Stjórnmálasamtökum, sem vilja gera atlögu að "Fjórflokknum" og hyggja á framboð fjölgar enn. Nýjustu samtökin kalla sig "Nýtt afl" og hyggja á framboð í Reykjavíkurkjördæmunum báðum í hið minnsta.
Stjórnmálasamtökum, sem vilja gera atlögu að "Fjórflokknum" og hyggja á framboð fjölgar enn.

Nýjustu samtökin kalla sig "Nýtt afl" og hyggja á framboð í Reykjavíkurkjördæmunum báðum í hið minnsta.

Samtökin ætla að berjast fyrir því að "gefið verði upp á nýtt", sem er væntanlega tilvísun í stefnu Franklins D. Roosevelt Bandaríkjaforseta á kreppuárunum og að auki berjast gegn "spillingarstefnu stjórnvalda".

Á fundi þar sem samtökin kynntu stefnumál sín sagði talsmaður þeirra meðal annars: "Við sem að þessum samtökum stöndum erum gríðarlega óánægð með þá öfugþróun sem hefur orðið í þjóðfélaginu á undanförnum misserum og við viljum reyna að knýja stjórnar- og stjórnmálaflokkana til þess að beina umræðunni nú á meðan menn lifa í landi loforðanna inn á þau atriði sem við teljum að knýjandi sé að ræða. Við teljum að ríkisstjórnin hafi gersamlega brugðist í að gæta hagsmuna almennings, við teljum að forgangsröðunin og áherslurnar í þjóðfélaginu séu algerlega rangar. Þær einkennist miklu frekar af nokkurs konar minnisvarðapólitík heldur en því að taka mið af hagsmunum og lífshamingju fólksins í landinu."

Miðað við þá svörtu mynd sem þarna er dregin upp er erfitt að sjá að fulltrúar Nýs afls hafi dvalið mikið á Íslandi undanfarin ár.

Það sem einkenndi síðastliðinn áratug var eitthvert mesta hagsældarskeið Íslandssögunnar. Þegar því lauk tókst að lenda efnahagslífinu mjúklega og nú bendir allt til að nýtt hagvaxtarskeið sé í uppsiglingu. Kaupmáttur launa hefur aukist um tugi prósenta á undanförnum árum. Skattar á einstaklinga og fyrirtæki hafa verið lækkaðir og starfsumhverfi fyrirtækja verið fært í betra horf með ýmsum hætti. Ljóst er að á næstu árum mun gefast svigrúm til verulegra lækkana á sköttum einstaklinga því til viðbótar. Samt er meiri fjármunum varið í heilbrigðis- og menntamál en nokkurn tímann fyrr. Samið hefur verið um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi er munu hleypa nýju lífi í þann landshluta jafnt sem efnahagslífið í heild.

Er þetta "minnisvarðapólitík" og "algjörlega röng" forgangsröðun? Ef svo er myndu líklega flestir kjósa meira af því sama í stað þess að láta gefa upp á nýtt.