Reiknistofa bankanna er stærsta tölvumiðstöð landsins Tölvupistill Holberg Másson Reiknistofa bankanna er ásamt SKÝRR stærsta tölvumiðstöð landsins. Velta Rb á síðasta ári var 1.003 Mkr með VSK, sem er ívið meira en velta SKÝRR og er áætlað að hún veri...

Reiknistofa bankanna er stærsta tölvumiðstöð landsins Tölvupistill Holberg Másson Reiknistofa bankanna er ásamt

SKÝRR stærsta tölvumiðstöð landsins. Velta Rb á síðasta ári var 1.003 Mkr með VSK, sem er ívið meira en velta SKÝRR og er áætlað að hún veri verði svipuð á þessu ári. Hjá Rb starfa um 120 starfsmenn, sem er aðeins færra en hjá SKÝRR. Í viðtali við Þórð Sigurðsson forstjóra Rb kom fram, að dregið hefur úr aukningu aðgerða í stórtölvu Rb. Samt var 20,1% aukning á aðgerðafjölda fyrstu 6 mánuði þessa árs miðað við í fyrra. Rætt hefur verið af til um samstarf við Skýrr í öryggismálum. Það mál hefur verið rætt á þessu ári af meiri alvöru en áður, en lítið komið út úr því fram að þessu. Þórður telur að hagkvæmast geti verið að reka saman vélasamstæður og tölvunet ef um semdist, en til þess að það yrði hægt þyrfti að sameina þennan rekstur á eina hendi. Áhugavert er að í Færeyjum er bara ein Reiknimiðstöð með stórtölvu, Elektron", þar sem öll tölvuvinnsla bæði fyrir landsstjórnina og bankana er keyrð í sömu tölvu, en tveir hópar hugbúnaðarmanna reka og skrifa forritin fyrir hvorn aðila um sig.

Að nokkru leyti má segja að Rb hafi verið í samkeppni við tölvudeildir bankanna. Meðan Rb hefur getað veitt góða þjónustu á góðu verði, hefur lítil tilhneiging verið hjá bönkunum að fara út í eigin tölvuvæðingu, en með aukinni samkeppni verða til sérþarfir, sem ekki nýta hagkvæmni sameiginlegrar vinnslu. Einnig getur komið upp sú staða að ekki sé sami áhugi á samstarfi þegar út í samkeppni er komið, þó samstarf væri hagkvæmara. Nýlega sameinuðust tvær bankatölvumiðstöðvar í Danmörku um rekstur á svipuðum tölvum og eru hér hjá Rb. Sú sameining átti sér stað um síðustu áramót og lofa fyrstu tölur mjög góðu um sparnað á fólki, betri nýtingu á búnaði og húsnæði og þar með lægri rekstrarkostnaði. Í samanburði sem Rb hefur gert á kostnaði við færslur, kemur í ljós að kostnaður Rb við hverja færslu er um 2,70 kr. meðan sambærilegar tölur annars staðar á Norðurlöndum eru 2,20 kr. og verður það að teljast viðunandi, þegar tekið er tillit til þess að hér er færslumagnið meira en helmingi minna en ytra. Taxtar Rb hafa ekki hækkað síðan í desember 1989.

Þórður sagði, að engin athugun hefði verið gerð á því hjá Rb, hvort hagkvæmt væri að flytja eitthvað af þeim verkefnum, sem í dag eru keyrð á stórtölvu yfir á minni tölvur. Hann kvað slíka athugun því aðeins gerða, að bankarnir æsktu þess og enn sem komið væri hefði slík ósk ekki komið fram og þá ekki heldur nein ósk um kúvendingu á uppbyggingu rekstarumhverfis. Ákvörðunarferill í Rb er fremur þunglamalegur, þegar um meiriháttar hluti er að ræða, t.d. aukna fjárfestingu, en Þórður taldi þá íhaldssemi eðlilega. Hann sagði, að enda þótt Rb væri stórtölvumiðstöð á íslenskan mælikvarða, þá væri Rb það ekki á alþjóða mælikvarða og þess vegna væri margt það hægt hér, sem ekki er hægt annarsstaðar. Ísland er eina landið í heiminum, þar sem allt bankakerfið sameinaðist í einni miðstöð og því fylgdu ýmsir kostir, sem margir gerðu sér ekki grein fyrir, en gerir kleifa meiri þjónustu við viðskiptavini en ef þetta samstarf væri ekki fyrir hendi. Síaukið tölvuafl vegna beinlínuvinnslu á afgreiðslutíma bankanna skapar ónotað tölvuafl utan þess tíma og hafa bankar og sparisjóðir fengið 40% afslátt af þeim föstu keyrslum, sem framkvæma má á nóttunni. Auk þess hafa taxtarnir sem þessar og aðrar sérkeyrslur reiknast eftir nú nýverið verið lækkaðar um 40%. Er það til samræmingar við færsluverðið, sem reiknað hefur verið.

Meiri hagkvæmni möguleg

Ljóst er að sameiginlegur rekstur á tölvusamstæðum og tölvuneti Reiknistofu bankanna og Skýrr myndi skila umtalsverðum sparnaði. Reynslan erlendis sýnir að sameining skilar a.m.k. 20% lækkun í rekstrarkostnaði slíkra tölvumiðstöðva. Einnig væru möguleikar á því að ná lækkun á tilkostnaði í hugbúnaðarsmíði, bæði hjá Skýrr og Rb t.d. í gegnum útboð á smíði hugbúnaðar. Ný tækni, s.s. Miðlari/Biðlari gerir kleift að dreifa tölvuvinnslu yfir tölvunet á öflugar vinnustöðvar í tölvunetum. Er komin mjög mikil reynsla erlendis á beitingu slíkrar tækni og sýna reynslutölur að mögulegt er að ná verulegri lækkun á tilkostnaði við tölvuvinnsluna á þennan hátt. Þar sem tilkostnaður við tölvu- og upplýsingavinnslu bankanna er mjög mikill, er eftir miklu að slægjast, ef bankarnir kæmu sér saman um aðgerðir til að auka hagkvæmni í sameiginlegri tölvuvinnslu sinni. Slík hagræðing kostar sitt, tekur tíma og er kostnaðarsöm meðan á henni stendur, en er óumflýjanleg ef íslenskir bankar ætla að halda samkeppnisstöðu sinni. Slæmt væri ef sparnaður bankakerfisins vegna sameiningar banka og fækkunar starfsfólks tapaðist að nokkru leyti vegna aukins kostnaðar við tölvuog upplýsingavinnslu.

Höfundur starfar við

tölvuráðgjöf.