Hluti af verkum barnanna.
Hluti af verkum barnanna.
Í DAG hefst myndlistarsýning nemenda frá öllum átta grunnskólum Kópavogs í Gamla bókasafninu, Fannborg 3. Sýningin er tileinkuð Gerði Helgadóttur myndlistarkonu en hún hefði orðið 75 ára hinn 11. apríl, en þá lýkur sýningunni.
Í DAG hefst myndlistarsýning nemenda frá öllum átta grunnskólum Kópavogs í Gamla bókasafninu, Fannborg 3. Sýningin er tileinkuð Gerði Helgadóttur myndlistarkonu en hún hefði orðið 75 ára hinn 11. apríl, en þá lýkur sýningunni.

Myndlistarkennararnir í skólunum í Kópavogi kynntu Gerði og verkin hennar fyrir nemendum sínum. Nemendurnir unnu síðan verk í hennar anda.

Unnið var með margs konar efni og má m.a. sjá myndverk og skúlptúra úr leir, gleri, steinum, vír og pappír. Nemendur á aldrinum 6-16 ára gerðu verkin sem eru alls á milli 200 og 300.

Hugmyndin um að setja upp sameiginlega myndlistarsýningu kom fram í fyrra. Húsnæðisskortur olli því þó að ekki var hægt að setja hana upp. "Það kom í ljós í vetur að gamla bókasafnið stæði autt, svo okkur fannst tilvalið að nota tækifærið," sagði Guðný Jónsdóttir, myndlistakennari í Kársnesskóla. "Okkur fannst upplagt að tileinka þetta Gerði því fljótlega verður opnuð sýning með verkum hennar ásamt því að hún hefði orðið 75 ára í ár."

Guðný lagði áherslu á að hér væri um alvörumyndlistarsýningu að ræða. "Þetta er alvörumyndlistarsýning og við leggjum mikinn metnað í hana. Hér eru margir efnilegir listamenn. Krakkar eru með svo mikinn sköpunarkraft og hann er svo einlægur og brýst svo óhikað fram. Þetta er eiginleiki sem margir fullþroska listamenn öfunda börn af. Það má því gera barnamyndlist hátt undir höfði," sagði Guðný.

Sýningin verður opin kl. 14-17 um helgina en kl. 15-18 mánudag til föstudags.