Hvað skal þeim klukknakveðja, þeim er deyja sem kvikfé væri? Skothríðin grenjar blind; og andlátsbænir, er höfði í gras þeir hneigja, hespa stamandi rifflarnir af út í vind.

Hvað skal þeim klukknakveðja, þeim er deyja

sem kvikfé væri? Skothríðin grenjar blind;

og andlátsbænir, er höfði í gras þeir hneigja,

hespa stamandi rifflarnir af út í vind.

Á sálmakvak að kveða gabb að þeim,

sem kúlnaýlfrið fylgir burt úr heimi, -

hinn trylldi kór á krossgötunum tveim

og köll á tungu lúðra úr dimmum geimi?

Og á að kveikja á kertum fyrir þá?

- Nei, kveðjan þeirra, engum höndum bær,

sé geisli af byrgðri glóð, er auga slær,

og grafarlínið fölvi á meyjar brá,

og eigi blóm, en þögn, í þakkargjöld

og þreyta og húm hvers kvölds hin felldu tjöld.

Wilfred Owen (1893-1918) var breskt skáld sem barðist og féll í fyrri heimsstyrjöldinni. Þessa þýðingu á ljóðinu Anthem for Doomed Youth gerði Þorsteinn Valdimarsson (1918-1977) og birtist hún í tímaritinu Andvara árið 1965.