FYLGNI er á milli hasarleikjanotkunar íslenskra unglinga og beitingar þeirra á líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þetta er niðurstaða nýrrar íslenskrar rannsóknar á tengslum notkunar tölvuleikja og árásarhneigðar unglinga sem dr.

FYLGNI er á milli hasarleikjanotkunar íslenskra unglinga og beitingar þeirra á líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þetta er niðurstaða nýrrar íslenskrar rannsóknar á tengslum notkunar tölvuleikja og árásarhneigðar unglinga sem dr. Guðbjörg Hildur Kolbeins, lektor við Háskóla Íslands, vann.

Þá sýnir rannsóknin að einn af hverjum tíu unglingum er beittur líkamlegu ofbeldi á heimilinu af foreldri eða forráðamanni og einn af hverjum fimm verður vitni að ofbeldi heima fyrir.

Guðbjörg segir að niðurstöðurnar séu í samræmi við erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum tölvuleikjaofbeldis á börn. "Við getum ekki sagt til um hvað er orsök og hvað afleiðing hér þótt tengslin séu ljós. Sumir vilja meina að ofbeldisfullir tölvuleikir kenni börnum að ofbeldi sé skemmtilegt og að þeir geri þau ónæm fyrir ofbeldi. Við getum hins vegar ekkert fullyrt um það út frá þessari rannsókn."

Rannsóknin var gerð í 15 grunnskólum haustið 2002 og fór þannig fram að 965 unglingar á aldrinum 13-15 ára svöruðu spurningalistum.

Guðbjörg segir að sumir telji að tölvuleikir þjálfi börn í að drepa. Þannig hafi bandaríski herinn notað lítillega breytta útgáfu af sjónvarpstölvuleiknum Duck Hunt í skotþjálfun hermanna sinna. "Vakið hefur athygli í Bandaríkjunum hvað börn og unglingar eru ótrúlega leikin í að skjóta úr byssum. Komið hefur í ljós að þau eru jafnvel betri í að hitta með skambyssum en þjálfaðir hermenn og lögreglumenn þrátt fyrir að hafa aldrei komið nálægt skammbyssum áður." Hún nefnir dæmi af dreng í Bandaríkjunum sem fór með byssu í skólann og skaut á skólafélaga sína fyrir nokkrum árum. "Menn voru forviða á því að hann skaut átta skotum og hitti úr þeim öllum, auk þess sem athygli vakti að öll skotin fóru í efri hluta líkamans. Hann hafði aldrei snert á skammbyssu áður en hins vegar leikið sér mikið í skottölvuleikjum."

Rannsóknin sýnir að 10% barna spila tölvuleiki meira en 10 tíma á viku, 20% í 3-10 tíma, en 20% spila aldrei tölvuleiki. Guðbjörg bendir á að samkvæmt sínum rannsóknum og annarra séu tengslin á milli áhorfs á ofbeldisfullt sjónvarpsefni og árásarhneigðar sterkari en tengslin á milli tölvuleikjanotkunar og árásarhneigðar. Ef til vill megi skýra það með því að börn eyði meiri tíma í að horfa á sjónvarp og það skipi stærri sess í lífi þeirra.

Tengsl ofbeldis og heimilisaðstæðna voru könnuð í rannsókninni og kom í ljós að heimilisaðstæður hafa gífurlega mikil áhrif á hvort unglingur beitir ofbeldi. Það á við hjá báðum kynjum en tengslin eru þó mun sterkari hjá stúlkum. Þá sýnir rannsóknin að strákar beita frekar líkamlegu ofbeldi en stelpur en stelpur beita andlegu ofbeldi jafnmikið og strákar.