Helgi Brynjarsson
Helgi Brynjarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
2.-3. apríl 2003

DAGUR Arngrímsson, Hagaskóla, og Helgi Brynjarsson, Hlíðaskóla, urðu Skólaskákmeistarar Reykjavíkur á Skólaskákmóti Reykjavíkur sem fór fram 2. og 3. apríl. Dagur hlaut 3½ vinning í eldri flokki, eins og Hilmar Þorsteinsson, Hagaskóla. Þeir þurftu því að tefla einvígi um titilinn. Þar sigraði Dagur 1½-½. Í þriðja sæti varð Hjörtur Jóhannsson, Ölduselsskóla, en þessir þrír hljóta allir keppnisrétt á Landsmótinu í skólaskák. Keppendur í eldri flokki voru einungis fimm.

Helgi Brynjarsson varð einn efstur í yngri flokki með 7½ vinning. Í 2.-3. sæti urðu Hjörvar Steinn Grétarsson og Ingvar Ásbjörnsson með 6½ vinning, en þessir þrír hljóta einnig keppnisrétt á Landsmótinu í skólaskák. Úrslit í yngri flokki:

1. Helgi Brynjarsson, Hlíðaskóla 7½ v.

2. Hjörvar Steinn Grétarsson, Rimaskóla, 6½ v.

3. Ingvar Ásbjörnsson, Rimaskóla, 6½ v.

4.-5. Hallgerður Helga Þorsteinsd., Melaskóla, 6 v.

4.-5. Gylfi Davíðsson, Breiðagerðisskóla, 6 v.

6.-11. Sverrir Ásbjörnsson, Rimaskóla, Vilhjálmur Pálmason, Laugarnesskóla, Benedikt Sigurleifsson, Laugarnesskóla, Eggert Kári Karlsson, Laugarnesskóla, Senbeto Gebeno Gyula, Ölduselsskóla, Aron Hjalti Björnsson, Hlíðaskóla, 5 v.

12.-13. Karel Sigurðarson, Fossvogsskóla, Sigurður Davíð Stefánsson, Fossvogsskóla, 4½ v.

14.-15. Hreinn Bergs, Laugarnesskóla, Jónatan Birgisson, Háteigsskóla, 4 v. o.s.frv.

Keppendur voru 18. Skákstjórar voru Vigfús Óðinn Vigfússon og Torfi Leósson.

Hagaskóli Íslandsmeistari grunnskólasveita

Skáksveit Hagaskóla sigraði á Íslandsmóti grunnskólasveita. Yfirburðirnir voru ótvíræðir eins og sést af því, að sveitin missti aðeins niður hálfan vinning í 36 skákum og hlaut alls 35½ vinning, en skáksveit Hlíðaskóla varð í öðru sæti með 29½ vinning. Brekkuskóli varð í þriðja sæti með 23½ vinning. Úrslit urðu sem hér segir:

1. Hagaskóli 35½ v.

2. Hlíðaskóli 29½ v.

3. Brekkuskóli 23½ v.

4. Rimaskóli 21 v.

5. Laugarnesskóli-A 20 v.

6. Lundarskóli 19 v.

7. Salaskóli-A 19 v.

8. Breiðagerðisskóli 18 v.

9. Melaskóli 18 v.

10. Salaskóli-B 17½ v.

11. Digranesskóli 17 v.

12. Fossvogsskóli 15½ v.

13. Laugarnesskóli-B 14½ v.

14. Álftanesskóli 12½ v.

15. Heppuskóli 7½ v.

Sigursveit Hagaskóla skipuðu:

1. Dagur Arngrímsson

2. Hilmar Þorsteinsson

3. Aron Ingi Óskarsson

4. Víkingur Fjalar Eiríksson.

Fyrirliði Hagaskóla var Arngrímur Gunnhallsson. Sveitirnar voru skipaðar nemendum grunnskóla víðsvegar að af landinu. Þátttaka var mun minni en oft áður. Skákstjórar voru Sigurbjörn Björnsson, Haraldur Baldursson og Ríkharður Sveinsson.

Atkvöld á mánudag

Taflfélagið Hellir heldur næsta atkvöld mánudaginn 7. apríl og hefst mótið kl. 20. Fyrst verða tefldar 3 hraðskákir þar sem hvor keppandi hefur 5 mínútur til að ljúka skákinni og síðan þrjár atskákir með tuttugu mínútna umhugsun.

Sigurvegarinn fær verðlaun, mat fyrir tvo frá Dominos pizzum. Þá verður annar keppandi dreginn út af handahófi, sem einnig fær máltíð fyrir tvo hjá Dominos pizzum. Þar eiga allir jafna möguleika, án tillits til árangurs á mótinu.

Þátttökugjald er kr. 300 fyrir félagsmenn (kr. 200 fyrir 15 ára og yngri) og kr. 500 fyrir aðra (kr. 300 fyrir 15 ára og yngri). Allir velkomnir.

Vigfús Ó. Vigfússon sigraði á síðasta atkvöldi Hellis, sem fram fór 31. mars, eftir jafna og spennandi keppni við Lenku Ptácníková og Sæbjörn Guðfinnsson. Þurfti stigaútreikning til að skera úr um sigurvegara. Vigfús tapaði fyrir Lenku í fyrstu umferð en Lenka tapaði fyrir Sæbirni. Vigfús hafði svo sigur á Sæbirni. Lenka sá um skákstjórn. Lokastaðan á atkvöldinu:

1. Vigfús Ó. Vigfúss. 5 v.

2. Lenka Ptácníková 5 v.

3. Sæbjörn Guðfinnss. 5 v.

4. Ólafur S. Helgason 3½ v.

5. Davíð Guðnason 3 v. o.s.frv.

Páskaeggjamót Hellis

Hið árlega Páskaeggjamót Hellis verður haldið mánudaginn 7. apríl 2003 og hefst taflið kl. 17, þ.e. nokkru fyrr heldur en venjulegar mánudagsæfingar. Páskaeggjamótið kemur í stað mánudagsæfingar. Tefldar verða 7 umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma. Mótið er opið öllum 15 ára og yngri. Ókeypis er fyrir félagsmenn í Taflfélaginu Helli en fyrir aðra er þátttökugjald kr. 500.

Allir þátttakendur keppa í einum flokki, en verðlaun verða veitt í tveimur aðskildum flokkum. Páskaegg verða í verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, bæði í eldri flokki (fæddir 1987-9) og yngri flokki (fæddir 1990 og síðar). Að auki verða tvö páskaegg dregin út og efsta stúlkan í mótinu fær páskaegg í verðlaun.

Páskaeggjamótið verður haldið í félagsheimili Hellis í Álfabakka 14a í Mjódd. Inngangur er við hliðina á Sparisjóði Reykjavíkur, en salur félagsins er á þriðju hæð hússins.

Skákþing Íslands - Áskorenda- og unglingaflokkur

Skákþing Íslands 2003, áskorenda- og unglingaflokkur (Unglingameistaramót Íslands u-20) verður haldið dagana 12.-20. apríl. Áskorendaflokkur (flokkur undir 2.000 stigum og flokkur undir 1.600 stigum) og unglingaflokkur verða sameinaðir og mun sá sem efstur verður þeirra sem ella hefðu keppt í unglingaflokki hljóta titilinn "Unglingameistari Íslands 2003" og í verðlaun farseðil (á leiðum Flugleiða) á skákmót erlendis. Fyrsta daginn verða tefldar 3 atskákir og síðan kappskákir hina dagana. Umferðatafla:

Laugard. 12.4. kl. 14, 1.-3. umf.

Mánud. 14.4. kl. 18, 4. umf.

Þriðjud. 15.4. kl. 18, 5. umf.

Miðvikud. 16.4. kl. 18, 6. umf.

Föstud. 18.4. kl. 14, 7. umf.

Laugard. 19.4. kl. 14, 8. umf.

Sunnud. 20.4. kl. 14, 9. umf.

Teflt verður eftir svissneska kerfinu. Umhugsunartími í kappskákunum verður 2 klst. á 40 leiki og 1 klst. til að ljúka skákinni.

Verðlaun: 1. kr. 20.000, 2. kr. 12.000, 3. kr. 8.000.

Þátttökugjald fyrir 18 ára og eldri kr. 2.000, fyrir 15-17 ára kr. 1.300 og fyrir 14 ára og yngri kr. 800.

Teflt verður í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur, Faxafeni 12. Skráning hefst á mótsstað klukkustund áður en fyrsta umferð hefst.

Daði Örn Jónsson