ÍRASKIR hermenn sem hafa gerzt liðhlaupar og eru nú stríðsfangar bandamanna hafa lýst gerræðisaftökum og alvarlegu ofbeldi af hálfu yfirmanna sinna í Íraksher. Greindu talsmenn mannréttindasamtakanna Human Rights Watch frá þessu í gær.
ÍRASKIR hermenn sem hafa gerzt liðhlaupar og eru nú stríðsfangar bandamanna hafa lýst gerræðisaftökum og alvarlegu ofbeldi af hálfu yfirmanna sinna í Íraksher. Greindu talsmenn mannréttindasamtakanna Human Rights Watch frá þessu í gær.

Samtökin birtu í gær búta úr viðtölum við 26 íraska hermenn, sem sögðust hafa kosið að gerast liðhlaupar þegar herdeildir þeirra hörfuðu frá stöðvum sínum á mörkum sjálfstórnarsvæðis Kúrda í Norður-Írak.

Samtökin gizkuðu á að minnst 130 íraskir liðhlaupar væru nú í haldi Kúrda í Abril-héraði.

Einn liðhlaupanna sagði frá því að hann hefði orðið vitni að gerræðisaftökum á 10 meintum liðhlaupum. Aðrir sögðust vita að aftökusveitir hefðu verið myndaðar, þótt þeir hefðu sjálfir ekki orðið vitni að slíkum aftökum.

"Stundum vorum við svo svangir að við átum gras sem við blönduðum við dreitil af vatni," sagði 21 árs gamall hermaður frá Bagdad, hvers herflokkur hafði verið hluti af fimmtu herdeild íraska landhersins.

"Við þvoðum okkur ekki í fjörutíu daga. Það var oft ekkert drykkjarvatn að hafa og þeir (yfirmennirnir) létu okkur fá koppa og sögðu okkur að sækja okkur vatn með því að safna regnvatni úr drullupollunum," sagði hann.

Fólskulegar refsingar

Allir liðhlauparnir sem fulltrúar Human Rights Watch töluðu við voru á aldursbilinu frá tvítugu til 38 ára. Þeir áætluðu að mánaðarlaun sín sem hermenn hefðu verið um það bil tveir Bandaríkjadalir á mánuði, en sumir sögðust reyndar ekki hafa fengið nein laun svo mánuðum skipti.

Í vitnisburði þeirra er líka að finna frásagnir af fólskulegum refsingum, þar á meðal barsmíðum og að vera þvingaðir til að skríða langar leiðir á grjóti, á berum hnjám eða á bakinu. Þeim var ítrekað hótað aftöku ef þeir skyldu voga sér að reyna að flýja af hólmi.

New York. AFP.