Pétur Óskarsson og Bjarnheiður Hallsdóttir segja ástæðuna fyrir stofnun fyrirtækisins hérlendis vera stóraukin umsvif og hagstætt skattaumhverfi.
Pétur Óskarsson og Bjarnheiður Hallsdóttir segja ástæðuna fyrir stofnun fyrirtækisins hérlendis vera stóraukin umsvif og hagstætt skattaumhverfi.
KATLA Travel GmbH, sem selur ferðir til Íslands í Þýskalandi og Austurríki, hefur stofnað fyrirtæki hér á landi, Katla Travel DMI ehf.

KATLA Travel GmbH, sem selur ferðir til Íslands í Þýskalandi og Austurríki, hefur stofnað fyrirtæki hér á landi, Katla Travel DMI ehf. Pétur Óskarsson, annar framkvæmdastjóri og eigandi Katla Travel, segir að ástæðan fyrir stofnun fyrirtækisins hér á landi sé annars vegar stóraukin umsvif og hins vegar hagstætt skattaumhverfi. Reiknað sé með að farþegar í orlofsferðum á vegum Katla Travel til Íslands verði tvöfalt fleiri á þessu ári en í fyrra.

Katla Travel GmbH var stofnað í Þýskalandi árið 1997 og þá voru gerðir samningar við ferðaskrifstofurnar Troll Tours og Neckermann um sölu á Íslandsferðum. Fyrirtækið sérhæfir sig í ferðum til Íslands frá þýskumælandi svæðum Evrópu og rekur skrifstofur í München og nú einnig í Reykjavík.

Í Katla Travel-samstæðunni eru þrjú félög, Katla Travel GmbH, sem sérhæfir sig í markaðs- og sölustarfsemi í Þýskalandi, Katla DMI ehf., sem sér um skipulagningu hóp- og einstaklingsferða á Íslandi, og sumarhúsamiðlunin Viator ehf. Auk Péturs Óskarssonar er Bjarnheiður Hallsdóttir eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Mikil fjölgun ferðamanna

Að sögn Péturs felst sérstaða Katla Travel annars vegar í þekkingu á þýsku markaðsumhverfi og hins vegar í þekkingu á íslenskri ferðaþjónustu.

Hann segir að á síðustu árum hafi farþegum á vegum fyrirtækisins í Íslandsferðum fjölgað mjög og framhald sé á því. Á síðasta ári hafi flugsæti þessara ferðamanna verið um 6.700 en verði um 16.700 í ár. Mikil fjölgun hafi bæði orðið í skipulögðum hópferðum og einstaklingsferðum, en í ár sé von á hátt á fjórða þúsund farþega í hótelferðir miðað við tæplega tvö þúsund í fyrra. Langflestir viðskiptavina Katla Travel eru Þjóðverjar en einnig nær markaðssvæði fyrirtækisins til Austurríkis.

Hann segir að fyrirtækið hafi átt árangursríkt samstarf við Neckermann, sem er vörumerki Thomas Cook-ferðaskrifstofunnar, og dótturfyrirtæki þess, Troll Tours. Með samstarfinu njóti Katla Travel hagkvæmni stærðarinnar en Thomas Cook rekur rúmlega sextán þúsund umboðsferðaskrifstofur á þýska markaðnum og er með rúmlega sextíu þúsund starfsmenn.

Dýrmætir ferðamenn

Katla Travel fer að sögn Péturs eigin leiðir við flutning gesta til landsins og nýtir sér frelsi í þeim efnum til fulls. Á þróuðum mörkuðum eins og Þýskalandi séu það fyrst og fremst þýsk leiguflugfélög sem komi með ferðamenn í orlofsferðir til landsins. Hann nefnir að hjá Aero Lloyd hafi tæplega 90% farþeganna á árinu 2002 verið erlendir ferðamenn á leið í orlofsferðir til Íslands.

Pétur segir að ætla megi að markaðshlutdeild þýsku flugfélaganna í flutningi þýskra og austurrískra ferðamanna með beinu flugi til Íslands á þessu ári verði nálægt 60% á ársgrundvelli og fari ört vaxandi. Ferðirnar spanni fimm mánaða tímabil frá 1. maí til septemberloka. Pétur segir að þýsku leiguflugfélögin flytji þá ferðamenn til Íslands sem hvað dýrmætastir séu fyrir ferðaþjónustuna í heild og sérstaklega fyrir landsbyggðina. Þjóðverjar og Austurríkismenn séu meðal fimm efstu þjóða þegar skoðað sé hvaða ferðamenn ferðist mest um landið. Þeir dvelji líka að meðaltali lengst á Íslandi, aðallega dýrustu fimm mánuði ársins, og gefi því mest af sér til greinarinnar og í þjóðarbúið.