Framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, Hafdís Gísladóttir, lýsti því yfir í blaðinu í gær að heyrnarlausir mundu mótmæla breytingum á reglugerð um hlutdeild ríkisins í kostnaði við heyrnartæki.
Framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, Hafdís Gísladóttir, lýsti því yfir í blaðinu í gær að heyrnarlausir mundu mótmæla breytingum á reglugerð um hlutdeild ríkisins í kostnaði við heyrnartæki. Breytingin er á þá leið að föst fjárhæð mun koma í stað hlutfallslegrar niðurgreiðslu á hjálpartækjum sem heyrnarskertir þurfa á að halda.

Hafdís bendir á að flestir notendur slíkra tækja séu í hópi láglaunafólks og hækkun sem þessi, er nemur um 5%, komi sér illa fyrir marga. Jafnframt er í nýju reglunum gert ráð fyrir að föst niðurgreiðsla ríkisins á símatækjum fyrir heyrnarlausa komi í stað hlutfallslegrar niðurgreiðslu, en kostnaðarauki heyrnarlausra gæti numið um 5-10.000 krónum á tæki vegna þeirrar breytingar.

Nú, á ári fatlaðra, þætti eðlilegt að reglum væri breytt fötluðum til hagsbóta, en ekki öfugt líkt og hér virðist vera raunin. Sú skýring hefur verið gefin á ofangreindum breytingum að þar sem ný lög gefi fleiri aðilum en Heyrnar- og talmeinastöð Íslands færi á þjónustusamningum, sé eðlilegra að miða við fasta fjárhæð í stað hlutfallslegs framlags þar sem ríkið hafi engin áhrif á verðmyndun heyrnartækja á frjálsum markaði. Slík skýring er þó hæpin þar sem ætla má að aukin samkeppni á þessu sviði sem öðrum, leiði til verðlækkunar frekar en hækkunar. Hlutfallsleg niðurgreiðsla myndi í því tilfelli leiða til sparnaðar bæði fyrir ríkið og heyrnarlausa.

Byrði heyrnarlausra vegna fötlunar sinnar er umtalsverð. Það er því mikil afturför er aðgerðir yfirvalda verða til þess að auka hana enn frekar.