"Hins vegar verður ekki séð að til slíkrar stjórnarmyndunar sé hægt að ganga án þess að það kosti pólitíska einangrun "forsætisráðherraefnis" flokksins."
EF marka má skoðanakannanir gæti sú staða komið upp að loknum alþingiskosningum að einungis væri til staðar einn möguleiki á myndun tveggja flokka stjórnar í landinu: samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það er athyglisvert að íhuga þá stöðu nánar í ljósi málflutnings talsmanna þessara flokka í framhaldi af því að forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, stimplaði sig inn í landsmálin.

Reynum að sjá fyrir okkur ríkisstjórn þar sem Ingibjörg Sólrún situr sem forsætisráðherra og Davíð Oddsson gegnir t.d. embætti fjármálaráðherra. Eru líkur á að slíkt samstarf gangi upp eftir að þessir tveir stjórnmálaforingjar hafa sett á svið illvígustu persónulegu deilur sem sést hafa í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið? Menn minnast þeirra orða Ingibjargar Sólrúnar að hún sé ekki í pólitík til að framlengja pólitískt líf Davíðs Oddssonar. Ætli Ingibjörg Sólrún sér að standa við þá yfirlýsingu mun hún ekki þiggja sæti sem "óbreyttur" ráðherra í fjórðu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Nú er út af fyrir sig fyllsta tilefni til að taka yfirlýsingar og heitstrengingar Ingibjargar Sólrúnar ekki alltof hátíðlega. Reykvíkingar muna vel að loforð hennar frá því nokkrum dögum fyrir borgarstjórnarkosningar um að gegna borgarstjóraembætti út kjörtímabilið voru gleymd og grafin á aðventu. Vissulega nýtur Ingibjörg Sólrún álits og virðingar sem öflugur stjórnmálamaður en samt er hennar "pólitíska kapital" tæplega svo mikið að hún geti tvívegis á tæpu ári haft tilfinningaþrungnar heitstrengingar að engu og valið sér leið pólitískrar hentistefnu. Að því orðnu mun enginn maður trúa neinu sem frá henni kemur.

Á hinn bóginn má velta því fyrir sér að Ingibjörg Sólrún myndi fyrir hönd Samfylkingarinnar ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Sjá menn fyrir sér að Davíð Oddsson, sem segir að Sjálfstæðisflokkurinn muni aðeins mynda tveggja flokka stjórn eða velja stjórnarandstöðu, tæki sæti "óbreytts" ráðherra í slíkri ríkisstjórn undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar? Vissulega eru stjórnmál list hins mögulega en fyrir mitt leyti fæ ég ekki varist glotti við tilhugsunina. Ef heilindin í ríkisstjórnarsamstarfi næsta kjörtímabilið eiga að velta á góðu persónulegu samstarfi milli Davíðs Oddssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þarf ekki að ætla þeirri stjórn langa lífdaga.

Ekki er að efa að innan Samfylkingarinnar ganga margir með "viðreisnarsteinbarn" í kviði sér og fýsir að hefja samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Hins vegar verður ekki séð að til slíkrar stjórnarmyndunar sé hægt að ganga án þess að það kosti pólitíska einangrun "forsætisráðherraefnis" flokksins, - þess sama forsætisráðherraefnis og kjósendum er nú fyrir kosningar talin trú um að eigi að leiða flokkinn út úr pólitískri eyðimörk og til valda.

Eftir Þorlák Björnsson

Höfundur er formaður kjördæmaráðs framsóknar- félaganna í Reykjavík.