"Lyfjaeftirlit á Íslandi er skrípaleikur en verður að sjálfsögðu óþarft þegar þátttöku í alþjóðlegu íþróttastarfi lýkur."
Í BYRJUN mars s.l. var haldinn fjölmennur fundur í Kaupmannahöfn sem gæti þýtt endalok þátttöku íslenskra ungmenna í Ólympíuleikum og alþjóðaíþróttum.

Fundurinn var haldinn af hinni nýju Alþjóðastofnun gegn lyfjamisnotkun (World Anti-Doping Agency) WADA, sem var sett á laggirnar eftir fund í Lausanne 1999. Tildrög stofnunar WADA voru kröftug mótmæli margra ríkisstjórna vegna meintrar linkindar Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC, í baráttunni gegn lyfjamisnotkun í íþróttum.

Höfuðstöðvar WADA eru í Montreal í Kanada undir forystu Richard Pound varaforseta IOC. Í stjórn WADA eru fulltrúar margra ríkisstjórna, Evrópuráðsins og alþjóðasérsambanda, auk Ólympíuhreyfingarinnar. Síðastliðin fjögur ár hafði verið unnið að samræmdri, endurbættri og hertri stefnuskrá um viðbrögð við lyfjamisnotkun í íþróttum og var stefnuskráin samþykkt á fundinum í Kaupmannahöfn, þ.e. World Anti-Doping Code. Skrána má sjá á vefsíðu WADA, þ.e. www.wada-ama.org.

Stefnuskráin grundvallast á fyrri skrá IOC og áhersla er lögð á siðfræði, "fair play", heiðarleika og heilbrigði. Til viðbótar eru tekin upp helstu áhersluatriði einstakra alþjóðasérsambanda og þeirra ríkisstjórna sem hafa tekið yfir lyfjaeftirlit í eigin löndum auk margra nýjunga.

Lögleg lyf

Meginþorri lyfja á "bannlistanum" eru lögleg lyf í læknisfræði séu þau notuð á réttum forsendum og í réttum skömmtum. Á listanum er t.d. hjartalyf, þvagræsilyf og jafnvel insúlín. Lyf eru sett á listann þegar vitað er að íþróttamenn misnota þau til að ná árangri, bæði vegna þeirrar hættu sem því er samfara og siðleysis.

Það er hins vegar viðurkennt sem fyrr, að íþróttamenn geti þurft að nota lyf af bannlista af sérstökum heilsufarsástæðum, en jafnframt sé nauðsynlegt að sporna við mikilli sókn í lyf eins og astmalyf, en 70-80% íþróttamanna á Vetrarólympíuleikunum í Lillehammer þóttust hafa astma. Kröfur um sönnun á sjúkdómi þ.e. óvéfengjanlegt læknisvottorð, eru mjög hertar en mörg alþjóðasérsambönd eins og t.d. alþjóðakörfuboltasambandið, FIBA, höfðu þegar mjög skýrar reglur um þetta. Nákvæms eftirlits er þá krafist með meðferð.

Áréttað er að afturvirk leyfi verði ekki veitt, fremur en fyrr, sama hvaða lyf er um að ræða.

Í skránni er það nýtt, að gert er ráð fyrir að refsing við hvers konar stuðlun að lyfjamisnotkun, yfirhylmingu eða aðstoð verði lengd í 4 ár. Svör allra jákvæðra sýna fara til WADA, IOC og viðkomandi alþjóðasérsambands og er fylgst grannt með afgreiðslu mála.

Í sérstakri grein stefnuskrárinnar er tekið fram að þær ólympíunefndir eða ríkisstjórnir sem fara ekki eftir reglunum fái ekki að senda íþróttamenn á Ólympíuleika eða stórmót í framtíðinni. Þetta ítrekuðu bæði Dr. Jacque Rogge forseti IOC og Richard Pound stjórnarformaður WADA við fjölmiðla og mætti halda að þeim orðum væri beint sérstaklega að ÍSÍ, en einsýnt er að með núverandi stefnu forseta og stjórnar ÍSÍ í lyfjamálum mun þátttöku íslenskrar æsku í þessum íþróttaviðburðum ljúka.

Meistaratitlar og lyfjabrot

Undir núverandi forystu ÍSÍ er það látið viðgangast að meistaratitlar í íþróttum vinnist þrátt fyrir lyfjabrot. Skjólstæðingum forsetans er sleppt við viðurlög eftir jákvæð sýni án þess að nokkrar skýringar hafi komið fram fyrir eða við lyfjapróf. Þetta er réttlætt með afturvirku læknisvottorði sem aldrei hefur verið leyfilegt og þess utan uppfyllti engan veginn vel skilgreindar kröfur viðkomandi alþjóðasérsambands. Þetta er dyggilega stutt af launuðum starfsmönnum sem jafnframt eru starfsmenn lyfjafyrirtækis sem er framleiðandi astmalyfja. Lyfjafræðsla til íþróttamanna hlýtur því að snúast um hvernig forðast megi refsingu með góðum samböndum eða tegundum lyfja, en aðrir brotlegir íþróttamenn og lögmenn þeirra hljóta að krefjast hins sama.

Ísland er orðið að svörtum sauði í samfélagi íþróttaþjóða og skilgreinist sem ,,drug cheater", þ.e. lyfjasvindlari, sem er neikvæðasta skammaryrði í íþróttum. Lyfjaeftirlit á Íslandi er skrípaleikur en verður að sjálfsögðu óþarft þegar þátttöku í alþjóðlegu íþróttastarfi lýkur.

Eftir Birgi Guðjónsson

Höfundur er sérfræðingur í lyflækningum og situr í læknanefnd Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins.