Lesendur Morgunblaðsins geta komið spurningum varðandi sálfræði-, félagsleg og vinnutengd málefni til sérfræðinga á vegum persona.is. Senda skal tölvupóst á persona@persona.is og verður svarið jafnframt birt á persona.is.
Amma mín greindist með vitglöp. Hvað er það?

Vitglöp er sama og heilabilun (dementia), en algengara er að seinna orðið sé notað og mun ég því halda mig við það. Heilabilun er yfirhugtak (heilkenni) og talið er að um 100 sjúkdómar geta orsakað heilabilun sem allir lýsa sér með skerðingu á starfsemi heilans. Algengasta form heilabilunar er alzheimer-sjúkdómur með 65-75% tilfella, næst kemur svo heilabilun vegna æðakölkunar eða blóðtappa í heila, því næst er svokallaður levy-sjúkdómur og svo framheilarýrnun. Heilabilun er öldrunarsjúkdómur, en talið er að um 65 ára aldur séu um 2-4% fólks með heilabilun og að sá fjöldi tvöfaldist á hverjum fimm árum eftir það. Þegar fólk uppfyllir greiningarskilmerkin fyrir heilabilun, eins og amma þín virðist gera, þá er vitræn skerðing orðin það mikil að hún hefur truflandi áhrif á daglegt líf. Hinsvegar minnist þú ekkert á hvort búið sé að greina hverskonar heilabilun sé um að ræða og því mun ég tala hér um heilabilun almennt útfrá því sem algengast er.

Heilabilun veldur verulegri skerðingu á minni, en mikilvægt er að hafa hugfast að það er ekki eingöngu minni sem skerðist og raunar dugir minnisskerðing ein og sér ekki til að viðkomandi fái greiningu um heilabilun. Auk minnisskerðingar þarf eitthvað af öðru vitrænu starfi einnig að vera skert, eins og til dæmis mál, verklag, einbeiting, skipulagning, ratvísi, sjónræn úrvinnslu eða dómgreind. Sumt af þessu hefur jafnvel meiri áhrif á einstaklinginn og hans nánustu en minnisskerðingin ein og sér. Persónuleiki, skapgerð og hegðun breytist. Skert sjúkdómsinnsæi er algengt, þar sem viðkomandi gerir sér ekki grein fyrir að eitthvað amar að honum sjálfum og er því oft undrandi á viðbrögðum annarra og telur oft að verið sé að svíkja sig á einhvern hátt. Viðkomandi getur hagað sér undarlega, verið tortrygginn og haft ranghugmyndir. Umhverfið verður þeim erfitt viðureignar og þeim finnst það jafnvel óvinveitt. Þetta getur svo skapað öryggisleysi, ótta, kvíða og þunglyndi - sem oft lýsir sér með andlegu ójafnvægi, pirringi og reiði. Annað sem gerist eru erfiðleikar við að finna orð (einkum nafnorð), koma frá sér setningum og tjá sig (málstol). Viðkomandi á erfiðara með að gera hluti, sem áður var ekkert mál að framkvæma, án þess að líkamleg færni sé hamlandi, til dæmis að eiga við ýmis verkfæri eða heimilistæki (verkstol). Verðmætamat kemur til með að brenglast í sjúkdómsferlinu og margvísleg vandamál geta fylgt því. Erfiðlega gengur að fylgjast með hvaða dagur, mánuður eða ár er. Einnig koma upp erfiðleikar við að lesa á klukku. Hafa ber í huga að einkenni og þróun sjúkdómsins fer eftir því hverskonar heilabilun er um að ræða og er einnig mismunandi milli einstaklinga.

Vonandi að þú sért einhvers vísari um hvað heilabilun er.

Gangi ykkur vel.

Eftir Smára Pálsson sálfræðing

Höfundur starfar hjá sálfræðiþjónustu vefrænna deilda LSH - Landakoti.