"Með þeim breytingum sem hér hafa verið raktar skapast svigrúm til skilvirkara og neytendavænna íbúðalánakerfis. Þess vegna höfum við framsóknarmenn sett fram það stefnumið okkar að hækka hlutfall almennra húsnæðislána úr 65-70% í 90% af matsverði fasteigna."

Með breyttum aðstæðum sem skapast hafa á undanförnum misserum eru nú forsendur fyrir róttækum breytingum á lánakerfi Íbúðalánasjóðs sem miða að aukinni þjónustu og bættum lánskjörum á heildarfjármögnun íbúðakaupa almennings.

Helstu breytingar eru:

Stofnun Íbúðalánasjóðs og markaðsvæðing íbúðalána sjóðsins

Tilkoma rafrænna húsbréfa

Innkoma erlendra fjárfesta á íslenskan skuldabréfamarkað

Útrás íslenskra verðbréfafyrirtækja á alþjóðlegan fjármálamarkað

Við höfum á undanförnum mánuðum séð mjög vaxandi áhuga erlendra fjárfesta á húsbréfum en kaup þeirra hafa einmitt tryggt afföll í sögulegu lágmarki.

Þrátt fyrir ofangreint þarf enn að gera nokkrar breytingar á fyrirkomulagi íslensks fjármálamarkaðar til að auðvelda aðgengi erlendra fjárfesta að íslenskum skuldabréfaflokkum. Meðal þess sem tryggja þarf má nefna skuldabréfaflokka sem eru a.m.k. 500 milljónir USD að stærð og samninga við alþjóðlega uppgjörsbanka verðbréfa til að sjá um greiðslumiðlun á alþjóðamarkaði. Hvort tveggja á að vera tiltölulega einfalt og ætti að geta gengið eftir á hausti komanda.

Markmið með tillögum Framsóknarflokksins um 90% lán

Með þeim breytingum sem hér hafa verið raktar skapast svigrúm til skilvirkara og neytendavænna íbúðalánakerfis. Þess vegna höfum við framsóknarmenn sett fram það stefnumið okkar að hækka hlutfall almennra húsnæðislána úr 65-70% í 90% af matsverði fasteigna. Markmið þessarar breytingar er margþætt. Má þar helst nefna:

Gagnvart íbúðakaupendum

Heildarfjármögnun vegna íbúðakaupa verður möguleg hjá Íbúðalánasjóði

Þeim sem á annað borð þurfa svo hátt hlutfall kaupverðs fasteignar að láni eru tryggðir lægstu mögulegu markaðsvextir

Mögulegt verður að losa um fjármagn bundið í steinsteypu, með endurfjármögnun fasteigna

Gagnvart fjármálamarkaði og efnahaglífi:

Skapaðar eru aðstæður fyrir aukinni innkomu erlendra fjárfesta

Lagður er grunnur að stöðugleika til lengri tíma

Draga má úr sveiflum og treysta grundvöll krónunnar með fjárfestingum erlendra aðila í þeim gjaldmiðli

Lækka má raunvexti til lengri tíma

Útfærsla íbúðalána

Með hærra lánshlutfalli eykst vissulega hættan á útlánatöpum. Því má sjá fyrir sér að lánakerfið verði byggt upp með þremur lánaflokkum, þannig að aukið lánshlutfall leiði af sér aukinn vaxtamun. Þannig beri fyrstu 60-70% ákveðinn vaxtamun, t.d. þann sama og í dag, næstu 10-15% nokkru hærri mun og stærri hluti hans renni í afskriftasjóð en síðustu 15-20% beri mesta vaxtamuninn og enn hærra hlutfall hans renni þá í afskriftasjóð.

Þetta er í grundvallaratriðum ekki svo ólíkt því sem gjarnan gerist í fasteignaviðskiptum í dag, því algengt er að gefin séu út tvö fasteignaveðbréf við nýbyggingar og jafnvel fleiri. Nýmælið lægi fyrst og fremst í mismunandi vaxtamun.

Innleiðingaráætlun

Við sjáum fyrir okkur að lánshlutfallið hækki í áföngum og jafnframt því hækki sú hámarksupphæð sem lánuð er í fasteignaviðskiptum. Hún er í dag ekki nema 8 milljónir vegna notaðs húsnæðis en 9 vegna nýbygginga og hrekkur tíðum skammt. Innleiðing breytinganna gæti t.d. orðið sú að í lok þessa árs færi hlutfallið vegna allra viðskipta í 70% og hækkaði síðan á hverju vori um 5%. Við sömu tímamót hækkaði hámarkslánið um t.d. 2 milljónir króna í hvert sinn.

Gert verði ráð fyrir að ekki verði munur á lánshlutfalli til þeirra sem kaupa í fyrsta eða annað sinn. Fyrsta skrefið verði því að samræma lánshlutfall. Annað skrefið verði tekið þegar gengið hefur verið frá nauðsynlegum aðgerðum til að tryggja auðveldari aðgang erlendra fjárfesta að íslenskum skuldabréfaflokkum. Það ætti að liggja fyrir 1. maí 2004. Næstu skref verði tekin á ársfresti.

Ástæða innleiðingar í þrepum

Með því að innleiða breytingar á fyrirkomulagi íbúðalána í þrepum á fjögurra ára tímabili er komið í veg fyrir eftirspurnarsprengingu á fjármagni til íbúðakaupa. Hækkun hlutfalls íbúðalána og hámarksláns er fyrirséð. Það hvetur ákveðinn hluta kaupenda til að bíða með fyrirhuguð fasteignaviðskipti þar til breytingin hefur alfarið náð fram að ganga.

Þá má ætla að yngra fólk sjái fram á að komast í "framtíðarhúsnæði" í færri skrefum en áður. Það dregur úr kaupveltu á fasteignamarkaði og þar af leiðandi úr kostnaði við fasteignaviðskipti og fólksflutninga.

Slíkt eykur stöðugleika

Þá er aðlögunarferlið nauðsynlegt fyrir fjármagnsmarkað. Ekki verður um byltingu heldur er um fyrirsjáanlega þróun að ræða. Það ætti að auka stöðugleika á þessu sviði fjármálamarkaðar og lágmarka sveiflur á raunvaxtastigi.

Möguleg fjárhagsleg áhrif á heimilin

Í einhverjum tilfellum mun skuldsetning heimilanna aukast þar sem hlutfall lánsfjár í fjárfestingu íbúðarhúsnæðis eykst. Það þýðir aukin greiðslubyrði í þeim tilfellum. Aftur á móti mun oftast verða um að ræða tilflutning skulda, þ.e. í stað dýrra bankalána sem tekin eru til að fjármagna eigið fjárframlag á móti núverandi lánum Íbúðalánajóðs, kemur hagkvæmara íbúðalán. Því mun kerfisbreytingin lækka greiðslubyrði fjölmargra heimila.

Markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs á húsnæðismarkaði mun við þessar beytingar aukast, markaðshlutdeild annarra minnkar að sama skapi. Þetta gæti leitt til lægri raunvaxta og sparnaðar fyrir ríkið í formi vaxtabóta auk þess sem það styrkir verðmyndun og eignaverð á landsbyggðinni, þar sem Íbúðalánasjóður er eini bankinn sem almennt lánar til landsbyggðarinnar.

Eftir Árna Magnússon

Höfundur er frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.