Dominique de Villepin, í miðju, ásamt þeim Joschka Fischer (t.v.) og Ígor Ívanov í París í gær.
Dominique de Villepin, í miðju, ásamt þeim Joschka Fischer (t.v.) og Ígor Ívanov í París í gær.
DOMINIQUE de Villepin, utanríkisráðherra Frakklands, kallaði í gær eftir því að sáttum yrði komið á í alþjóðasamfélaginu, sem hefur verið klofið vegna Íraksstríðsins, og ítrekaði mikilvægi þess að Sameinuðu þjóðirnar lékju stórt hlutverk við...
DOMINIQUE de Villepin, utanríkisráðherra Frakklands, kallaði í gær eftir því að sáttum yrði komið á í alþjóðasamfélaginu, sem hefur verið klofið vegna Íraksstríðsins, og ítrekaði mikilvægi þess að Sameinuðu þjóðirnar lékju stórt hlutverk við enduruppbyggingu Íraks að stríði loknu.

"Stríðið í Írak er harmleikur, en ég tel að allt hafi verið gert til að afstýra því," sagði de Villepin, en franska stjórnin hefur, ásamt þeirri þýzku og rússnesku, verið í fararbroddi í andstöðu við hernað Bandaríkjamanna og Breta í Írak.

Villepin lét þessi orð falla eftir viðræður í Róm við hinn ítalska starfsbróður sinn Franco Frattini, en fyrr um daginn hittust þeir de Villepin og starfsbræður hans frá Rússlandi og Þýzkalandi, Ígor Ívanov og Joschka Fischer, í París.

Utanríkisráðherrarnir þrír lýstu m.a. áhyggjum sínum af þeirri umræðu sem nú ætti sér stað á Bandaríkjaþingi, þar sem lagt er til að fyrirtæki frá Frakklandi, Þýzkalandi og Rússlandi verði útilokuð frá því að taka þátt í útboðum í verkefni við enduruppbyggingu Íraks, sem bandarísku skattfé yrði varið til.

París, Róm. AFP.