Tony Blair
Tony Blair
BANDAMENN munu láta Íraka sjálfa taka við stjórn í Írak eins fljótt og unnt er að stríðinu loknu. Kom þetta fram hjá Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í viðtali við BBC , breska ríkisútvarpið.
BANDAMENN munu láta Íraka sjálfa taka við stjórn í Írak eins fljótt og unnt er að stríðinu loknu. Kom þetta fram hjá Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í viðtali við BBC, breska ríkisútvarpið.

"Ég vil leggja á það áherslu og gera það lýðum ljóst, að þegar stríðinu lýkur munu hvorki Bandaríkjamenn, Bretar né nokkrir aðrir en Írakar fara með stjórn í Írak. Þegar búið hefur verið í haginn fyrir nýja stjórn munu þeir taka við og sú stjórn verður skipuð fulltrúum allra landsmanna en ekki lítillar klíku í kringum einhvern á borð við Saddam," sagði Blair í viðtali við þá deild innan BBC, sem útvarpar á arabísku.

Blair vildi ekki svara því hve langan tíma það tæki að koma stjórn Íraka á laggirnar en ítrekaði, að stjórn einhverra annarra kæmi ekki til greina.

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lét svipuð ummæli falla á fréttamannafundi í gær og sagði, að ný stjórn í Írak ætti að vera skipuð fulltrúum hinna ólíku hópa í landinu og einnig þeirra, sem orðið hefðu að flýja land. Sagt er hins vegar, að um þetta sé mikill ágreiningur innan Bandaríkjastjórnar.

London. AP, AFP.