Ýmis mál komu til umræðu á fjölmennum samráðsfundi Landsvirkjunar sem haldinn var í Reykjavík í gær.
Ýmis mál komu til umræðu á fjölmennum samráðsfundi Landsvirkjunar sem haldinn var í Reykjavík í gær.
VALGERÐUR Sverrisdóttir, iðnaðar og viðskiptaráðherra, sagði í ávarpi sínu á samráðsfundi Landsvirkjunar í gær að nokkuð ljóst væri að eftir því sem Íslendingar nýttu fleiri virkjunarkosti til orkuframleiðslu hér á landi kunni að verða meiri deilur uppi...
VALGERÐUR Sverrisdóttir, iðnaðar og viðskiptaráðherra, sagði í ávarpi sínu á samráðsfundi Landsvirkjunar í gær að nokkuð ljóst væri að eftir því sem Íslendingar nýttu fleiri virkjunarkosti til orkuframleiðslu hér á landi kunni að verða meiri deilur uppi um þá kosti sem eftir verða.

"Í því ljósi var á árinu 1999 í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum hafin vinna við gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Markmið áætlunarinnar var og er að leggja mat á og flokka innbyrðis virkjunarkosti til raforkuframleiðslu meðal annars með tilliti til hagkvæmni, þjóðhagslegs gildis og umhverfisáhrifa. Stór hópur sérfræðinga hefur komið þar að verki og verkefnisstjórn Rammaáætlunar og áformar að skila niðurstöðum sínum til ráðherra í maí," sagði ráðherra.

Stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, sagði að enginn gengi veg málamiðlana milli ólíkra og umdeildra hagsmuna öðru vísi en að á honum bryti.

Jóhannes sagðist vera þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að færa starfshætti og rekstrarform orkufyrirtækjanna nær því sem tíðkaðist almennt í atvinnulífinu. Menn yrðu að fara að skoða hver fyrstu skrefin í þessa átt gætu verið og setja sér tímasett markmið í því sambandi. Jóhannes benti á að fyrsta skrefið að fyrirtækjavæðingu Landsvirkjunar gæti verið það að opna leiðir fyrir íslensku lífeyrissjóðina að fjárfesta í fyrirtækinu. "Sjóðirnir þurfa á nýjum fjárfestingartækifærum að halda og orkugeirinn fellur vel að þörfum þeirra fyrir að fjárfesta í öruggu tekjuflæði til langs tíma. Þá bendir margt til að ávöxtun þess fjármagns sem er bundið í orkugeiranum verði að skila sér af fullum þunga á þeim tíma þegar fjölmennir árgangar með full réttindi fara að taka lífeyri."

Þarf að þróa nýja þekkingu

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, benti á að á Íslandi væri nú framleitt mest rafmagn í heimi á íbúa. Með þeim samningum, sem gerðir hefðu verið við Fjarðaál og eru í burðarliðnum við Norðurál yxu enn áhrif álframleiðslu á efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar. "Ísland er að komast í hóp stærri álframleiðsluþjóða og álútflutningur mun í framtíðinni hafa enn frekari áhrif á þjóðarhag. Við höfum langa reynslu í rannsóknum og þekkingu á bæði sjávarútvegi og jarðhita."

Friðrik sagði einnig að efna þurfi til samstarfs milli álfyrirtækja, orkufyrirtækja, viðskiptadeilda háskóla, greiningardeilda lánastofnana og hagstofnana til að safna saman upplýsingum og þróa þekkingargrunn.