Breskur hermaður í hafnarbænum Umm Qasr við eitt af fjölmörgum veggspjöldum í Írak með mynd Saddams.
Breskur hermaður í hafnarbænum Umm Qasr við eitt af fjölmörgum veggspjöldum í Írak með mynd Saddams.
Saddam Hussein hefur að sögn Kristjáns Jónssonar lengi tryggt sér alræði í Írak með því að koma ávallt í veg fyrir að ein valdastofnun næði slíkri yfirburðastöðu að yfirmenn hennar gætu ógnað forsetanum.
SADDAM Hussein hefur í reynd verið valdamesti maður Íraks frá því um miðjan áttunda áratuginn. Hann var þá tæplega fertugur, fæðingarárið er umdeilt, og tók loks öll völd í sínar hendur er hann varð forseti 1979 með því að hrekja pólitískan velgerðarmann sinn, Hassan al-Bakr hershöfðingja, úr embætti. Með árunum tókst Saddam að búa til flókinn vef hagsmunatengsla milli hópa og einstaklinga úr helstu fylkingum samfélagsins, æðstu menn rökuðu einnig saman fé með þátttöku í smygli og margvíslegri spillingu. Svimandi hátt olíuverð bætti eftir 1973 hag þorra landsmanna sem undu því margir einræði Baath-flokksins betur.

Undirstöður skipulagsins eru af tvennum toga. Annars vegar er stjórnarflokkurinn, Baath-sósíalistar, og hins vegar sérsveitir sem hafa einkum það hlutverk að vernda forystuna fyrir hugsanlegum uppreisnarmönnum og launmorðingjum. Eru yfirmannastöður þar skipaðar mönnum frá ættborg forsetans, Tikrit og þaðan koma einnig flestir aðrir liðsmenn sveitanna. Flestir af æðstu mönnum Baath eru einnig frá Tikrit eða nálægum héruðum.

Sérfræðingur í málefnum Íraks, Charles Tripp, segir í grein á fréttavef BBC að líkja megi valdakerfinu við hringi, sá minnsti með Saddam í miðjunni en umhverfis hann eru aðrir stærri. Í innsta hring eru þeir sem forsetinn treystir best en þess ber að gæta að hann treystir engum fyllilega, ekki einu sinni eigin sonum, Uday og Qusay. Þeir hafa verið sagðir líklegir til að reyna að myrða föðurinn ef þeir teldu það geta tryggt sér völdin en þrengingarnar núna þjappa valdhöfunum vafalaust saman.

Einnig hafa synirnir keppt hart innbyrðis og sumir gruna Qusay um að hafa staðið fyrir tilræðinu sem næstum varð svallaranum Uday að bana 1996 en hann er nú að mestu bundinn við hjólastól. Heimilisböl Saddams hefur lengi verið vinsælt umræðuefni bak við tjöldin í Írak og arabaheiminum. Skilnaður hans fyrir nokkrum árum, flótti og svik tveggja tengdasona 1995 vegna deilna við Uday og morðið á þeim að skipan forsetans er þeir sneru aftur til Bagdad, villimannlegt dráp Udays á ungum smakkara föður síns í opinberri veislu og fleira er allt efni í grátbroslega sápu eða harmleik eftir atvikum.

Hollusta ættbálkahöfðingja

Flestir mennirnir í innsta hring eru af ættbálki Saddams, al-Bu-Nasir frá borginni Tikrit en forsetaættin kennir sig við hana, ættarnafnið sem Saddam notar er al-Tikriti. Til eru undantekningar og má nefna sem dæmi Tariq Aziz aðstoðarforsætisráðherra sem er ekki múslími úr röðum súnníta eins og Saddam og aðrir Tikriti-menn heldur kristinn, úr röðum þjóðarbrots Kaldea.

Mikil lýðfræðileg umskipti hafa orðið í Írak síðustu áratugina, nú býr mikill meirihluti þeirra í borgum. Þessi þróun hefur eins og víðar í arabaheiminum valdið pólitískri röskun, slaknað hefur á hefðbundnum tökum ættbálkahöfðingja á liðsmönnum þeirra. Bandaríski fræðimaðurinn Kenneth Pollack telur að um 25% Íraka taki enn mikið tillit til fyrirmæla höfðingjanna.

Saddam hefur tryggt sér með jafnt mútum sem hótunum og aftökum hollustu leiðtoga margra ættbálka, einkum meðal súnníta í dreifbýli en einnig meðal sumra shía-múslíma í sunnanverðu landinu og jafnvel Kúrda. Nokkrir klerkar hafa gerst liðsmenn Saddams en sögur fara af því að þeir séu oft þvingaðir til þess með gíslatökum og hótunum um að ættingjar verði ella myrtir. Oft hefur forsetinn gripið til blóðugra ofsókna til að hindra uppreisnir og látið flytja hundruð þúsunda manna með nauðung til annarra héraða. Olíuborgirnar Mósul og Kirkuk í norðri eru mikilvægar og þess vegna flutti hann fyrir um áratug fjölda araba til þeirra til að hrekja á brott Kúrdana sem þar bjuggu.

Arabískir þjóðernissinnar

Baath er flokkur sem kennir sig við sósíalisma en er fyrst og fremst arabísk þjóðernissinnasamtök veraldlega þenkjandi menntamanna í nokkrum löndum sem upphaflega höfðu það markmið að sameina þrjár arabaþjóðir, Sýrlendinga, Íraka og Egypta, í einu öflugu ríki og varpa endanlega af þeim oki evrópskrar nýlendukúgunar. Þegar flokkarnir höfðu náð völdum í tveim fyrrnefndu löndunum gufaði eindrægnin fljótt upp. Baath-sósíalistar Sýrlands og Íraks hafa síðustu áratugi ræktað með sér gagnkvæmt hatur og afbrýði; Sýrlendingar lögðu bandamönnum lið í Flóastríðinu 1991.

Baath í Írak tók sér strax til fyrirmyndar flokkseinræði eins og það tíðkaðist í kommúnistaríkjunum enda þótt flokkurinn hataðist mjög við kommúnista og legði sig fram um að uppræta starfsemi þeirra í landinu með sýndarréttarhöldum og launmorðum. Um allt Írak voru stofnaðar flokksdeildir og samfélagið var skipulagt með tilliti til þess að ekki væru leyfðar aðrar skoðanir en þær sem flokkurinn mælti með. Öryggislögreglan hafði síðan útsendara sína hvarvetna, hleraði samtöl og fylgdist með fjölmiðlum, kennsla í skólum var undir formerkjum innrætingar og háð ströngu eftirliti flokksapparatsins. Og eftir að Saddam varð forseti var þess gætt að mynd hans væri alls staðar, hvergi gátu Írakar verið án þess að vera minntir á valdhafann. Persónudýrkunin var taumlaus.

Heimildarmenn eru sammála um að þrátt fyrir mikið hatur á kommúnistum hafi Saddam lengi dáð mjög Jósef Stalín og talið hann fyrirmyndarstjórnanda. En aðrir minna á að að pólitískt uppeldi hafi hann fengið í æsku hjá móðurbróður sínum, Kairullah Tulfah, sem var liðsforingi í hernum, harður andstæðingur Breta í seinni heimsstyrjöld og dyggur aðdáandi nasista Adolfs Hitlers. Saddam hefur í líkingu við Hitler gætt þess vel að gera sem flesta æðri stjórnendur meðseka um helstu grimmdarverk gegn stjórnarandstæðingum til að tryggja sér hollustu þeirra. Þeir hafa ekki í önnur hús að venda ef stjórnin fellur og geta búist við að verða hundeltir af gömlum fórnarlömbum sínum eða ættingjum þeirra eftir hrunið. Vitað er að gerðar hafa verið margar tilraunir til að ráða Saddam af dögum síðustu tvo áratugina en hann er einstaklega gætinn og gefur ekki oft færi á sér.

Annað sem einkennir stjórnstíl Saddams og minnir á aðferðir Hitlers, sem gætti þess vel að deila og drottna þannig sjálfur yfir kerfinu, er að engin einstök stofnun í Írak fær alræðisvöld í sínum málaflokki. Af ásettu ráði er hlutverkaskiptingin óljós og valdsvið stofnana skarast oft. Aðeins einn ræður öllu, forsetinn. Ef einhver gerist of umsvifamikill kynnist hann fljótt hrammi harðstjórans.

Almenn öryggisgæsla er á höndum margra stofnana, þekktust er al-Mukhabarat, önnur al-Amn al-Khas, enn önnur al-Amn al-Amm. Eiga ófáir Írakar um sárt að binda eftir að hafa kynnst pyntingartækjum og dýflissum liðsmanna þessara stofnana. Margir hafa auk þess horfið sporlaust.

Veikleikar í kerfinu

Áðurnefndur Tripp bendir á að veikleikar séu í þessu kerfi, oft geti öfund milli æðstu embættismanna Saddams orðið svo mikil að kerfið virki illa.

Í landinu er hefðbundinn herafli sem Saddam mun treysta varlega, einnig annar og betur útbúinn og hálaunaður her, Lýðveldisvörðurinn, sem lýtur beinni stjórn forsetans og loks sjálft úrvalið, Sérsveitir Lýðveldisvarðarins, sem eru undir stjórn Qusays forsetasonar. Þær hafa notið mestra hlunninda allra hersveita landsins, eru vel búnar vopnum og eiga að verja Bagdad. Fullyrt er að sveitirnar séu sérþjálfaðar í borgahernaði. Þær hafa jafnframt það hlutverk að verja ráðamenn fyrir tilræðismönnum og kæfa uppreisnir í fæðingunni.

Fjölmennar, léttvopnaðar sveitir svonefndra píslarvotta Saddams, Fedayeen, formlega undir stjórn Udays forsetasonar, eiga síðan að halda uppi skæruhernaði ef annað bregst og hafa á undanförnum árum verið notaðar til að hræða almenning með hvers kyns fantaskap og hryðjuverkum enda Uday orðlagður grimmdarseggur. Bandamenn segja að Fedayeen-liðar hafi með hótunum hindrað marga íraska hermenn í að gefast upp í stríðinu.