Það getur kostað skildinginn að gleyma að setja í stöðumælinn.
Það getur kostað skildinginn að gleyma að setja í stöðumælinn.
ÉG var staddur í Reykjavík og ákvað að koma við í búð á Laugaveginum og lagði bílnum við stöðumæli en var ekki með 100 krónur á mér til að setja í mælinn.
ÉG var staddur í Reykjavík og ákvað að koma við í búð á Laugaveginum og lagði bílnum við stöðumæli en var ekki með 100 krónur á mér til að setja í mælinn. Ég ákvað að taka sjensinn og vera fljótur enda var ég ekki nema 4 mínútur, en þegar ég kom til baka þá var kominn sektarmiði upp á 1.500 kr. og ég bölvaði mér fyrir asnaskapinn. Síðan fór ég að hugsa um ferðirnar á Laugaveginn og nágrenni í gegnum tíðina og það komu góðar minningar þegar ég labbaði upp og niður Laugaveginn. Ég ákvað að koma aldrei þangað aftur á meðan þetta væri svona. Mig furðar ekki að fólki hafi fækkað á þessum slóðum þegar það er hægt að fá ókeypis bílastæði td. í Kringlunni og Smáratorgi svo að maður taki dæmi. En það er hægt að breyta þessu, ég kem að því síðar. Þegar ég kem á Laugaveginn og borga í mælinn þá get ég ekki farið langt því ég þarf að fara aftur og borga í mælinn. Þá fer tími til spillis þar sem ég annars gæti slappað af í verslunarleiðangrinum.

Einhver myndi segja að það væri hægt að skilja bílinn eftir í bílastæðishúsi, en ég segi til hvers þegar hægt er að fá ókeypis bílastæði annars staðar? Nei ég er með hugmynd sem gæti komið öðrum hugmyndum af stað þó ekki væri annað. Hún er sú að fólk gæti komið á vissum tímum þegar minnst hefur verið að gera hjá kaupmönnum á þessu svæði, og það legði bílunum á viss svæði og verslaði fyrir ákveðna upphæð og þar yfir. Síðan færi það að bílnum, tæki sektarmiðana, færi með þá á ákveðinn stað og sýndi bæði kvittanir og sektarmiðana og gengi frá sínum málum og færi svo sína leið. Síðan yrði reiknað út í prósentum og hver kaupmaður borgaði visst hlutfall af því sem var verslað fyrir hjá honum. Þannig myndu kaupmenn borga sektarmiðana og sleppa í staðinn þeim afslætti sem beir gefa hvort sem er, eða það sem betra er að hafa mann á kaupi sem setur í mælana fyrir þá sem ætla að versla á þessu svæði.

En eins og allir vita þá er hægt að misnota allt, en hægt er að ræða hvað er til ráða og taka á því þegar að því kemur. Ef kaupmenn hefðu mann á þessu svæði þá yrði borgin af þeim tekjum sem hún fær fyrir sektarmiðana og þá yrði hún að koma til móts við við kaupmenn. Þeir hafa verið að bíða eftir að borgin gerði eitthvað í þeirra málum en borgin hefur ekkert gert eins og allir vita. En það er hægt að gera þetta með góðu móti svo allir yrðu ánægðir, borgin, kaupmenn og það sem betra er kúnninn.

Eins og ég sagði áður þá verður eitthvað að gera, annars hættir fólk að koma þarna í framtíðinni. Auðvitað er alltaf hægt að finna smugu til að svindla en þá þarf að taka á því þegar að því kemur. Það kemur hvort eð er upp vandamál sem verður að leysa hvað sem við gerum í málunum.

Þetta þarf ekki endilega að vera eins og hugmynd mín en ein hugmynd skapar aðra hugmynd og svo framvegis. Allir geta verið sammála um það að þetta svæði er mjög mikilvægt fyrir samskipti fólks og bara gott líf í höfuðborg Íslands. Það er ekki flóknara en það.

RÚNAR ÞORGEIRSSON,

Túngötu 22, Grindavík.

Frá Rúnari Þorgeirssyni: