Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, kynnti áætlun um 90% húsnæðislán á kosningaskrifstofu Framsóknarflokksins í gær.
Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, kynnti áætlun um 90% húsnæðislán á kosningaskrifstofu Framsóknarflokksins í gær.
Á FUNDI Framsóknarflokksins í gær með fasteignasölum og forráðamönnum Íbúðalánasjóðs voru kynntar hugmyndir um það að gera fólki kleift að taka 90% húsnæðislán.

Á FUNDI Framsóknarflokksins í gær með fasteignasölum og forráðamönnum Íbúðalánasjóðs voru kynntar hugmyndir um það að gera fólki kleift að taka 90% húsnæðislán. Talsmenn flokksins sögðu að fjölskyldurnar í landinu væru með samtals 60 milljarða í yfirdrátt í bönkum landsins og væru að borga himinháa vexti af honum. Segja talsmenn flokksins að með nýja húsnæðislánakerfinu, sem verður komið í gagnið að fullu árið 2007, hafi fjölskyldurnar meira á milli handanna og þurfi síður að nýta sér yfirdráttarheimildir bankanna.

Árni Magnússon, sem situr í 2. sæti Reykjavíkurkjördæmis norður, kynnti áætlun um breytingar á nýju húsnæðislánakerfi. Hann sagði að áætlað væri að lánin hækkuðu í áföngum. Hann sagði að til stæði að hinn 1. desember á næsta ári væri lánshlutfall komið upp í 70% af brunabótamati íbúðar auk þess sem hámarkslán yrðu hækkuð í t.d. 10 milljónir. 1. maí 2004 færi lánshlutfall upp í allt að 75%, 1. maí 2005 upp í 80%, 1. maí 2006 upp í 85% og 1. maí árið 2007 upp í 90% lán, þar sem hámarkslán væri t.d. orðið 21 milljón króna. Árni sagði mjög mikilvægt að kerfið væri sett á í áföngum til þess að halda aftur af þenslu, vaxtahækkunum, skyndilegri hækkun húsnæðis og auknum afföllum húsbréfa.

Halldór Ásgrímsson sagði að nú væri möguleiki á að hækka lánaprósentuna þar sem nokkur stöðugleiki hafi náðst í þjóðfélaginu. Árni tók undir og sagði að sala á íslenskum húsbréfum væri að aukast. Nú seldust íslensk húsbréf fyrir 4-5 milljarða á mánuði og enn væri aukning þar á.

"Við viljum halda áfram að endurskipuleggja fjármálamarkaðinn á Íslandi og viljum taka frekari skref í húsnæðismálum," sagði Halldór.

Fasteignasalarnir sem sátu fundinn lýstu áhyggjum sínum yfir að lánin væru bundin brunabótamati sem þeir vildu meina að væri að jafnaði 20% lægra en eiginlegt fasteignaverð. Sögðust þeir halda að íbúðarverð hækkaði en brunabótamat ekki og því sæti fólk með svipaða greiðslubyrði og nú þrátt fyrir að lánið væri hærra í prósentum talið. Þeir sögðu núverandi 90% undanþágulán virka vel þar sem þau væru í hlutfalli við raunverulegt fasteignaverð íbúðanna. Halldór sagði að kerfið væri enn í þróun og að enn væri hægt að bæta það. Hann sagði að vel mætti endurskoða tengingu lánanna við brunabótamat og finna betri lausnir. Forráðamenn Íbúðalánasjóðs vöruðu þó við slíku og sögðu að ef húsnæðislán tengdust fasteignaverði væri hætta á stórhækkun á íbúðarverði.

Árni sagði að flokkurinn hafi lagt grunnhugmynd sína að breytingunni fyrir Íbúðalánasjóð og að áætlunin hafi verið unnin í takt við það. Hann sagði að tæknilega ætti ekki að vera mikið mál að koma nýja kerfinu í gagnið.

Halldór var þá spurður af fasteignasölunum hvort hann teldi erfitt að koma málinu í gegnum Alþingi og hann svaraði því þannig, að það færi allt eftir því hvort flokkurinn yrði í meirihluta eða ekki.

"Við teljum að þetta gæti haft jákvæð áhrif á efnahagslífið í landinu á margvíslegan hátt," sagði Halldór.

Hann sagði einnig að ef kerfið kæmist í gagnið væri fólk með lægri greiðslubyrði á mánuði þar sem það þyrfti þá ekki að taka bankalán eða lífeyrissjóðslán til að ná upp í útborgun. "Við viljum vera varkárir í þessu. Betra er að fara varlega og bæta heldur við," sagði Halldór.