ÁRNI Vilhjálmsson, stjórnarformaður og starfandi framkvæmdastjóri Granda, og Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjörns Fiskaness, hafa átt fundi þar sem þeir hafa rætt mögulegan ávinning af samruna félaganna.
ÁRNI Vilhjálmsson, stjórnarformaður og starfandi framkvæmdastjóri Granda, og Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjörns Fiskaness, hafa átt fundi þar sem þeir hafa rætt mögulegan ávinning af samruna félaganna. Þetta kom fram í máli Árna á aðalfundi Granda í gær.

Árni sagði í ræðu sinni á fundinum að þar til í fyrrahaust hefði gætt áhuga meðal forráðamanna Granda á því að Haraldur Böðvarsson, HB, og Grandi mundu sameinast. Undanfarinn skyldi vera sá að Grandi fengi keyptan stóran eignarhluta Burðaráss í HB. Rétt fyrir miðjan september varð ljóst að af þeim viðskiptum mundi ekki verða. Skömmu síðar var lagður grunnur að stofnun Brims með HB sem eina meginstoð.

"Meðan á þessu gekk höfum við Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjörns Fiskaness hf., nokkrum sinnum átt fund saman til að ræða um mögulegan ávinning af samruna félaganna, sem við erum fulltrúar fyrir. Margt jákvætt hefur komið fram. Og til að treysta tengslin milli fyrirtækjanna keypti Grandi í byrjun desember 24% hlut í Þorbirni Fiskanesi sem lá á lausu hjá þrem svolítið ráðvilltum aðilum. Við Eiríkur munum halda áfram að bera saman bækur okkar, en erum sammála um að það bráðliggi ekki á að leiða málið til lykta," að því er fram kom í ræðu Árna Vilhjálmssonar.

Grandi og Þorbjörn Fiskanes ráða sameiginlega í veiðiheimildum yfir rétt tæpum 42 þúsund þorskígildistonnum en það er rétt tæplega 10% af heildarkvótanum.

Grandi gerir út alls 5 togara, þar af þrjá frystitogara og dótturfyrirtæki Granda gerir út loðnuskipið Faxa og rekur tvær loðnuverksmiðjur, aðra í Reykjavík en hina í Þorlákshöfn.

Þorbjörn Fiskanes gerir út 10 skip og báta og bæði fyrirtækin eru síðan með öfluga fiskvinnslu.