ÞAÐ ER bæði vegsemd og vandi lýðræðislegra samfélagshátta að viðurkenna fjölbreytileika mannlegra verðmæta og takast á við mat á ólíkum hagsmunum og þörfum án þess að loka augunum fyrir því hve erfitt það er, sagði Atli Harðarson heimspekingur í erindi...
ÞAÐ ER bæði vegsemd og vandi lýðræðislegra samfélagshátta að viðurkenna fjölbreytileika mannlegra verðmæta og takast á við mat á ólíkum hagsmunum og þörfum án þess að loka augunum fyrir því hve erfitt það er, sagði Atli Harðarson heimspekingur í erindi sem hann flutti á samráðsfundinum.

Atli benti á að í umræðum um náttúruvernd reyndu menn oft að flýja þennan vanda með því að telja sér trú um að hægt væri að mæla sundurleit verðmæti á kvarða, sem aðeins hentaði sumum þeirra, eða þá með því að telja sér trú um að tiltekin verðmæti væru algild og þau bæri að varðveita burtséð frá mannlegum þörfum og hagsmunum. Atli sagði viðleitni í þá veru að setja öll verðmæti undir sama hatt eiga sér langa sögu.

"Nú til dags á þessi kenning sér formælendur fáa. Þeir sem nú ganga lengst í að setja sundurleit verðmæti undir einn hatt eru líklega hagfræðilega þenkjandi menn sem reyna að meta sem flest í krónum og aurum. Að einhverju leyti er tilhneiging til að nota verðmætakvarða viðskiptalífsins á fleiri og fleiri svið eðlilegur fylgifiskur markaðsvæðingar og samfélagshátta þar sem sífellt fleira gengur í reynd kaupum og sölum." Atli telur þetta hafa ýtt undir tilhneigingu til að reyna að meta verðmæti eins og náttúrufegurð í krónum og aurum án þess að framboð og eftirspurn á markaði hafi gefið þeim neitt þess háttar verðgildi.

Ekki æðri öðrum verðmætum

Atli benti á að stundum vilji fólk skilja þetta sem svo að verðmæti sem ekki sé hægt að mæla í peningum séu á einhvern hátt æðri eða meiri en þau gæði sem hægt er að kaupa. Þetta telur hann vera misskilning. Fegurð himinsins sé t.d. ekki endilega neitt merkilegri en fallegir hlutir sem fást í verslunum, hún sé bara til hliðar við hagræna mælikvarða og verði ekki mæld í krónum.

"Það er ekki til neinn einn mælikvarði á öll gæði. Þurfi að gera upp á milli sundurleitra verðmæta höfum við enga betri leið en að hlusta á mál þeirra sem eiga hagsmuna að gæta, velta fyrir okkur þörfum núlifandi fólks og komandi kynslóða og reyna að semja um málamiðlun eða finna eitthvert mundangshóf. Stundum er það hægt, stundum ekki." Atli sagði erfitt að gagnrýna málflutning þeirra sem álíta að til séu verðmæti sem séu óháð öllum hagsmunum: "Stundum nota menn orðalag eins og "að náttúran eigi að njóta vafans" og láta sem náttúran hafi hagsmuni sem okkur ber að standa vörð um. Þessu fylgja gjarna kenningar í þá veru að náttúran skuli helst vera laus við ummerki um mannlegar athafnir alveg óháð því hvaða hagsmunir eru í húfi."

Segir lagatexta ekki skýran

Atli benti á að hugmyndum af þessari ætt brygði fyrir í lögum um náttúruvernd en í 1. grein þeirra segði: "Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum...". Atli sagði ekki vera skýrt í lagatextanum hvað átt væri við með þróun náttúrunnar "eftir eigin lögmálum" en gera mæti ráð fyrir að átt væri við að breytingar yrðu ekki af manna völdum.

Atli taldi nauðsynlegt að varast einfaldanir í umræðu um náttúruvernd eins og vart yrði hjá þeim sem vildu láta hagfræðilega útreikninga koma í staðinn fyrir umræðu um mannleg verðmæti.