ÁKVEÐIÐ hefur verið að Byrgið fái húseign Landspítalans á Vífilsstöðum undir starfsemi sína auk Efri-Brúar í Grímsnesi en félagið yfirgefur Rockville 1. júní.
ÁKVEÐIÐ hefur verið að Byrgið fái húseign Landspítalans á Vífilsstöðum undir starfsemi sína auk Efri-Brúar í Grímsnesi en félagið yfirgefur Rockville 1. júní. Byrgið mun undirrita samninga þessa efnis við Fasteignir ríkisins annars vegar og heilbrigðisráðuneytið og LSH hins vegar í næstu viku. Þá verður einnig undirritaður þjónustusamningur við félagsmálaráðuneytið um greiðslu á meðferð fyrir 55 einstaklinga en Byrgið mun geta tekið við um 100 manns í einu.

Á Vífilsstöðum mun fara fram afvötnun sem tekur 10 daga en að henni lokinni fær fólk 15 daga kynningu á meðferð sem fer fram á Efri-Brú og tekur 3-12 mánuði, sem það getur valið hvort það vill. Eftir það getur fólk fengið vist á stoðbýli í Reykjavík í allt að 6 mánuði til að koma undir sig fótunum, leita að vinnu og húsnæði. Bæði afvötnunin og meðferðin hafa hingað til farið fram í Rockville en Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, segir mun betra að hafa afvötnunina sér. Hann er að vonum ánægður með að húsnæði hafi fundist. "Þetta gerbreytir stöðu Byrgisins. Ef við hefðum ekki fengið Vífilsstaði hefðum við þurft að fækka hjá okkur og það hefði verið afturför."

Aldrei jafnmikið um eiturlyf á Íslandi

Einnig stendur til að halda áfram sérstakri meðferð fyrir fanga í fíkniefnavanda. "Við höfum verið með tilraunameðferð fyrir þennan hóp í tvö ár sem hefur gengið það vel að dómsmálaráðherra undirbýr nú samning um að Byrgið fái greiðslu fyrir meðferð fanga."

Guðmundur segir aldrei hafa verið eins mikið um eiturlyf á Íslandi og nú og aldrei jafnauðvelt að nálgast það. "Ég veit að þegar farið er á skemmtistaðina í borginni er nánast jafnauðvelt að nálgast amfetamín og að fá sér í glas á barnum." Hann segir hassreykingar og amfetamínneyslu hafa aukist mest undanfarið og hún teygi sig niður í 14-15 ára aldur. Til dæmis sé hann með tvo stráka undir tvítugu í meðferð sem hafi verið í neyslu síðan þeir voru 12 ára. "Því miður er ástandið síst að batna," segir Guðmundur að lokum.