Björn Jóhannsson fæddist í Hafnarfirði hinn 20. apríl 1935. Hann lést á heimili sínu að morgni miðvikudagsins 23. apríl síðastliðins. Foreldrar hans voru hjónin Jóhann Kristinn Björnsson iðnverkamaður, f. 15.6. 1916, d. 8.12. 1982, og Kristrún Marta Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 1.1. 1915, d. 24.12. 1978. Systkini Björns eru Ólafur Þórður verkamaður, f. 30.9. 1937, maki Arnbjörg Sveinsdóttir bókari, f. 4.5. 1934, og Sjöfn verslunarmaður, f. 8.4. 1947, maki Arnbjörn Leifsson aðstoðarvarðstjóri, f. 1.6. 1944.

Björn kvæntist 1962 Valgerði Ákadóttur píanókennara, f. 1.9. 1942, þau eiga tvö börn, þau eru: Jóhann Áki markaðsstjóri, f. 21.4. 1962, maki Dagmar Gunnarsdóttir geislafræðingur, f. 28.1. 1963, börn þeirra eru Magnea Hrönn, f. 3.10. 1984 (úr fyrri sambúð), Björn Áki, f. 15.5. 1989, og Helga Guðrún, f. 7.12. 1995; og Kristrún Helga tónlistarkennari, f. 29.12. 1963, maki Snorri Már Snorrason hönnuður, f. 4.10. 1964, börn þeirra eru Valgeir Hrafn, f. 7.8. 1988, og Auður Birna, f. 1.2. 1990. Björn og Valgerður slitu samvistir.

Árið 1973 kvæntist Björn eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Egilson, íslenskukennara og rithöfundi, f. 14.7. 1945, þau eiga tvö börn, þau eru: Snædís Huld sameindalíffræðingur, f. 15.6. 1973, maki Ægir Þór Þórsson sameindalíffræðingur, f. 25.2. 1970; og Þorsteinn Brynjar stjórnmálafræðingur, f. 8.10. 1976, maki Friðsemd Dröfn Guðjónsdóttir nemi, f. 8.12. 1977, sonur þeirra er Davíð Freyr, f. 13.3. 2002.

Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1956. Hann stundaði nám í heimspeki við Háskóla Íslands og nám í ensku, sagnfræði og heimspeki við háskólann í Edinborg á árunum 1957 og 1958. Björn varð framkvæmdastjóri Alþýðublaðsins árið 1958 og var blaðamaður á Alþýðublaðinu frá 1958 til 1962. Hann var ritstjóri dagblaðsins Myndar á árinu 1962 og hóf sama ár störf á Morgunblaðinu, þar sem hann starfaði æ síðan. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu á árunum 1962-1967 er hann tók við starfi fréttastjóra blaðsins og var fréttastjóri til ársins 1981 er hann varð fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins og gegndi hann því starfi til dauðadags.

Björn tók að sér ýmis félags- og trúnaðarstörf, átti m.a. sæti í stjórn Blaðamannafélags Íslands á árunum 1960-63 og um skeið í stjórn Varðbergs, félags áhugamanna um vestræna samvinnu. Björn var um árabil ritstjóri hins íslenska hluta Nordisk Kontakt, rits Norðurlandaráðs um stjórnmál, þingmál og norræn málefni, frá árinu 1965 og ritstjóri íslenska kaflans í Árbók Bókaútgáfunnar Þjóðsögu frá 1966. Hann var fréttaritari fyrir fréttastofuna Associated Press frá 1964 til 1982 og var fréttaritari dagblaðsins Politiken í Kaupmannahöfn frá 1966 til 1975, og einnig dagblaðsins Helsingin Sanomat í Finnlandi og Dimmalætting í Færeyjum um hríð. Björn skrifaði greinar fyrir blöð og tímarit í ýmsum löndum, t.d. Nordisk Tidskrift og nú síðast fyrir tímarit norrænu félaganna í Finnlandi. Hann var einnig einn af umsjónarmönnum þáttarins Efst á baugi í Ríkisútvarpinu á árunum 1961 til 1970. Björn sat í Íslenskri málnefnd.

Útför Björns verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.