FRANSKA dagblaðið Le Monde höfðaði á fimmtudag meiðyrðamál á hendur höfundum og útgefendum bókar þar sem blaðið er vænt um hræsni og hlutdrægni. Í stefnunni fer blaðið fram á eina milljón evra (um 83 milljónir kr) í skaðabætur.
FRANSKA dagblaðið Le Monde höfðaði á fimmtudag meiðyrðamál á hendur höfundum og útgefendum bókar þar sem blaðið er vænt um hræsni og hlutdrægni. Í stefnunni fer blaðið fram á eina milljón evra (um 83 milljónir kr) í skaðabætur.

Bókin heitir "Hið hulda andlit Le Monde", og er eftir blaðamennina Pierre Pean og Philippe Cohen og hefur verið á metsölulistum frá því hún kom út fyrir mánuði.

Í stefnunni segir að "finna megi meiðyrði á hverri einustu síðu" bókarinnar og því sé í stefnunni lögð megináhersla á kafla þar sem gefið sé til kynna að blaðið hafi farið fram með glæpsamlegum hætti. Í bókinni er því haldið fram að Le Monde hafi haldið verndarhendi yfir morðingjum Caludes Erignacs, héraðsstjóra Korsíku. Þá er haldið fram að blaðið hafi gert tilraun til að setja mark sitt á frönsk stjórnmál og þjóðfélag. Meðal annars hafi blaðið rekið herferð til stuðnings forsetaframboði Edouards Balladurs 1995 og stutt Lionel Jospin "eins og reipið styður hengdan mann" 2002.

Ritstjórar Le Monde hafa lagt sig fram um að bera til baka þær ásakanir, sem fram koma í bókinni, en gagnrýnendur segja að þeim hafi ekki tekist að hrekja einstakar ásakanir með sannfærandi hætti.

París. AFP.