[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BANDARÍKJAMENN lýstu því í gær yfir að þeir hefðu náð alþjóðaflugvellinum í Bagdad á sitt vald, en flugvöllurinn er talinn afar mikilvægur hernaðarlega í stríðinu við Írak.
BANDARÍKJAMENN lýstu því í gær yfir að þeir hefðu náð alþjóðaflugvellinum í Bagdad á sitt vald, en flugvöllurinn er talinn afar mikilvægur hernaðarlega í stríðinu við Írak. Þá er þessi áfangi talinn mikilvægur í sálrænu tilliti en til marks um það var sú yfirlýsing stórfylkisforingjans bandaríska, Vincent Brooks, að búið væri að nefna flugvöllinn upp á nýtt.

"Flugvöllurinn ber nú nýtt nafn, Bagdad-alþjóðaflugvöllurinn, og hann er lykill að framtíð Íraks," sagði Brooks á fréttamannafundi í Katar. Ræddi Brooks um flugvöllinn "sem áður gekk undir nafninu Saddam-alþjóðaflugvöllurinn" en Bandaríkjamenn eru sagðir með þessu vilja sýna fram á, svo ekki verði um villst, að Saddam Hussein Íraksforseti stjórni ekki lengur landinu.

Brooks sagði ennfremur að útilokað væri nú að ráðamenn í Írak gætu notað flugvöllinn til að flýja land. Hann sagði mikilvægast að búið væri að tryggja að flugvöllurinn yrði varðveittur þannig að Írakar gætu í framtíðinni notað hann.

Brooks sagði að bandamenn hefðu tekið flugvöllinn, sem er aðeins um 16 km frá miðborg Bagdad, í áhlaupi í fyrrinótt en hann lét þess þó getið að enn væri hugsanlegt að íraskir hermenn leyndust enn undir flugvellinum.

"Við komumst að raun um að undir flugvellinum er aðstaða," sagði Brooks og viðurkenndi þá að yfirráð bandamanna væru ekki fullkomlega tryggð. "Við vitum ekki hvað við munum finna þar. Það getur vel verið að einhverjir leynist í þessari aðstöðu undir flugvellinum."

Fullyrtu fréttamenn AFP-fréttastofunnar og breska ríkisútvarpsins, BBC, að bardagar geisuðu enn á milli hersveita bandamanna og Íraka við flugvöllinn.

320 íraskir hermenn féllu

Talsmenn Bandaríkjahers sögðu að mótstaða Íraka hefði verið brotin á bak aftur, en m.a. hefðu sérsveitir Lýðveldisvarðarins, úrvalsdeilda Írakshers, tekið þátt í bardaganum. Áhlaupið á flugvöllinn hófst á fimmtudagskvöld og tóku F-15A og F-18 herþotur þátt í aðgerðunum. Að minnsta kosti 320 íraskir hermenn eru sagðir hafa fallið í bardögum. Fréttamaður BBC, sem var í för með þriðju sveit fótgönguliðs Bandaríkjahers er hún tók flugvöllinn, sagði þó að mótspyrna Íraka hefði virst lítil og illa skipulögð.

Óbreyttir borgarar sem búa í nágrenni flugvallarins flýðu átökin, að sögn fréttamanna, og héldu margir inn í miðborg Bagdad. "Þetta var nótt vítisrauna," sagði írösk kona við Reuters-fréttastofuna. "Alla nóttina flugu herþotur yfir og vörpuðu sprengjum, og skothríð stóð yfir alla nóttina."

As Saliyah í Katar. AFP.