[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af níu milljarða króna kostnaði við tillögur ASÍ í velferðarmálum er um helmingur vegna tillagna í tryggingamálum. Björn Jóhann Björnsson kynnti sér þær tillögur nánar.
STARFSHÓPUR ASÍ í tryggingarmálum leggur til hækkanir á örorkubótum, ellilífeyri. atvinnuleysisbótum, sjúkradagpeningum og umönnunargreiðslum til foreldra langveikra barna. Er talið að þessar hækkanir geti kostað hið opinbera rúma 4,5 milljarða króna og snerta tillögurnar tugþúsundir manna á öllum aldri og á flestum stigum þjóðfélagsins. Telur ASÍ að Ísland hafi dregist aftur úr mörgum nágrannaþjóðum við greiðslu ýmissa bóta og bendir m.a. á að atvinnuleysisbætur hér á landi séu lægri en á Norðurlöndunum. Á það jafnt við um lágmarksbætur sem hámarksbætur.

ASÍ minnir á að veigamikill þáttur velferðarkerfisins sé að tryggja að enginn þurfi að búa við fátækt og að greiðslubyrði vegna þessara réttinda sé skipt milli ríkisins, sveitarfélaga og einstaklinga með samningum aðila vinnumarkaðarins. Mikilvægt sé að samspil og verkaskipting milli þessara þriggja kerfa sé hnökralaus og taki mið af heildarmarkmiðum velferðarkerfisins.

Lífeyrissjóðir og almannatryggingar spili meira saman

Til fundar með þessum starfshópi ASÍ komu fulltrúar frá Landssambandi eldri borgara, Neistanum, Sjálfsbjörgu, Umhyggju, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands. Í skýrslu starfshópsins segir að við umfjöllun um málefni öryrkja hafi komið fram að e.t.v. sé eðlilegt að almannatryggingar taki með öðrum hætti á framfærsluvanda þeirra heldur en framfærsluvanda aldraðra, m.a. vegna þess að þeir hafi ekki haft sama tækifæri til að mynda lífeyrisréttindi og eignir líkt og aðrir. Rætt var um mismunandi leiðir til að bæta kjör öryrkja, sérstaklega hugmyndir um aldurstengdar örorkubætur. Í umfjöllun um málefni aldraðra kom m.a. fram að meðal eldri borgara er vilji fyrir því að samtryggingarkerfið verði eflt með samspili sinna tveggja grunnstoða; lífeyrissjóðakerfisins og almannatrygginga. Leggja eldri borgarar sérstaka áherslu á að lífeyrisgreiðslur, auk grunnlífeyris almannatrygginga, standi að öllu jöfnu undir lífeyrisþörfinni. Því sem upp á kunni að vanta hjá einstökum eldri borgurum eigi að mæta með tekjutryggingunni. Við umfjöllun starfshópsins um umönnunarbætur kom m.a. fram að meginvandi foreldra langveikra barna væri launatap foreldra, oftast mæðra sem draga úr eða leggja niður vinnu utan heimilisins og tapa þar með lífeyrisréttindum.

Ellilífeyrisþegar í landinu, 67 ára og eldri, eru ríflega 26 þúsund talsins og hefur hlutfall þeirra af mannfjöldanum stöðugt hækkað á undanförnum árum. Námu ellilífeyrisgreiðslur rúmum 6 milljörðum króna á síðasta ári og tekjutrygging um 7 milljörðum. Mestur kostnaður af tillögum til úrbóta í tryggingarmálum kemur af því að draga úr skerðingu á tekjutryggingarauka aldraðra, eða um tveir milljarðar. Er þá miðað við að hækka skerðingarmörk tekjutryggingaraukans til þess sama og er í tekjutryggingu almennt. Með þessu telur ASÍ að afkomuvanda þeirra eldri borgara sé mætt sem hafa lítinn rétt í lífeyrissjóðum eða hafa ekki myndað þann rétt vegna heimilisstarfa, örorku eða veikinda. Vill ASÍ að sá mismunur verði leiðréttur í áföngum sem er á milli réttinda lífeyrissjóða sem veita rétt eftir fastréttindum annars vegar og sjóðssöfnun hins vegar. Talið er mikilvægt að auka getu almennu lífeyrissjóðanna til greiðslu eftirlauna, með því að jafna núverandi áhættutryggingu betur milli sjóðanna innbyrðis og frekari þátttöku almannatrygginga í þeim tryggingum.

Tekjutenging atvinnuleysisbóta verði könnuð

Lögð er mikil áhersla á það hjá ASÍ að atvinnuleysisbætur hækki úr rúmum 77 þúsund krónum á mánuði í 93 þúsund krónur, eða til jafns við lágmarkslaun. Miðað við 3,5% atvinnuleysi þýðir það kostnaðarauka upp á um 800 milljónir króna. Til samanburðar má geta þess að nú mælist atvinnuleysi um 4% þar sem ríflega 6.100 manns eru án atvinnu í landinu. Á síðasta ári voru að meðaltali um 3.600 einstaklingar atvinnulausir og þar af leituðu 67% þeirra til sveitarfélaga og annarra aðila eftir fjárhagsaðstoð. ASÍ telur þetta gefa skýra vísbendingu um að atvinnuleysisbæturnar dugi ekki til framfærslu á meðan fólk leiti sér að nýju starfi.

Í skýrslu ASÍ um velferðarmál segir að hér á landi hafi atvinnuleysi almennt verið lítið frá lokum heimsstyrjaldar, að undanskildum árunum í kringum 1950, 1967-1968, 1990-1997 og nú á síðustu misserum. Fram til 1996 tóku atvinnuleysisbætur mið af launum fiskverkafólks og hækkuðu til samræmis við þau. Í upphafi sama árs var þessi tenging rofin með breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Frá þeim tíma hafa bæturnar verið endurskoðaðar með tilliti til launaþróunar, verðlags og efnahagsástands. Hækkuðu atvinnuleysisbætur síðast um 5% um síðustu áramót.

Sem fyrr segir eru bæturnar lægri hér en á Norðurlöndunum, jafnt lágmarksbætur sem hámarksbætur, sbr. meðfylgjandi töflu. ASÍ bendir á að í langflestum ríkjum OECD séu atvinnuleysisbætur tengdar fyrri launum með einhverjum hætti. Útfærsla tekjutengingar er mismunandi og eru sum ríkin með gólf og/eða þök á upphæð bótanna. Á Norðurlöndum nemur tengingin allt frá 62% af síðustu launum og upp í 90%. Gerir ASÍ tillögu um að byrjað verði á því að skoða tekjutengingu atvinnuleysisbóta hér á landi, þ.e. hvort eigi að taka hana upp og þá með hvaða hætti. Þorbjörn Guðmundsson, formaður velferðarnefndar ASÍ, segir það löngu tímabært að skoða þessa tekjutengingu. Mikið áfall sé fyrir hverja fjölskyldu að missa tekjur úr kannski 200-300 þúsund krónum á mánuði niður í 77 þúsund. Allar skuldbindingar fólks séu í hlutfalli við tekjur.

Örorkubætur einstaklings minnst 110 þús. kr. á mánuði

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun fengu ríflega 10 þúsund einstaklingar greiddar örorkubætur á síðasta ári upp á rúma 2,5 milljarða króna. Tekjutrygging örorkulífeyrisþega nam rúmum 3 milljörðum. Starfshópur ASÍ í tryggingarmálum leggur til að lægstu samsettu örorkubætur grunnlífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar einstaklings verði a.m.k. 110 þúsund kr. á mánuði, auk barnalífeyris. Kostnaðarmat ASÍ gerði ráð fyrir að það kostaði um 1,6 milljarða að ná þessu marki, en þar sem öryrkjar og ríkið hafa nýlega samið um hækkun bóta sem metin er á um einn milljarð er viðbótarkostnaður af þessari tillögu ASÍ um 600 milljónir. Vill ASÍ að réttur öryrkja til bóta almannatrygginga taki mið af því að framfærslubyrði þeirra sé önnur og meiri en t.d. hjá öldruðum. Einnig verði kannaðir nánar kostir þess að aldurstengja örorkubætur.

Starfshópur ASÍ telur að tryggingarvernd þeirra sem ekki hafa verið á vinnumarkaði sé óviðunandi, verndin sé í raun orðin það slæm að þessi hópur búi við sárafátækt. Talið er forgangsverkefni að ráða bót á þessu en mikilvægt að hafa þar þrennt í huga. Í fyrsta lagi að auka möguleika þeirra öryrkja sem geta lítið eða ekkert unnið, með meiri starfshæfingu og fleiri tækifærum til menntunar. Í öðru lagi hafi þessir einstaklingar ekki möguleika á að nýta sér eignamyndun til framfærslu þar sem engin eignamyndun hafi átt sér stað sökum örorkunnar. Í þriðja lagi sé mikilvægt að hafa í huga að þessir einstaklingar geti borið sömu framfærsluskyldu vegna barna og þeir sem hafa verið á vinnumarkaði.

Tvöföldun umönnunarbóta

Umönnunarbætur til foreldra langveikra barna námu tæpum 840 milljónum króna hjá Tryggingastofnun á síðasta ári. Starfshópur ASÍ leggur til að þessar greiðslur verði tvöfaldaðar, þannig að þær geti numið allt að 80% af fyrri dagvinnulaunum foreldra. Kostnaður við það er metinn á um 800 milljónir króna.

Þorbjörn Guðmundsson segir að þessi hópur fólks hafi verið skilinn eftir í velferðarkerfinu. Ákveðin fátæktargildra felist í því að eignast veikt barn þar sem fólk þurfi að vera frá vinnu langtímum saman og tekjur geti dregist stórlega saman á augabragði.

Í skýrslu ASÍ er bent á að heildarfjöldi nýfæddra barna hérlendis sé í kringum 4 þúsund á ári. Þar af megi gera ráð fyrir að 5% þeirra þurfi að hluta eða alfarið einhverja aðstoð foreldra vegna vanheilsu, allt frá nokkrum mánuðum til nokkurra ára. Í desember á síðasta ári var fjöldi barna með svonefnt umönnunarmat 3.793, var 3.399 börn árið áður. Í tilvikum langveikra barna miðast réttur foreldra annars vegar við umönnunarkort frá Tryggingastofnun sem lækkar lyfja- og lækniskostnað og hins vegar mánaðarlegar umönnunargreiðslur sem hæstar geta orðið rúmar 82 þúsund krónur á mánuði.

ASÍ-menn segja að gæta þurfi þess að sá réttur til umönnunarbóta, sem skapaður er á hverjum vinnustað, verði ekki íþyngjandi og komi þannig í veg fyrir að barnafólk verði gjaldgengt á vinnumarkaði. Því sé mikilvægt að skipta þessum rétti milli einstakra atvinnurekenda og samtryggingarréttar. Varðandi langveik börn sé mikilvægt að skapa aukinn samtryggingarrétt, annars vegar í tengslum við fæðingarorlof og hins vegar í tengslum við nauðsynlega fjarveru frá störfum eftir að fæðingarorlofi lýkur.

Greiðslur vegna sjúkradagpeninga aukist um 300 milljónir

Þá eru það sjúkradagpeningarnir, sem ASÍ leggur til að verði hækkaðir upp í 60% af lágmarkslaunum, þ.e. greiðslurnar sem koma frá Tryggingastofnun. Er það talið kosta rúmar 300 milljónir króna. Greiðslurnar hjá TR á síðasta ári námu 213 milljónum króna. Sjúkradagpeningar koma einnig frá sjúkrasjóðum einstakra stéttarfélaga en eru mismiklir. Heildargreiðslur þaðan liggja ekki fyrir en þær hafa verið að aukast langt umfram það sem gerst hefur hjá Tryggingastofnun. ASÍ bendir á að hlutfall sjúkradagpeninga frá almannatryggingum hafi stöðugt farið minnkandi. Frá árinu 1988 til dagsins í dag hefur hlutfall sjúkradagpeninga, sem hlutfall af lægstu launum, lækkað úr 34% í 26%. Segir ASÍ þetta hafa komið verst við launafólk, þar sem sá hópur sé um 75% þeirra sem fái sjúkradagpeninga. Talið er mikilvægt að endurskilgreina hlutverk sjúkradagpeninga innan almannatrygginga og samræma þann rétt við þann sem sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna veita. Til að veikindarétturinn komi að sem bestum notum telur ASÍ einnig mikilvægt að heilbrigðiskerfið bjóði upp á endurhæfingu sem byggi einstaklinginn upp til starfa miðað við getu.

bjb@mbl.is