RÁÐGJAFARFYRIRTÆKIÐ Moody's í London segir að lánshæfismat sitt á Búnaðarbankanum haldist óbreytt um sinn á meðan sameiningarviðræður bankans við Kaupþing banka eru svo skammt á veg komnar.
RÁÐGJAFARFYRIRTÆKIÐ Moody's í London segir að lánshæfismat sitt á Búnaðarbankanum haldist óbreytt um sinn á meðan sameiningarviðræður bankans við Kaupþing banka eru svo skammt á veg komnar. Telur Moody's of snemmt að segja til um hvort lánshæfismat Búnaðarbankans breytist. Í fréttatilkynningu sem fyrirtækið birti í gær segir að líklegt sé að matið sjálft breytist ekki þó bankinn verði sameinaður Kaupþingi banka en líklegt sé að framtíðarhorfur Búnaðarbankans verði metnar sem "stöðugar" en ekki "jákvæðar" eins og nú er. Frá þessu segir í frétt Reuters.

Þar segir að hugsanleg breyting á mati á framtíðarhorfum Búnaðarbankans endurspegli þá óvissu sem fylgi því að sameina tvo banka með ólíka starfsemi. Búnaðarbankinn sé fyrst og fremst viðskiptabanki en Kaupþing banki hins vegar fjárfestingarbanki með megnið af starfsemi sinni erlendis.

Moody's telur að bankarnir tveir geti virkað vel saman en segir töluverða áhættu þó fylgja sameiningu svo ólíkra banka. Í Morgunpunktum Kaupþings í gær er vitnað í tilkynningu Moody's en þar segir að verði af sameiningu bankanna tveggja muni "nýtt lánshæfismat bankanna fyrst og fremst taka mið af því hvernig stjórnendum tekst að halda á spöðunum í sameiningarferlinu; að ná fram hagræðingu og tekjuaukningu jafnframt því að stýra aukinni áhættu sem hugsanlega gæti fylgt rekstri Kaupþings banka."