"Þúsundir fjölskyldna njóta þess jafnréttis sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið á."
ÉG heyrði einu sinni af manni sem leit upp af sjúkrabeð og sagði við eiginkonu sína: "Þú hefur alltaf staðið við hliðina á mér þegar ég hef farið í gegnum mikla erfiðleika. Þegar ég varð gjaldþrota stóðst þú við hlið mér. Þegar ég var rekinn úr vinnunni stóðst þú við hlið mér. Og nú eftir að ég lenti í bílslysinu stendur þú hér við hlið mér." Svo bætti hann við hugsi: "Varla er þetta tilviljun. Ólánið hlýtur að fylgja þér."

Sagan af karlinum rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las grein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um jafnréttismál, sem birtist hér í Morgunblaðinu á dögunum. Líkt og karlinn kemst hún að niðurstöðu, sem getur ekki annað en komið manni í opna skjöldu.

Í greininni gagnrýnir Ingibjörg Sólrún ríkisstjórnina fyrir aðgerðaleysi á sviði jafnréttismála. Henni finnst lítið til verka ríkisstjórnarinnar koma í samanburði við árangurinn í Reykjavík. Staðreyndin er hins vegar sú að stærsti áfanginn í jafnréttisbaráttunni síðastliðinn áratug er sú ákvörðun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að feður skuli fá þriggja mánaða fæðingarorlof. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins var sú ákvörðun tekin að feður og mæður skyldu fá sama rétt til fæðingarorlofs og samtals er orlofið nú níu mánuðir. Nú þegar nýta 80% feðra sér orlofið.

,,Sú litla sækir miklu meira í mig"

Ég upplifði þessa viðhorfsbreytingu mjög sterkt á dögunum þegar ég var að spjalla við ungan föður. Hann hafði verið heima við í nokkra daga vegna veikinda dóttur sinnar og ég spurði hvort þau hjónin tækju jafnan þátt í að sinna dætrunum þegar þær veiktust. Hann sagði að þannig væri það með yngri dótturina. ,,Ástæðan er sú að ég fékk fæðingarorlof til að vera heima hjá þeirri litlu. Ég fékk hins vegar ekki tækifæri til þess með eldri dótturinni sem fæddist áður en feður fengu þennan sjálfstæða rétt. Vegna þessarar nánu samveru í fæðingarorlofinu sækir sú litla miklu meira í mig en áður og vill ekki síður hafa mig heima en mömmu sína þegar hún veikist." Mér fannst dýrmætt að hlusta á þennan unga pabba lýsa því hvernig fæðingarorlofið styrkti samband feðginanna og um leið treysti það fjölskylduböndin.

Hátt í sjö þúsund feður hafa síðastliðin tvö ár notið þess að fara í fæðingarorlof og fjöldinn allur á eftir að fá tækifæri til þess á næstu árum. Í mínum huga er þessi ákvörðun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar merkasti áfanginn sem náðst hefur í jafnréttismálum um langt árabil. Afleiðingin er sú að feikilega merkileg breyting er að verða á viðhorfum til hefðbundinnar verkaskiptingar kynjanna og ekkert er mikilvægara til að ná fram raunverulegu jafnrétti í íslensku samfélagi.

Stefna Samfylkingarinnar bitnar á fjölskyldunum

Forsvarsmenn Samfylkingarinnar stæra sig af því að Reykavíkurborg hafi mótað jafnréttisstefnu og ráðið konur í stjórnunarstöður. Gagnvart fjölda borgarbúa blasir hins vegar við að fjölskyldurnar í Reykjavík líða fyrir stjórnun borgarinnar, sem einkennist af áralöngum biðlistum eftir leikskólaplássum og ýmiss konar annarri þjónustu. Hvernig er hægt að monta sig af almennum stefnuyfirlýsingum og jafnrétti fárra stjórnenda þegar fjöldi fjölskyldna líður fyrir skort á þjónustu á vegum borgarinnar?

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur athafna í þágu fjöldans. Þúsundir fjölskyldna hafa nú fengið að njóta þess jafnréttis sem ríkisstjórnin hefur komið á og grunnur hefur verið lagður að viðhorfsbreytingu til framtíðar. Að gera lítið úr þeim árangri er ómálefnalegt og ekki til þess fallið að viðurkenna hvaða áfangar raunverulega skila markverðum árangri í jafnréttisbaráttunni.

Eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur

Höfundur hefur starfað með Sjálfstæðum konum.