Sigurður Þórir opnar sýninguna  í Húsi málaranna, Eiðistorgi, í dag.
Sigurður Þórir opnar sýninguna í Húsi málaranna, Eiðistorgi, í dag.
LISTMÁLARINN Sigurður Þórir opnar sýningu á nýjum málverkum í Húsi málaranna í dag kl. 15.
LISTMÁLARINN Sigurður Þórir opnar sýningu á nýjum málverkum í Húsi málaranna í dag kl. 15. Ber hún heitið Tveggja heima sýn og fjallar listamaðurinn þar um manninn, frásögnina og fantasíuna með vísan í þann þjóðfélagsveruleika sem maðurinn býr við og þá óvissu sem hann þarf að glíma við í umhverfi sínu. "Þessi sýning er framhald af því sem ég hef fengist við í listsköpun minni undanfarin ár," segir Sigurður Þórir í samtali við Morgunblaðið. "Þó má greina nýjungar á þessari sýningu - fígúran sem hefur verið ríkjandi í myndum mínum er farin að víkja fyrir óhlutbundnum formum að vissu marki. Það má kannski kalla það fígúratíva abstraksjón. Í verkum mínum hefur manneskjan alltaf verið undirtónninn á ljóðrænum nótum - ég hef alltaf velt fyrir mér manninum og veruleikanum sem hann býr við, manngerðum táknum og hinni kaotísku veröld sem hann býr í, hleður í kringum sig eða skilur eftir sig."

Þjóðfélagsrýni hefur verið snar þáttur í listsköpun Sigurðar Þóris gegnum tíðina en hann segist á undanförnum árum hafa áttað sig meira á gildi fegurðarinnar í myndlistinni. "Á vissum tímapunkti á ferli mínum fór mér að finnast að myndverk mín væru í raun eins konar viðbót við þjóðfélagsástandið. Þá fór ég að hugsa um að gera myndir sem væru alveg á skjön við það og reyna þess í stað að færa fólki einhverja nýja fegurð - það gæti orðið eins konar mótvægi við ljótleikann sem er í heiminum. Þá fór ég að vinna myndir á þessum nótum sem sjást hér á sýningunni."

Myndir Sigurðar Þóris eru málaðar í sterkum litum og gefur þar að líta bæði manneskjur og hin klassísku frumform. "Ég hef verið að þróa litina í verkum mínum undanfarinn rúman áratug og hef í auknum mæli farið út í þessa sterku liti, sem eru kannski ekki mjög algengir í listsköpun málara. En mér finnst áhugavert að glíma við þá og reyna að láta þá harmonera í myndinni - það felst í því viss ögrun. Sterkari litir kalla á flóknari form, svo glíman á striganum verður enn meiri fyrir vikið," segir hann.