðingar og verkfræðingar af báðum kynjum spurðir af hverju svo lítið er um kvenkyns stjórnendur í einkageiranum. Markmiðið var að greina hvað hefur áhrif á val kvenna og karla og afstöðu til stjórnunarstarfa. Skýrslan með niðurstöðunum "Vi vil! Slipp oss til!" kom út á síðasta ári og sagt er frá þessari rannsókn á www.kvinnebasen.no. Samtökum atvinnulífsins er hér með bent á þessa skýrslu.

Yfir 80% af þeim sem svara geta hugsað sér stjórnunarstöðu. "Skýrslan afsannar þess vegna goðsögnina um að konur sækist síður eftir stjórnunarstöðum og að þær séu óöruggari í slíkri stöðu en karlar. Konur telja sig vel hæfar til stjórnunarstarfa og þær sækjast eftir ábyrgðinni sem fylgir stjórnunarstöðum," segir í fréttinni um skýrsluna og skýrsluhöfundar segja: "Þetta sýnir svart á hvítu að jafn margar konur og karlar sækjast eftir stjórnunarstöðu. Við getum þess vegna staðhæft að konur sækjast eftir stjórnunarstöðum."

Ljóst er að ástæðnanna fyrir því að konur eru svo fáar í toppstöðum hvort sem það er í Noregi, á Íslandi eða annars staðar er ekki að leita hjá konunum sjálfum, heldur í umhverfinu. Það er glerþakið sem konur reka sig á. Konur komast ekki jafnauðveldlega í stjórnunarstöður og karlar.

Það þarf vilja til raunverulegs jafnréttis kynjanna til að gripið sé til aðgerða. Það hefur sýnt sig hjá Reykjavíkurborg annars vegar og ríkinu hins vegar. Reykjavíkurborg hefur femínisti stjórnað síðustu níu ár en í stóli forsætisráðherra hefur setið íhaldsmaður.

Jafnréttislög hafa gilt allan þennan tíma en ekki virkað í raun nema "með handafli". Og það er það sem virðist þurfa til að koma á raunverulegu jafnrétti kynjanna. Femínistafélag Íslands er nú fullgilt félag sem ætlar að "beita handafli" til að knýja á um jafnrétti kynjanna á öllum sviðum. Markmiðið er að vera með öflugt starf og fræðslu og unnið verður í málefnahópum, hvort sem það er á sviði atvinnumála, staðalímynda, heilbrigðismála eða stjórnmála.

Nýlega leit dagsins ljós skýrsla nefndar um jafnrétti kynjanna í opinberri stefnumótun. Skýrslan hefur ekki verið kynnt opinberlega svo neinu nemi en það er ekki margt jákvætt þar að finna fyrir ríkið. Þar kemur m.a. fram að kynjahlutföll meðal æðstu embættismanna ríkisins eru ójöfn. Hlutfall kvenna í hópi forstöðumanna ráðuneyta og ríkisstofnana var 18,7% um mitt ár 2002 en hefur hækkað úr 14,4% frá árinu 2001. Á vegum sjö ráðuneyta gegnir engin kona embætti forstöðumanns í stofnunum sem undir þau heyra.

Nefndin var sett á laggirnar í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar sem hún setti sér fyrir árin 1998-2001 en inntakið í henni er skv. því sem fram kemur í nefndarálitinu: "Ríkisstjórnin mun vinna að því að jafnréttissjónarmið verði samþætt opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku. Samþætting krefst þess að jafnrétti kynjanna sé meðvitað haft í huga við alla áætlanagerð. Allir sem koma að stefnumótun og ákvarðanatöku þurfa því að hafa þekkingu á jafnréttismálum."

Eitthvað hefur áunnist en betur má ef duga skal. Af hverju er einungis 18,7% forstöðumanna hjá ríkinu konur? Af hverju hefur bara þriðjungur ráðuneyta sett sér jafnréttisáætlun? Af hverju liggur ekkert fyrir um launamun kynjanna hjá ríkinu?

Þessu hefði verið hægt að breyta með vilja, þekkingu og þrautseigju. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir breytti miklu hjá Reykjavíkurborg í borgarstjóratíð sinni. Konur eru nú helmingur stjórnenda innan borgarinnar og unnið hefur verið markvisst að því að minnka launamun kynjanna hjá borginni. Hann fór úr 15,5% árið 1995 í 7% árið 2001. Ekkert liggur fyrir um núverandi launamun kynjanna hjá ríkinu, hvorki hver hann var né hvaða breytingar hafa orðið.

Ingibjörg Sólrún segir í grein í Morgunblaðinu í vikunni að það sé í raun auðveldara að ná árangri í jafnréttismálum en margir vilji vera láta. "Þegar allt kemur til alls er það aðeins spurning um vilja, þekkingu og þrautseigju. Því getur fátt skýrt lélegan árangur ríkisins í jafnréttismálum annað en skortur á pólitískum metnaði."

Eftir Steingerði Ólafsdóttur steingerdur@mbl.is