"Jöfnun lífskjara verður að vera meðal forgangsverkefna ef árangur á að nást í byggðamálum. Það er stefna jafnaðarmanna."
Sama daginn og við Ingibjörg Sólrún héldum fyrsta fundinn í fundaferð okkar um landið, fimmtudaginn 27. febrúar, birti ríkisstjórnin upplýsingar um byggðaþróun á Íslandi síðustu tíu árin. Þar var upplýst, að á sl. áratug hefði Íslendingum fjölgað næstmest innan evrópska efnahagssvæðisins, eða um 10%. Á sama tíma fækkaði Vestfirðingum hinsvegar um heil 18%, íbúum Norðurlands vestra um 11%, og Austfirðingum um 10%. Í þessum hamfaratölum birtast skuldaskil byggðastefnu núverandi stjórnvalda við landsbyggðina.

Orsakir fólksfækkunar

Fólksfækkun á landsbyggðinni á sér flóknar orsakir sem oft er erfitt að greina.

Kvótakerfi, þar sem hægt er með einni undirskrift að flytja lífsbjörgina úr byggðarlaginu, er augljóslega ein af meginorsökum þess að sum byggðarlög hafa veikst. Sandgerði og Ísafjörður segja allt sem segja þarf.

Í könnun Háskólans á Akureyri kom fram að hátt vöruverð á mikinn þátt í að fólk flytur af landsbyggðinni. Kristján L. Möller, einn ötulasti þingmaður landsbyggðarinnar, gerði eigin verðkönnun. Hún sýndi að munurinn á verði einstakrar vörutegundar milli landsbyggðar og þéttbýlis gat orðið allt að 108%. Vitaskuld á þetta sinn þátt í fólksfækkun á landsbyggðinni.

Nýlega lækkaði svo ríkisstjórnin tekju- og eignaskatta fyrirtækja en hækkaði tryggingargjald. Hagnaður fyrirtækja á landsbyggðinni er hins vegar lítill, þannig að lægri tekjuskattur kemur þeim almennt ekki til góða. En tryggingargjald leggst á mannafla, sem er undirstaða fyrirtækjanna á landsbyggðinni. Skattkerfisbreytingarnar styrktu þess vegna fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu en ekki á landsbyggðinni.

Margir bundu vonir við flutning fjarvinnslustarfa á vegum ríkisins til landsbyggðar. Kristján L. Möller spurðist á liðnu þingi fyrir um hversu ráðherrum hefði gengið í þessu. Valgerður byggðaráðherra hafði flutt eitt starf, hinir ekkert!

Þrepaskiptur þungaskattur

Verðkönnun Kristjáns L. Möller leiddi í ljós þá óvæntu niðurstöðu, að hátt vöruverð á landsbyggðinni mátti að töluverðu leyti rekja til aukinnar skattlagningar ríkisins á flutningum. Skv. upplýsingum þeirra sem reka flutningafyrirtæki eru 40-50% af kostnaði þeirra skattgreiðslur til Geirs H Haarde fjármálaráðherra. Þar er þungaskatturinn langósanngjarnastur. Það er tillaga okkar í Samfylkingunni, að sérstaklega verði skoðað, hvort ekki sé rétt að fara að dæmi Norðmanna og þrepaskipta þungaskattinum. Hugsanlega mætti fara aðrar leiðir til að lækka flutningskostnað. Lækkun á honum myndi styrkja rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni og lækka vöruverð.

Tvöföldun námsstyrkja

Þurfi unglingar að sækja framhaldsskóla út fyrir byggðarlag sitt, getur kostnaður við það numið allt að 400 þúsund krónum á ári. Margir skilgreina þetta sem sérstakan landsbyggðarskatt. Hann ýtir mjög undir að foreldrar flytji suður þegar börnin komast á framhaldsskólaaldur. Gegn þessu er hægt að sporna með tvennu móti.

Samfylkingin hefur kynnt til leiks hugtakið "Nýi framhaldsskólinn". Hann byggir á því að fjarnámi um Netið er fléttað saman við kennslu ákveðins grunnkjarna í héraði. Unglingarnir geta þá stundað fyrstu ár framhaldsnámsins heima, og hugsanlega má taka allan skólann með þeim hætti. Þetta er partur af menntastefnu Samfylkingarinnar, þar sem mikil áhersla er lögð á landsbyggðina.

Hin leiðin felst í því að jafna námskostnað því að stórhækka námsstyrkinn til þeirra sem þurfa að sækja nám í framhaldsskóla út fyrir heimabyggð sína. Á fundi okkar Ingibjargar Sólrúnar á Ísafirði kynnti ég þá hugmynd Samfylkingarinnar, að stefnt yrði að því að tvöfalda námsstyrkina á næsta kjörtímabili.

Stofnkostnaðarstyrkir

Í Noregi og innan ESB, meta stjórnvöld viðskiptahugmyndir frumkvöðla. Reynist þær góðar, eiga þeir kost á drjúgum fjárhagslegum stuðningi yfirvalda. Dæmi eru um, að fyrirtæki, sem ætluðu að hasla sér völl á Íslandi, hafi beinlínis verið "keypt" erlendis vegna slíkra styrkja.

Íslendingar verða að standast slíka samkeppni. Við verðum að geta boðið okkar frumkvöðlum, og okkar atvinnulífi upp á sama umhverfi að þessu leyti. Ella verður landið ekki samkeppnisfært. Samfylkingin hefur því á stefnu sinni að taka upp stofnkostnaðarstyrki af þessu tagi. Þeir munu ekki síst nýtast landsbyggðinni vel.

Rétturinn til að róa

Sjávarútvegsstefna Samfylkingarinnar miðar að því að endurúthluta kvóta í krafti fyrningarleiðarinnar. Í því kerfi munu þau byggðarlög í reynd hafa forskot sem, eru næst miðunum. Það skiptir líka máli, að fyrningarleið Samfylkingarinnar felur í sér byggðatengingu varðandi úthlutun aflaheimilda, þannig að sérstaklega er hægt að taka á byggðarlögum sem stríða við atvinnuvanda. Grundvallarreglan í kerfi Samfylkingarinnar er að allir njóti jafnræðis við að verða sér úti um aflaheimildir. Við höfum kallað þetta réttinn til að róa.

Samfylkingin er mjög hlynnt því að smábátaútgerð verði efld, og vill stefna að því að trillurnar fái einar að sitja að grunnslóðinni í framtíðinni. Það ýtir ekki aðeins undir smábátaútgerð, heldur verndar hrygningarslóðina, og dregur úr hættu á ofveiði. Kyrrstæð veiðarfæri geta tæpast ofveitt stofna. Í ljósi þess að æ fleiri rannsóknir benda til staðbundinna þorskstofna hér við land er tímabært að gera tilraunir með frjálsar krókaveiðar dagróðrabáta með takmörkunum á sókn, svæðum og veiðarfærum. Framhaldið yrði svo ákveðið í ljósi reynslunnar.

Jöfnun lífskjara verður að vera meðal forgangsverkefna ef árangur á að nást í byggðamálum. Það er stefna jafnaðarmanna. Ríkisstjórn, sem mynduð verður með þátttöku Samfylkingarinnar, mun efla landsbyggðina með samgöngubótum, bættu atvinnulífi og aukinni menntun.

Eftir Össur Skarphéðinsson

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.