Verur á hraðferð eftir  Chadwick.
Verur á hraðferð eftir Chadwick.
TÓMAS Ingi Olrich menntamálaráðherra opnar sýningu á skúlptúrum úr silfri í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar kl. 15 í dag, laugardag. Sýningin heitir Sterling Stuff og kemur til Íslands fyrir milligöngu breska bronssteypufyrirtækisins Pangolin Editions.
TÓMAS Ingi Olrich menntamálaráðherra opnar sýningu á skúlptúrum úr silfri í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar kl. 15 í dag, laugardag. Sýningin heitir Sterling Stuff og kemur til Íslands fyrir milligöngu breska bronssteypufyrirtækisins Pangolin Editions. Hún var áður sýnd í Gallery Pangolin og í maímánuði verður hún til sýnis í Royal Academy í London.

Aðdragandi sýningarinnar er sá að forstöðumaður Pangolin, Rungwe Kingdon, bað fimmtíu og einn þekktan listamann að vinna hver sitt verk sem steypa mætti í silfur og mátti það hvergi vera stærra um sig en 15 sentimetrar. Á sýningunni gefst því tækifæri til að sjá verk eftir helstu núlifandi myndhöggvara Bretlands ásamt verkum eftir Íslendingana Pétur Bjarnason, Jóhönnu Þórðardóttur og Sigurjón Ólafsson. Meðal listamannanna má nefna Lynn Chadwick, Nigel Hall, Damien Hirst, Jonathan Kenworthy, David Nash og Phillip King, sem nú er forseti Konunglegu bresku akademíunnar.

"Á síðari árum hefur verið tilhneiging til að kenna allt við "skúlptur" þrátt fyrir að upphaflega hafi orðið merkt hlut sem skorinn var út eða höggvinn í stein. Slíkir "hlutir", stórir eða smáir, hafa ætíð haft ómælda þýðingu fyrir áhorfendur, hvort sem það hafa verið risastyttur goðum og höfðingjum til dýrðar, eða örsmáir gripir sem rúmast í lófa manns," segir Birgitta Spur, forstöðumaður Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. "Á þessari sýningu má ganga úr skugga um að stærð hlutarins skiptir ekki öllu máli - lítill skúlptúr getur verið monúmental í formi og hlutföllum."

Breski sendiherrann á Íslandi, John Culver, verður viðstaddur opnunina.