MIKIL viðskipti voru með Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í Kauphöll Íslands í gær eða fyrir 1.211 milljónir króna. Grandi seldi allan hlut sinn í félaginu til Íslandsbanka og Hraðfrystihúsið-Gunnvör seldi næstum allan sinn hlut einnig til Íslandsbanka.
MIKIL viðskipti voru með Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í Kauphöll Íslands í gær eða fyrir 1.211 milljónir króna.

Grandi seldi allan hlut sinn í félaginu til Íslandsbanka og Hraðfrystihúsið-Gunnvör seldi næstum allan sinn hlut einnig til Íslandsbanka.

Samkvæmt hálf fimm fréttum Búnaðarbankans átti Grandi 9,89% í SH en Hraðfrystihúsið-Gunnvör átti 5,11% og seldi rúm 5% af þeim hlut. Íslandsbanki á eftir viðskiptin 15,5% hlut í SH. Bæði Grandi og Hraðfrystihúsið-Gunnvör seldu á genginu 5,35 sem er um 6% hærra en lokagengi dagsins á fimmtudag. Lokaverð SH í Kauphöll Íslands var 5,15 í gær. Nú er mánuður liðinn frá því að SH og SÍF slitu sameiningarviðræðum sínum sem höfðu staðið frá því fyrir áramót. Ástæðan var sögð sú að of mikið bæri á milli í mati á virði hvors félags til að samkomulag gæti náðst.

"Það er athyglisvert að síðan viðræðunum lauk hefur Íslandsbanki eignast yfir 15% eignarhlut í báðum félögum. Félögin tvö reka víða erlendis söluskrifstofur í sömu löndum og má gera ráð fyrir að sameining hefði getað haft í för með sér mikinn sparnað á rekstrarkostnaði. Félögin reka m.a. bæði söluskrifstofur á Spáni, Japan, Frakklandi og Noregi," að því er segir í hálf fimm fréttum Búnaðarbankans í gær.

Að sögn Árna Vilhjálmssonar, stjórnarformanns Granda, breytir salan á bréfunum í SH engu um áhuga félagsins á að eiga farsæl viðskipti við SH.