1. maí 2003 | Viðskiptablað | 911 orð

Ráð eða óráð

"Þegar Buffett fjárfestir í hlutabréfum beinist athygli hans að tveimur einföldum breytum: Verðinu á fyrirtækinu og virði þ

Fyrir nokkrum árum var Mary Meeker, fjárfestingarráðgjafi hjá Morgan Stanley, tíður gestur í fjölmiðlum, enda var mikil eftirspurn eftir sérþekkingu hennar um fyrirtæki tengd veraldarvefnum.
Fyrir nokkrum árum var Mary Meeker, fjárfestingarráðgjafi hjá Morgan Stanley, tíður gestur í fjölmiðlum, enda var mikil eftirspurn eftir sérþekkingu hennar um fyrirtæki tengd veraldarvefnum. Í dag hins vegar fer mestur tími hennar í að verjast lögsóknum vegna ráðgjafar sinnar, sem margir telja nú að hafi verið vafasöm. Sömu sögu má segja um marga fjárfesta, en oft eru rökin fyrir því að mæla með sjóði, sem einfaldlega endurspeglar vísitölur, þau að fjárfestar veðja á víxl á góðan og slæman hest sem leiðir til að heildarávöxtun er ekki hærri en meðaltalsávöxtun til lengri tíma. Nokkrir fjárfestar falla þó ekki innan þessa ramma heldur hafa árum saman ávaxtað pund sitt og annarra betur en markaðurinn í heild og því vart hægt að telja það tilviljun eða heppni. Þekktasti slíki fjárfestirinn í dag er Warren Edward Buffett. Hann fæddist í lok ágústmánaðar árið 1930, enda hafði faðir hans trúlega nægan tíma heima fyrir eftir hrun markaðarins haustið 1929. Buffett er meðal ríkustu manna heimsins og hefur byggt upp auð sinn nánast eingöngu með fjárfestingum. Ávöxtun hans hefur verið ævintýraleg. 100 dala fjárfesting árið 1956 var þrjátíu árum síðar orðin að 25 milljónum dala. Það er því ekki að furða að margir hafa í gegnum tíðina veitt fjárfestingaraðferðum hans athygli. Buffett hefur aldrei skrifað bók um fjárfestingar almennt eða fjárfestingarstefnu sína, þó svo að hann hafi veitt læriföður sínum, Benjamin Graham, aðstoð við uppfærslur á sígildri bók hans The Intelligent Investor. Buffett gefur árlega álit sitt á fjárfestingum í ársskýrslu fjárfestingarfyrirtækis síns, Berkshire Hathaway, sem er nánast skyldulesning fyrir alla fjárfesta ár hvert (www.berkshirehathaway.com). Buffett nam flest allt sem skipti máli varðandi hlutabréfafjárfestingar hjá Graham frá megindlegu (quantitative) sjónarmiði. Hvað eigindlega (qualitative) hlið fjárfestingar varðar hefur Buffett lært mest af fræðum Philips A. Fishers en bók hans, Common Stocks and Uncommon Profits, er gjarnan sögð vera mikilvægasta rit á þeim vettvangi. Buffett hefur látið hafa eftir sér að hann sé 85% Graham og 15% Fisher í fjárfestingum sínum og því er vert fyrir áhugasama að kanna þau verk. Einnig hafa margar bækur verið skrifaðar um Buffett sjálfan. Þær fjalla gjarnan um fjárfestingaraðferðir hans eða eru nokkurs konar ævisögur hans. Ein af þekktari slíkum bókum er The Warren Buffett Way eftir Robert G. Hagstrom, Jr., en hún samræmir að stórum hluta megindlegar og eigindlegar hliðar Buffetts. Í fyrri hluta bókarinnar er farið yfir helstu þætti þess sem mótuðu bæði manninn og fjárfestinn Warren Buffett en auk þess er litið til fjárfestingaraðferða hans, þ.e. hvaða þættir skipta mestu máli og þá ekki síður hvaða þætti hann lætur ekki hafa áhrif á ákvarðanir sínar. Skilmerkilega kemur fram sú hugsun á bakvið heimspeki Buffetts að ekki sé í raun verið að fjárfesta í hlutabréfum heldur í fyrirtækjunum sjálfum. Þannig lætur Buffett sig engu varða væntingar manna um efnahagshorfur eða hlutabréfamarkaði almennt. Ef fyrirtækin eru sterk á sínu sviði og fást á viðunandi verði kemur hagnaður þeirra til með að aukast mikið og virði að fylgja eftir í svipuðum hlutföllum, þó svo að markaðsvirði þeirra geti sveiflast töluvert. Að mati Buffetts veita slíkar sveiflur hlutabréfa oft tækifæri til að fjárfesta í góðum fyrirtækjum sem lenda óhjákvæmilega í samdrætti öðru hverju. Hagstrom setur upp með skipulögðum og einföldum hætti helstu mælikvarða sem Buffett lítur á við mat á fjárfestingum, svo sem atvinnugrein fyrirtækis, hæfni stjórnenda þess, efnahags- og rekstrarstöðu þess og síðast en ekki síst raunverulegt virði þess að hans mati og hvort markaðsvirði þess geri fyrirtækið að vænlegum fjárfestingarkosti.

Síðari hluti bókarinnar fer að mestu í að fjalla um helstu fjárfestingar Buffetts uppúr áttunda áratugnum. Margt af þeirri umfjöllun er áhugavert, meðal annars þegar fjallað er um mælikvarða Buffetts við fjárfestingar og söguna að baki þeim. Umfjöllunin varpar ljósi á þá staðreynd að Buffett hefur smám saman aðhyllst eigindleg fræði Fishers meira en hann hefur viðurkennt, enda hafa bestu fjárfestingar hans að mestu leyti snúið að fjárfestingum í fyrirtækjum í einföldum rekstri, með góða stjórnendur og annaðhvort með sterk vörumerki (Coca-Cola og Gillette) eða lág kostnaðarhlutföll (GEICO og Freddie Mac) í samanburði við keppinauta. Umfjöllun Hagstroms skortir þó samhæfingu. Oft virðast mælikvarðar Buffetts við fjárfestingar stangast á í umfjöllun Hagstroms. Útreikningur á virði fyrirtækja á þeim tíma sem Buffett fjárfesti í þeim virðist á tíðum vera meira samkvæmt hentugleika til að réttlæta þær fjárfestingar í stað þess að sýna fram á ákveðna stefnu við ákvörðun fjárfestinga. Jafnvel misheppnaðar fjárfestingar Buffetts eru að einhverju leyti réttlættar af Hagstrom. Ein af meginástæðum þess að Buffett fjárfesti t.d. í Salomon á sínum tíma segir Hagstrom að hafi verið álit Buffetts á forstjóra þess, John Gutfreund, sem hugsaði fyrst og fremst um hag hluthafa fyrirtækisins. Hver sem hefur lesið Liar's Poker eftir Michael Lewis veit að lítið vit var í þeirri fjárfestingu á sínum tíma enda rekstur fyrirtækisins í molum og Gutfreund fyrst og fremst að hugsa um eigin hag. Auk þess er óljóst hvað það var sem stuðlaði að því að Buffett fjárfesti mikið í ákveðnum fyrirtækjum umfram önnur, enda ófá fyrirtæki sem hafa uppfyllt öll skilyrði Buffetts til fjárfestinga í gegnum tíðina og skilað mjög góðri ávöxtun.

Þessir ókostir eru að hluta til komnir vegna þess að bókin er bæði söguleg heimild um Buffett og vegvísir um fjárfestingaraðferðir hans, en túlkar hvorugt atriðið fyllilega. Auk þess kemur fram að ekki var haft samband við Buffett sjálfan við vinnslu bókarinnar heldur að stórum hluta stuðst við ársskýrslur Berkshire Hathaway. Því er The Warren Buffett Way forvitnilegur lestur um þekktasta fjárfesti í dag en segir aðeins hálfa söguna á bakvið goðsögn í lifanda lífi.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.