Fyrirburar á Vökudeild Landspítalans: Njóta ávaxta samevrópskrar rannsóknar á nýju lyfi Tveggja marka fyrirburi dafnar vel ÞEGAR Lilja Sigurðardóttir fæddist á Landspítalanum 29. júní í sumar eftir aðeins 25 vikna meðgöngu vóg hún ekki nema 590 grömm, eða...

Fyrirburar á Vökudeild Landspítalans: Njóta ávaxta samevrópskrar rannsóknar á nýju lyfi Tveggja marka fyrirburi dafnar vel

ÞEGAR Lilja Sigurðardóttir fæddist á Landspítalanum 29. júní í sumar eftir aðeins 25 vikna meðgöngu vóg hún ekki nema 590 grömm, eða rétt rúmar tvær merkur. Nú er hún orðin tæplega eitt kíló að þyngd og fer vel fram, að sögn Atla Dagbjartssonar, læknis á Vökudeild Landspítalans. Lilja litla er dóttir Hjördísar Ástu Edvinsdóttur og Sigurðar Helga Jóhannssonar. Lilja á einn albróður, sem er fjögurra ára, og fjögur eldri hálfsystkini. Fjölskyldan er búsett á Akureyri og þarf því stöðugt að vera í förum milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Atli Dagbjartsson læknir segir að Lilja sé léttasti og minnsti fyrirburi sem náð hafi að dafna á Landspítalanum. Framfarir hennar þakkar hann meðal annars lyfi sem kallað er surfactant og kemur í veg fyrir þann lungnasjúkdóm sem fram til þessa hefur orðið banamein margra fyrirbura. Surfactant er sápuefni, sem dælt er ofan í lungnablöðrur fyrirburanna, en lungu þeirra hafa sjaldnast náð þeim þroska að þau framleiði þetta efni. Landspítalinn er eitt fjölmargra evrópskra sjúkrahúsa, þar sem nú er unnið að rannsókn á áhrifum surfactant-meðferðar á fyrirbura. Rannsókninni er stjórnað frá rannsóknarstofnun í Oxford. Landspítalinn hóf þátttöku í rannsókninni í október 1990 og er áætlað að henni ljúki í nóvember í ár.

Atli Dagbjartsson stjórnar rannsókninni á Landspítalanum. Hann segir að frá því að hún hófst hafi 20 börn fengið surfactant-meðferð hérlendis og sér virðist að þetta nýja lyf muni enn auka lífslíkur og þroskamöguleika fyrirbura. Alls er áætlað að rannsóknin taki til 4 til 6 þúsund barna í Evrópu. Lyfið segir Atli að sé framleitt úr frumatómum en ekki unnið úr dýrum eða jurtum. Að sögn Atla hafa vísindamenn vitað í rúman áratug hvernig búa átti lyfið til, en það sé ekki fyrr en mjög nýlega að mönnum tókst að þróa aðferð til þess að koma surfactant ofan í lungnablöðrur fyrirburanna.

Framfarir í meðferð fyrirbura hafa orðið mjög miklar á undanförnum árum. Þetta kemur glöggt fram í dánartölum nýbura. Fyrir sextán til sautján árum dóu hér á landi u. þ. b. 16 nýburar af hverjum 1.000 fæddum en nú er dánartalan komin niður í því sem næst 6 af þúsundi. Samkvæmt þessu deyja hérlendis 40 færri nýburar á ári nú en fyrir röskum hálfum öðrum áratug.

Atli Dagbjartsson læknir segir að þessar framfarir hafi kostað mikið fé og enn sé ekki fyllilega uppgert hverju þær hafi skilað. Sífellt fjölgi þeim fyrirburum sem nái eðlilegum þroska.

Atli Dagbjartsson læknir við súrefniskassa Lilju litlu, sem var rétt rúmar tvær merkur þegar hún fæddist, þann 29. júní í sumar.