Sigur Rós býr  sig undir átök ársins...
Sigur Rós býr sig undir átök ársins...
SIGUR RÓS er nú stödd í Bandaríkjunum á miðju tónleikaferðalagi og um þessar stundir eru þeir félagar; Jónsi, Goggi, Kjartan og Orri í Arizona og eru á vesturleið.
SIGUR RÓS er nú stödd í Bandaríkjunum á miðju tónleikaferðalagi og um þessar stundir eru þeir félagar; Jónsi, Goggi, Kjartan og Orri í Arizona og eru á vesturleið. Á dögunum léku þeir í hinni frægu tónleikahöll Radio City Music Hall í New York við góðan orðstír.

Þann 26. mars var sendur út á NBC flutningur Sigur Rósar á laginu "Ónefnt nr. 1" eða "Vaka" sem gefið verður út á smáskífu 5. maí næstkomandi (útgáfa hefur tafist út af vandræðum vegna meðfylgjandi mynddisks). Flutningurinn var í þættinum Seinasta pöntun hjá Carson Daly (Last call with Carson Daly) og var myndbandið við lagið sýnt í bakgrunninum. Við lok flutningsins hélt Jónsi, söngvari og gítarleikari, lófa sínum á loft og var þar búinn að krota áróður gegn stríðinu í Írak.

Þegar Ameríkuför lýkur er ferðinni heitið til Japan (14. - 16. apríl). Þýskaland og Ítalía er svo á kortinu og einnig leika þeir á tveimur stórum hátíðum, á Hróarskeldu og í Glastonbury.

Þann 16. maí mun Frakkur, raftónlistarverkefni sem er útskot frá Sigur Rós, leika 45 mínútna sett sem kallast "Songs for the little boy" á lítilli tónlistarhátíð í Seattle. Hátíðin heitir Laurie Anderson's 150w: An Experiment in Collaboration.

Í byrjun ágúst fer sveitin svo til Þrándheims hvar hún leikur á Ólafs-hátíðinni, sem hefur aðallega með djass að gera. Þar mun hún flytja Hrafnagaldur Óðins.

Þá hafa Sigur Rós og Radiohead uppi áform um að semja tónlist fyrir hinn virta danshöfund Merce Cunningham. Yrði það fyrir verk sem frumflutt verður í New York í október.

Að lokum er gaman frá því að segja að eighteen seconds before sunrise, sem er opinber fréttasíða sveitarinnar (á vefslóðinni www.sigur-ros.co.uk) sagði frá því 1. apríl að tvö lög Sigur Rósar yrðu notuð í myndinni Bad Boys 2. Það var svo dregið til baka daginn eftir enda um létt og skemmtilegt aprílgabb að ræða.

www.sigur-ros.co.uk