HAGNAÐUR af rekstri Fóðurverksmiðjunnar Laxár á Akureyri nam rúmum 16 milljónum króna á síðasta ári en árið áður var 3,4 milljóna króna tap af rekstrinum.
HAGNAÐUR af rekstri Fóðurverksmiðjunnar Laxár á Akureyri nam rúmum 16 milljónum króna á síðasta ári en árið áður var 3,4 milljóna króna tap af rekstrinum. Velta síðasta árs var 355 milljónir króna og jókst um tæp 14% á milli ára, vegna aukinnar sölu innanlands. Heildareignir félagsins í árslok námu um 190 milljónum króna, heildarskuldir voru um 50 milljónir króna og eigið fé rúmar 138 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall var því 73,2%. Tilgangur félagsins er framleiðsla og sala á fóðri, aðallega til fiskeldis.

Aðalfundur Laxár var haldinn í gær og kom fram í máli Valgerðar Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra að gert sé ráð fyrir mikilli framleiðslu- og veltuaukningu á þessu ári. Áætluð framleiðsla ársins er 11.900 tonn, sem er aukning upp á rúmlega 250%, og að veltan verði 775 milljónir króna og aukist um tæp 220% á milli ára. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er 18.000 tonn á ári.

Framleiðla síðasta árs nam 4.640 tonnum á móti 4.270 tonnum árið 2001. Hins vegar dróst fóðursalan heldur saman milli ára og munar þar um Færeyjamarkað. Engin sala var til Færeyja á síðasta ári en árið áður voru seld þangað rúm 1.900 tonn. Innanlands var mest selt til Sæsilfurs í Mjóafirði eða rúm 1.500 tonn. Markaðshlutdeild Laxár á innanlandsmarkaði er áætluð 70%.

Bjartsýni ríkjandi og starfsmönnum fjölgað með vorinu

Valgerður sagði að verð á laxi hefði fallið hratt árið 2001 og haldist lágt síðan en þrátt fyrir það ríki bjartsýni í greininni. "Nú er fyrirhuguð veruleg aukning í Mjóafirði og ný stöð í Reyðarfirði, báðar í eigu Samherja. Við hjá Laxá erum bjartsýn og trúum að árið 2003 verði gott. Nú eru næg verkefni framundan fyrir verksmiðju félagsins en Samherji hefur snúið öllum sínum fóðurkaupum til Laxár. Útlit er fyrir að unnið verði á tveimur vöktum í sumar. Fiskeldi er að aukast og eru menn að skoða ýmsa möguleika í þeim efnum," sagði Valgerður í árskýrslu sinni. Hjá fyrirtækinu starfa nú 10 manns en stefnt er að því að ráða fjóra nýja starfsmenn í vor.

Í mars á síðasta ári keypti Síldarvinnslan í Neskaupstað hlutabréf í Laxá og varð um leið meirihlutaeigandi með rúmlega 66% hlut. Akureyrarbær á rúmlega 20% hlut í félaginu en alls eru hluthafar 21.