Jóhann Sigurjónsson
Jóhann Sigurjónsson
"ÞAÐ er eðlilegt og mikilvægt að sjómenn og aðrir sem þekkingu og áhuga hafa á sjósókn og fiskistofnum haldi uppi lifandi umræðu um fiskifræði og skynsamlega nýtingu fiskistofnanna.
"ÞAÐ er eðlilegt og mikilvægt að sjómenn og aðrir sem þekkingu og áhuga hafa á sjósókn og fiskistofnum haldi uppi lifandi umræðu um fiskifræði og skynsamlega nýtingu fiskistofnanna. Það er ekki síst til þess fallið að örva sérfræðinga og efla rannsóknirnar ef umræðan er fram sett af skynsemi og sanngirni," segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar. Nokkuð hefur borið á gagnrýni á stofnunina vegna hægrar uppbyggingar þorskstofnsins og að stofnmælingar gefi ekki rétta mynd af stöðu stofnsins.

Jóhann segir að enginn geti verið glaður yfir því að afrakstur þorskstofnsins sé of lítill í dag miðað við það sem hann gæti verið ef allt væri með felldu. Þó aðferðir Hafrannsóknastofnunarinnar séu langt í frá óskeikular sé hins vegar fjarri lagi að meginskýringar ástandsins sé að leita í aðferðafræði við rannsóknir, svo sem framkvæmd og túlkun togararallsins. "Sannleikurinn er sá að togararall og aðrar staðlaðar aðferðir óháðar fiskveiðunum eru grundvallaratriði þegar þróun veiða er metin því tækniframfarir í veiðunum gerir samanburð erfiðan til langs tíma litið. Nærtækasta skýringin um ástand þorskstofnsins er auðvitað alltof mikil þorskveiði undanfarna fjóra áratugi þó síðasta áratuginn hafi verið stór breyting á. Mikil sókn er megin orsökin, á því er enginn vafi. Til marks um ofveiðina er breyting á aldurssamsetningu í afla þar sem hlutfall kynþroska eldri fisks er orðið hverfandi í dag miðað við það sem áður var. Hafa verður í huga að þorskafli umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar sl. 20 ár nemur á aðra milljón tonn."

Jóhann segir að stofnunin hafi einnig bent á aðra þætti, svo sem á almennt óhagstæðari skilyrði fyrir þorsk á Íslandsmiðum og nærliggjandi hafsvæðum sl. þrjá áratugi miðað við tímabilið 1920-1965 og þar af leiðandi lakari skilyrði fyrir uppvöxt þorsks við Grænland og göngur þorsks á Íslandsmið. "Við höfum bent á óþekkt umfang og hugsanleg áhrif brottkasts, dulda sóknaraukningu vegna stöðugra tækniframfara, hugsanleg áhrif veiða á uppsjávarfiski á afrakstur botnfiskstofna og stækkun hvalastofna. Á síðustu misserum hafa umræður um erfðabreytileika í þorskstofni og mikilvægi nýtingarinnar með tilliti til stofnsamsetningar verið áberandi. Verulegt átak hefur verið í rannsóknum á þessum þáttum á undanförnum árum.

Að mörgu að huga

Það eru því mörg álitaefnin varðandi líffræði og nýtingu þorskstofnsins og mikilvægt að menn leiti markvisst leiða til að öðlast betri skilning á orsakasamhenginu. Hafrannsóknastofnunin hefur tekið þátt í tugum funda á sl. ári um þessi mál, hefur með skipulegum hætti fengið vana sjómenn og útvegsmenn til samstarfs um rannsóknirnar og mun á næstunni kynna nýjungar í miðlun gagna sem gera mun fleirum kleift að gera sjálfstæða skoðun á gögnum og greiningu þeirra. Þannig er það von okkar að unnt verði að efla þekkingu og styrkja umræðuna um ábyrgar fiskveiðar."

Jóhann segir að umræðan um ástand fiskistofnanna verði að taka tillit til allra þátta og hafa langtíma uppbyggingu að leiðarljósi. "Þorskurinn er langlíf skepna og þó upp komi nokkrar aflahrotur sem alls ekki þurfa að tengjast stærri stofnstærð, er af og frá að þörf sé að auka við aflaheimildir. Til þess þarf að liggja fyrir greining á ýmsum öðrum þáttum. Fullyrt er að nokkur tími líði frá því að fiskifræðingar fá veiðiupplýsingar í hendur þar til niðurstaða þeirra liggi fyrir, jafnvel nokkrir mánuðir, og er það að hluta til rétt. En eins og fyrr segir kemur það alls ekki að sök við ákvörðun aflamarks í langlífri fiskitegund og á ekki að kasta rýrð á núverandi fyrirkomulag mála."

Verndun smáfisks og hrygningarstofns nauðsynleg

Jóhann segir að starfsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar hafi heyrt raddir sjómanna þess efnis að fiskgengd hafi aukist á grunnslóð út af Vestfjörðum og norðan lands. Það sé í samræmi við væntingar fiskifræðinga vegna uppvaxandi árganga á uppeldisslóð, en gagnstætt því sem sumir fullyrða, að nú sé lag að auka veiði, er mikilvægt að allir sameinist um að vernda þessa vænlegu árganga svo stofninn eigi einhverja von að komast úr núverandi lægð. "Á sama hátt er það nú afar brýnt verkefni að friða stærsta hrygningarfiskinn, einkum hér suðvestanlands, sem sérfræðingar telja nú hafa náð hættumörkum. Þess vegna lagði Hafrannsóknastofnunin nýlega fram tillögur um minnkun leyfilegs möskva á þorsknetum sem erfitt er að finna rök sem mæla gegn. Á sama hátt og þetta mun koma verr niður á tilteknum veiðisvæðum og hluta veiðiflotans, eins og verndun smáfisks vestan og norðan lands, eru þetta alnauðsynlegar aðgerðir til að snúa við óheillavænlegri þróun," segir Jóhann.