Söngsveit Hveragerðis ásamt stjórnanda sínum, Kristínu Sigfúsdóttur.
Söngsveit Hveragerðis ásamt stjórnanda sínum, Kristínu Sigfúsdóttur.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILD Hamars og Söngsveit Hveragerðis tóku saman höndum og efndu til tónleika nýlega í Hveragerðiskirkju. Kirkjan var troðfull og var stólum dreift alls staðar þar sem hægt var að koma þeim fyrir.
KÖRFUKNATTLEIKSDEILD Hamars og Söngsveit Hveragerðis tóku saman höndum og efndu til tónleika nýlega í Hveragerðiskirkju. Kirkjan var troðfull og var stólum dreift alls staðar þar sem hægt var að koma þeim fyrir.

Um fjögur hundruð manns komu á tónleikana og var aldursforsetinn Sigríður Ólafsdóttir, móðursystir Álftagerðisbræðra, 96 ára, sem kom að hlusta á strákana sína. Kynnir tónleikanna var hagyrðingurinn og Skagfirðingurinn Bjarni Konráðsson. Hann lét gamminn geisa í kynningum og fór með frumsamdar vísur um tónlistarfólkið.

Söngsveitin hóf tónleikana og söng nokkur lög. Undirleikari söngsveitarinnar er Ester Ólafsdóttir og stjórnandi Kristín Sigfúsdóttir. Í tveimur síðustu lögunum var undirleikurinn í höndum Árna Einarssonar, Sigurðar E. Einarssonar, Ians Wilkinsons og Margrétar S. Stefánsdóttur. Einnig lék Guðmundur Pálsson á fiðlu í einu laginu. Áður en söngsveitin hóf sinn söng var gestum tjáð að yngsti Álftagerðisbróðirinn, Óskar, hefði lent í því að flugvélin sem hann áætlaði að koma með hefði bilað. Hann væri á Miklubrautinni og von væri á honum innan tíðar.

Kórinn söng sín lög og gerði það með glans. Margrét S. Stefánsdóttir kom á eftir kórnum og söng tvö lög, annað um fuglinn sem kom að sunnan og hitt finnskt og í því fylgdu fuglahljóðin, alveg stórskemmtilegt lag. Síðasta atriði fyrir hlé var söngur bræðranna frá Álftagerði. Það er eiginlega varla hægt að koma því í orð, áhrifin sem tónleikagestir urðu fyrir að hlusta á þessa stórkostlegu söngvara. Þeim er ekkert heilagt frekar en Bjarna kynni og gerðu grín að sjálfum sér og öðrum á milli laga.

Eftir hlé komu þau Margrét S. Stefánsdóttir og Óskar Pétursson og sungu saman tvo dúetta, sem þau sögðust hafa æft stíft í hléinu. "Að vísu var alltaf verið að trufla okkur, en þetta er semsé mikið æft," sagði Óskar. Þau Margrét og Óskar sungu dúettana eins og englar svo trúlega hafa þau eitthvað æft sig. Álftagerðisbræður enduðu svo tónleikana með glans eins og þeir einir kunna.