Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Pharmaco, segir stuðning öflugra fyrirtækja við menningarstarfsemi nauðsynlegan, en Pharmaco er styrktaraðili Listasafns Íslands og var aðalfundur félagsins haldinn þar.
Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Pharmaco, segir stuðning öflugra fyrirtækja við menningarstarfsemi nauðsynlegan, en Pharmaco er styrktaraðili Listasafns Íslands og var aðalfundur félagsins haldinn þar.
VELGENGNI Pharmaco sýnir hve mikilvægt það er fyrir hvert þjóðfélag að stuðla að þekkingariðnaði. Þetta sagði Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Pharmaco, á aðalfundi Pharmaco sem haldinn var á Listasafni Íslands í gær.
VELGENGNI Pharmaco sýnir hve mikilvægt það er fyrir hvert þjóðfélag að stuðla að þekkingariðnaði. Þetta sagði Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Pharmaco, á aðalfundi Pharmaco sem haldinn var á Listasafni Íslands í gær. Pharmaco er nú verðmætasta fyrirtæki í Kauphöll Íslands með 18,6 milljarða króna veltu á síðasta ári. Viðskipti með bréf Pharmaco námu 14% af veltu Kauphallarinnar á síðasta ári.

Björgólfur Thor greindi frá helstu atburðum síðasta árs hjá félaginu. Hann sagði það sérstaklega ánægjulegt að halda fundinn í húsakynnum Listasafnsins, en Pharmaco hefur verið styrktaraðili safnsins í vetur. "Stuðningur öflugra fyrirtækja við menningarstarfsemi af þessu tagi er nauðsynlegur."

Björgólfur Thor var endurkjörinn í stjórn Pharmaco á fundinum. Aðrir í stjórn Pharmaco eru Björgólfur Guðmundsson, Karl Wernersson, Magnús Þorsteinsson og Sindri Sindrason.

Sá síðastnefndi kvaddi sér hljóðs að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum. Sagði Sindri það hafa verið sérlega ánægjulegan áfanga fyrir sig að sjá Delta og Pharmaco sameinuð á ný á síðasta ári. Hann sagði það vel við hæfi að "hætta á toppnum" og vísaði til þess að Pharmaco er verðmætasta fyrirtæki landsins. Fundarmenn stóðu upp og hylltu Sindra Sindrason með lófataki en hann hyggst láta af störfum á miðju þessu ári eftir 22 ára starf sem forstjóri Pharmaco.

Í máli Björgólfs Thors kom fram að mikið heillaspor hefði verið stigið þegar Pharmaco og Delta sameinuðust. Stærð sameinaðs fyrirtækis gerði því nú kleift að sækja frekar inn á erlenda markaði og gerði yfirtökur á öðrum fyrirtækjum mögulegar.

Hyggjast hagræða í rekstrinum

Með því að sameina skrifstofur Zdravlje og Balkanpharma í Moskvu og fækka starfsmönnum í Mið- og Austur-Evrópu vonast yfirmenn Pharmaco eftir því að ná fram hagræðingu í rekstri samstæðunnar. Þetta kom fram í máli Róberts Wessmanns, forstjóra Pharmaco, á fundinum.

Hann sagði endurfjármögnun langtímalána samstæðunnar vera á lokastigum en með henni væri ætlunin að lækka vaxtakostnað.

Róbert Wessmann sagði að til stæði að fjölga mörkuðum fyrir eigin vörumerki Pharmaco. Meðal þeirra markaða sem eru í skoðun eru Svíþjóð, Pólland, Ungverjaland, Tékkland, Slóvakía, Rúmenía og Slóvenía.

Pharmaco stefnir að því að opna söluskrifstofu í Svíþjóð og í Mið-Evrópu á þessu ári. Ennfremur er unnið að því að fjölga lyfjum inn á markaði í Mið- og Austur-Evrópu. Róbert sagði að unnið væri að skráningum lyfja Delta, Omega Farma og UNP fyrir markaði Balkanpharma. Hann sagði að 30 lyf væru í skráningu á helstu markaði.

Sækja inn á Bandaríkjamarkað

Stærstur hluti lyfja sem Pharmaco framleiðir, eða 26%, er settur á markað í Þýskalandi. Næst á eftir kemur Búlgaría með 24% og þá Rússland með 14%. Á markað hér á landi fara um 6% framleiðslu Pharmaco. Inn í þessa mynd vantar þó Serbíu en Pharmaco festi kaup á lyfjaverksmiðju þar í landi á síðasta ári.

"Bandaríkjamarkaður er mikilvægur og við ætlum að halda áfram að sækja inn á hann á árinu," sagði Róbert. Hann sagði stefnt að því að fjölga lyfjum í þróun fyrir Bandaríkjamarkað á næstunni.

Pharmaco ætlar að fara með 5 ný lyf í skráningu sem sett verða á markað í Saudi-Arabíu. Salan hefst undir lok árs undir merkjum Pharmaco.

Pharmaco hefur hingað til eingöngu selt lyf sem félagið sjálft framleiðir. Róbert sagði að á árinu 2003 hygðist Pharmaco selja arðbær lyf undir merkjum félagsins sem framleidd eru af þriðja aðila.