Höfundur, klipping og hljóðvinnsla: Þorsteinn Jónsson. 43 mínútur. Kvikmynd. Ísland 2003.

GÓÐAR hugmyndir eru oft sáraeinfaldar. Þorsteinn Jónsson kvikmyndagerðarmaður gekk á vit skrifstofubyggingar í fæðingu, fylgdist með hjartslætti hennar og öðrum lífsmerkjum fram að lokagilli. Reyndar var húsið komið nokkuð á veg er Þorsteinn mundaði tökuvélina en hann er ekki að gera heimildarmynd fyrir byggingarverktakann heldur óð um bygginguna og mennina sem koma að smíðinni; verktakana, iðnaðarmennina og verkamennina. Á ekki illa við að frumsýna verkið 1. maí.

Það er gaman að stússa í þvílíkum karlasamfélögum þar sem hlutirnir eru teknir mátulega alvarlega og forsíðufréttirnar langt utan sjóndeildarhringsins og bestu kaflar Við byggjum hús, tvímælalaust, er myndavélin og mannskapurinn tónar saman. Ekkert utanaðkomandi áreiti, engin aukahljóð, aðeins hávaðinn frá vinnuvélum, verkfærum masi og erli starfsmannanna. Það er spurning hvort viðmælendurnir eru of margir, með færri innanborðs hefði hugsanlega náðst enn betra samband við viðfangsefnið sem er bæði fróðlegt og áhugavert í sjálfu sér. Alls staðar er verið að vinna og skapa, jörðin ein iðandi mauraþúfa; hvert og eitt samfélag á sinn sjarma og séreinkenni - hvort sem er til sjós eða land. Þau vara mislengi, menn koma og fara en eiga saman stundir sem þeir jafnvel minnast ævilangt. Þar ríkja, líkt og í frumskóginum, þeir sterkustu. Þannig er byggingin við Borgartúnið e.k. þversumma af þjóðfélaginu. Stjórnendur, milliliðar og svo þeir sem vinna verkið. Það hefur verið býsna vandasamt að fella tökurnar saman í markvissa framvindu en það hefur tekist á viðunandi hátt, líkt og húsið sem er, vel að merkja, eitt það reisulegasta sem risið hefur á höfuðborgarsvæðinu um langa hríð.

Sæbjörn Valdimarsson