Árið 1908 er merkilegt ár í sögu þjóðarinnar. Það ár fóru fyrstu leynilegu kosningarnar fram á Íslandi. Þetta voru spennandi kosningar sem skiptu miklu fyrir framtíð þjóðarinnar.

Í dag fá kjósendur í landinu tækifæri til að kjósa sér alþingismenn sem hafa það verkefni að stjórna landinu næstu fjögur árin. Þetta er dagur sem margir hafa beðið eftir. Áhugamenn um stjórnmál bíða spenntir eftir úrslitum kosninganna. Aðrir sem minni áhuga hafa á pólitísku þrasi fagna því að þessari orrahríð linnir og meiri afslöppun og friður færist yfir samfélagið.

Þeir eru til sem finnst þetta þras allt hið mesta hjóm og finna enga samsvörun í stefnuskrám stjórnmálaflokkanna. Þó hægt sé að taka undir það að margt af því sem sagt er í kosningabaráttunni sé ekki ýkja merkilegt og stundum sé erfitt að sjá mun á stefnu flokkanna er fráleitt að segja að þetta skipti engu máli. Allir hafa skoðanir og það er lýðræðisleg skylda kjósenda að tjá þær í kosningum.

Kosningarétturinn er dýrmætur réttur. Það má minna á að stór hluti íbúa heimsins hefur ekki þennan rétt. Og það eru ekki nema 95 ár frá því að leynilegar kosningar voru fyrst haldnar á Íslandi. Það er ekki lengur tími í sögu þjóðar.

Árið 1908 er merkilegt ár í sögu þjóðarinnar. Það ár fóru fyrstu leynilegu kosningarnar fram á Íslandi. Þetta voru spennandi kosningar sem skiptu miklu fyrir framtíð þjóðarinnar.

Fram til 1908 höfðu kosningar farið fram í heyrandi hljóði. Kosningarnar fóru fram með þeim hætti að boðaður var kjörfundur. Nöfn þeirra sem mættu á hann voru lesin upp og menn svöruðu munnlega hvern þeir ætluðu að kjósa. Kosningin var því hvorki leynileg né skrifleg. Að auki var kosningarétturinn mjög takmarkaður. Einungis karlar máttu kjósa og raunar var einnig í lögum ákvæði um að aðeins eignamenn mættu kjósa. Fátækt fólk og vinnufólk mátti því ekki kjósa. Talið er að árið 1843, þegar Danakonungur gaf út tilskipun um endurreisn Alþingis, hafi tæplega 5% þjóðarinnar haft kosningarétt.

Eins og nærri má geta höfðu ekki allir kjósendur hugrekki til að segja eins og þeim bjó í brjósti þegar þeir mættu á kjörfund. Það varð því mikil grundvallarbreyting þegar teknar voru upp leynilegar kosningar árið 1908.

Fyrir þessar kosningar höfðu Íslendingar leitað eftir því að leysa þau mál sem enn voru óleyst í samskiptum Íslands og Danmerkur. Eftir að Friðrik VIII. Danakonungur heimsótti Ísland sumarið 1907, en hann hafði mikinn áhuga á málefnum landsins, var skipuð milliþinganefnd sem lagði fram "uppkast að lögum um ríkisréttarsamband Danmerkur og Íslands". Full samstaða varð ekki í nefndinni um "Uppkastið" því Skúli Thoroddsen taldi ekki nægilega vel frá öllum hnútum gengið. Ákvæði 1. greinar var umdeilt, en þar sagði "Ísland er frjálst og sjálfstætt land, er eigi verður af hendi látið. Það er í sambandi við Danmörku um einn og sama konung og þau mál, er báðir aðilar hafa orðið ásáttir um að telja sameiginleg í lögum þessum. Danmörk og Ísland eru í ríkjasambandi, er nefnist veldi Danakonungs."

Um Uppkastið skapaðist meiri pólitískur æsingur en dæmi voru um á Íslandi fram að þeim tíma. Fundir voru haldnir um allt land og hart barist. Frambjóðendur fóru þetta sumar ríðandi um allt land og leituðust við að sannfæra kjósendur um ágæti síns málsstaðar. Þó að Hannes Hafstein ráðherra, flokkur hans og gamlir pólitískir andstæðingar eins og Valtýr Guðmundsson og Jón Jensson, formaður Landvarnarflokksins, styddu Uppkastið höfðu andstæðingarnir betur. Þar réð miklu að stærstu blöð landsins, Ísafold og Þjóðólfur, börðust af hörku gegn Uppkastinu sem andstæðingar þess töldu að fæli í sér of mikla eftirgjöf frá kröfum Íslendinga um aukið sjálfstæði. Þjóðólfur átti sér glæsta sögu, en blaðið studdi á árum áður stefnu Jóns Sigurðssonar. Blaðið var undir ritstjórn Hannesar Þorsteinssonar og hann ásamt Birni Jónssyni ritstjóra Ísafoldar átti stóran þátt í því að stuðningsmenn Uppkastsins töpuðu meirihluta sínum á þingi. Stuðningsmenn Hannesar fengu aðeins 9 menn kjörna á þing en andstæðingar hans 25. Vegna kjördæmaskipanarinnar varð ósigurinn stærri en atkvæðatölurnar gáfu tilefni til. Kosningaþátttakan varð hins vegar meiri en nokkru sinni áður eða 75,5%.

Úrslit kosninganna voru bæði afgerandi og óvænt. Ráðherrann, sem aðeins hafði setið í fjögur ár, hafði verið felldur. Björn Jónsson varð ráðherra, en ráðherratíð hans varð nokkuð stormasöm og svo fór að lokum að nokkrir af stuðningsmönnum hans sneru við honum baki og samþykkt var á hann vantraust.

Það er kannski erfitt að bera kosningarnar 1908 saman við kosningarnar sem fram fara í dag. Margir eru þó á þeirri skoðun að þetta séu með mikilvægari kosningum sem fram hafa farið í langan tíma. Óvíst er hins vegar hvernig sagan dæmir mikilvægi þessara kosninga. Það ræðst væntanlega fyrst og fremst af því hvort ríkisstjórnarflokkarnir halda meirihluta sínum á Alþingi og hvort nýtt fólk tekur við völdum.

En hvort sem hér verða stjórnarskipti eða ekki eru kosningar ávallt mikilvægar og óhætt að hvetja alla til að taka þátt í þeim.

Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is