"Ríkisútvarpið stendur aldrei í stað heldur er í sífelldri endurnýjun."
MIKILVÆGAR skipulagsbreytingar urðu hjá Ríkisútvarpinu með flutningi dagskrárstjórnar Rásar 2 til Akureyrar á árinu 2002. Jafnframt er Akureyri orðin miðstöð fyrir landshlutastarfsemi RÚV. Þar er yfirumsjón með rekstri svæðisútvarpsstöðvanna ásamt fréttaöflun og dagskrárgerð í þágu allra miðla RÚV. Starfsemin á Akureyri fluttist jafnframt í nýtt og hentugt húsnæði í miðbænum, þar sem tekinn var í notkun stafrænn tæknibúnaður. Hann byggist á tölvuúrvinnslu frétta- og dagskrárefnis þannig að ekki er lengur hljóðritað á segulbönd.

Efling RÚV úti á landsbyggðini er í samræmi við yfirlýst ætlunarverk og markmið þess. Þau mótast af byggðastefnu stjórnvalda og almennri umræðu í samfélaginu. Umsvif RÚV úti á landi snerust til skamms tíma fyrst og fremst um svæðisútvarpsrekstur í þágu viðkomandi landshluta. Þá er útvarpað staðbundið um dreifikerfi Rásar 2 hluta úr degi. Rás 2 er því forsenda fyrir þessari þjónustu RÚV við landsbyggðina. Að öðru leyti þjónar Rás 2 hlustendum um allt land með líflegri samfélagsumfjöllun sinni og annarri dagskrá. Þáttagerð fyrir Rás 1 fer einnig fram í landshlutastöðvum RÚV.

Þá er ekki síður mikilvæg hin aukna aðild landhlutastöðvanna að fréttaþjónustu fyrir Sjónvarpið. Fréttamyndir og pistlar utan af landi birtast í síauknum mæli í fréttatímum þess. Starfsmenn landshlutastöðvanna hafa rutt brautina við úrlausn verkefna fyrir alla miðla RÚV og vinna því jöfnun höndum fyrir útvarp og sjónvarp, bæði fréttamenn og tæknimenn. Það verklag mun færast í vöxt á komandi árum. Tæknibúnaðurinn, sem nú ryður sér til rúms, býr yfir auknum möguleikum til slíkra hluta.

Á höfuðborgarsvæðinu búa rúm 60% þjóðarinnar og þar er framboð og samkeppni fjölmiðla mest. Tæknilega séð er það auðsótt mál og hlutfallslega útgjaldalítið að hefja þar rekstur á nýjum útvarps- eða sjónvarpsrásum. Enda þótt Ríkisútvarpinu sé ætlað að þjóna öllum landsmönnum má það ekki verða eftirbátur annarra á stærsta þéttbýlissvæðinu. Ekkert er aðfinnsluvert við að nýjungar í þjónustu RÚV þróist fyrst um sinn í þeim landshluta og breiðist síðan út til annarra byggða. Svo var um Sjónvarpið á sínum tíma og uppbyggingu FM-kerfis fyrir Rás 1 og Rás 2.

Á næstu fimm árum má gera ráð fyrir mikilvægum breytingum á tæknisviðinu og þá um leið dagskrárframboði hjá Ríkisútvarpinu. Netinu mun enn vaxa fiskur um hrygg og stafrænt dreifikerfi á eftir að ryðja sér til rúms fyrir útvarp og sjónvarp innan fárra ára. Þetta kallar á breytingar eða veitir tækifæri til veigamikilla nýjunga hjá Ríkisútvarpinu sem felast í eftirtöldum atriðum:

Útsendingar RÚV um gervihnött verði hafnar, fyrst og fremst í þágu íslenzkra sjómanna og Íslendinga, sem búsettir eru erlendis. Tímabært er að gera tilraunir á þessu sviði.

Nýtt stafrænt dreifikerfi skapar skilyrði til að Ríkisútvarpið hefji rekstur á annarri sjónvarpsrás.

Ný útvarpsrás, Rás 3 með sígildu tónlistarefni, taki til starfa.

RÚV-vefurinn með aðaláherzlu á almenna fréttaþjónustu, barna- og unglingaefni, almennt fræðsluefni og íþróttir verði efldur til muna.

Stofnun sameiginlegs fréttasviðs RÚV með sérstökum forstöðumanni á árinu 2002 var merkilegur áfangi. Það styrkir enn frekar fréttaþjónustu RÚV, sem almenningur leggur mesta áherzlu á þegar spurt er um viðhorfið til þjónustu Ríkisútvarpsins. Fréttir og fréttatengdir þættir í RÚV er það efni sem fólk metur mest og treystir bezt. Í því mati hefur RÚV mikið forskot á aðra fjölmiðla í landinu. Markmiðið með skipulagsbreytingunni er að bæta þjónustuna enn, ná fram betri og hagkvæmari vinnu með samstilltu átaki fréttastofa útvarps og sjónvarps, sem þó starfa áfram tiltölulega sjálfstætt og hefur hvor sinn fréttastjóra.

Um þessar mundir virðist eiga sér stað töluverð uppstokkun á íslenzkum dagblaðamarkaði. Stöðugleiki undanfarinna áratuga er ekki lengur fyrir hendi. Ríkisútvarpið hefur háð samkeppni við aðra ljósvakamiðla í 17 ár. Það er mikil breyting að hverfa úr einkaleyfisrekstri yfir í stöðugt kapphlaup um áhorf og hlustun og þar með viðskipti auglýsenda líkt og Ríkisútvarpið hefur orðið að gera síðan 1986. Þá voru skrifaðar lærðar ritstjórnargreinar í dagblöð um að hinar nýju stöðvar ætluðu sýnilega að skáka Ríkisútvarpinu ef ekki ýta því baksviðs og setja það í aukahlutverk. Þetta hefur ekki orðið raunin. Síður en svo.

Þrátt fyrir allar úttektir, umræður um breytt rekstrarform og útvarpslaganefndir á nefndir ofan sýnir reynslan að mikill meirihluti landsmanna telur Ríkisútvarpið sem fyrr mikilvægasta fjölmiðil sinn. Þjóðin kann vel að meta þjónustu þess og vill í stærstu dráttum að rekstrinum verði áfram hagað með líku sniði og nú. Það viðhorf mótast að sjálfsögðu af því að Ríkisútvarpið stendur aldrei í stað heldur er í sífelldri endurnýjun, hefur framtíðarsýn og lagar sig að breyttum aðstæðum, nýrri tækni og kröfuharðari markaði. Þetta hefur tekizt ágætlega, þannig að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er sáttur við sitt Ríkisútvarp eins og kannanir hafa margfaldlega leitt í ljós.

Eftir Markús Örn Antonsson

Höfundur er útvarpsstjóri RÚV.