[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Það er því algjörlega ljóst að staðhæfingar Seðlabankans og annarra þeirra, sem fjallað hafa um áhrif framkvæmdanna á Austurlandi sem þensluvalds, snúa á haus."
ÞAÐ hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar ef þeir sem stjórna Kópavogi hefðu lýst því yfir, þegar þeir tóku við stjórn bæjarins fyrir tólf árum, að íbúum bæjarins myndi um þessar mundir fjölga til jafns við íbúa í Austurlandskjördæmi sem þá var. Á þessum tíma hefur Kópavogsbúum fjölgað um ca. 9.000 en íbúatala á Austurlandi er tæplega 12.000. Þegar til þess er litið að mikill uppgangur er í Kópavogi og nokkuð er um að fólk annar staðar að eigi þar húsnæði má vel ætla að innan seilingar sé að Kópavogur hafi á framfaraskeiði sínu lagt grundvöll að nýrri byggð sem gæti hýst alla Austfirðinga. Svona eru aðstæður ólíkar.

Eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd hefur fækkun íbúa á Austurlandi frá upphafi síðasta áratugar verið tæplega 1.500. Þetta samsvarar því að byggð á Egilsstöðum hefði lagst af á þessum árum. Að viðbættri eðlilegri fólksfjölgun hefur fækkun íbúa verið um 3.000 en það samsvarar fjölda íbúa Fjarðabyggðar.

Af fyrirliggjandi heimildum má ráða að á síðustu fimmtán árum hafi störfum á Austurlandi fækkað um ca. 750 en það er álíka mörg störf og álbræðslan þarf til sinnar starfsemi og henni tengdra verka. Þessi fækkun hefur einkum orðið í þeim greinum sem stærstan hlut hafa borið í atvinnulífinu á Austurlandi, landbúnaði og fiskvinnslu. Enn liggja þessar greinar undir miklum kröfum um aukna hagræðingu og fækkun starfa. Fullvíst er að ný störf betur borguð munu draga til sín fólk frá öðrum greinum. Samkvæmt þessu er ekki fjarri lagi að ætla að álbræðslan á Reyðarfirði og starfsemi henni tengd muni færa fólksfjölda á Austurlandi til svipaðs horfs og var í upphafi síðasta áratugar.

Þrátt fyrir þessa óæskilegu íbúaþróun stendur búseta Austurlands víðast hvar traustum fótum og sameiginlega myndar Austurland sterka heild. Það myndi kosta mikla fjármuni ef vista ætti allt það fólk sem kemur til með að starfa að nýju verkefnunum á Austurlandi í einu sveitarfélagi. Skipan byggðarinnar eykur því enn á hagkvæmni þessara framkvæmda því stór hluti austfirsku byggðanna á atvinnusókn inn á Reyðarfjarðarsvæðið.

Austfirðingar hafa byggt upp öfluga þjónustu sem kallað hefur eftir fleira fólki til starfa enda hefur störfum í þjónustu fjölgað þar um ca. 200 á síðustu árum. Kannanir sýna að Austfirðingar eru ánægðir með sinn hlut í þessum efnum. Á Austurlandi eru því góð skilyrði til að veita fólkinu þar góða þjónustu þótt íbúum þar fjölgi til sama horfs og var í upphafi síðasta áratugar og reyndar þótt fleiri verði. Því að sannmæli er að: "Margar hendur vinna létt verk."

Þótt hér hafi verið stiklað á stóru má vel ráða að aðstæður á Austurlandi til að takast á við þau stórbrotnu verkefni sem framundan eru og skapa munu nýja tíma í atvinnuháttum þar eru á margan hátt ákjósanlegar. Afkoma fólksins batnar, hagræðing í öðrum greinum eykst, þjónustustofnanir verða betur nýttar og ný verkefni bætast við. Framkvæmdirnar kalla eftir nýju vinnuafli m.a. frá höfuðborgarsvæðinu sem dregur úr hættu á þenslu þar. Ríkisútgjöld aukast ekki að marki en skatttekjur vaxa. Þessi ákjósanlega þróun í búskaparháttum verkar öll til sama vegar, að auka arðsemi. Efnahagsumhverfi af þessum toga leiðir ekki til verðbólgu né þenslu. Það verkar til ráðdeildar og er hvati til eflingar arðbærs rekstrar.

Það er því algjörlega ljóst að staðhæfingar Seðlabankans og annarra þeirra, sem fjallað hafa um áhrif framkvæmdanna á Austurlandi sem þensluvalds, snúa á haus. Þess vegna er fráleitt að hafa þær fyrir tilefni, þegar verið er að forsvara háa vexti sem almenningur hefur illan bifur á enda geta þeir verið hvati að erlendum lántökum og rýrt viðskiptakjör þeirra greina sem framleiða á erlenda markaði. Óáran af þessum toga verður að byggja á ástæðum sem að slíkri þróun eru valdar. En hér er líka að fleiru að gá. Með sífelldu þenslutali mótast umræðan og neikvæð viðbrögð fá aukin byr. Þessa er reyndar farið að gæta í málflutningi forsvarsmanna Samfylkingarinnar sem hafa ítrekað haldið fram að fjárveitingar til samgöngubóta og atvinnuuppbyggingar úti á landi séu við þessar aðstæður hið mesta óráð.

Breytingar á búsetuháttum í landinu, eins og í upphafi var nefnt, eru þensluvaldur. Vel má vera að til þess að hafa hemil á þeim draug þurfi að beita óyndisaðgerðum í vöxtum og gengi. Annað er um arðbærar framkvæmdir eins og hafnar eru á Austurlandi, sérstaklega þegar þjónusta af ýmsum toga af nútímaháttum er fyrir hendi. Þess vegna er nauðsynlegt að Seðlabankinn fái sér nýtt forrit svo að ráð hans um framgang efnahagsmála byggist á réttum grunni og taki mið af gangi mála alls staðar á Íslandi.

Eftir Egil Jónsson

Höfundur er fv. alþingismaður.