Við erum orðin stór gætu þau verið að segja, frambjóðendur Samfylkingarinnar, sem hér fagna fyrstu tölum. Frá vinstri: Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar Karl Haraldsson og Össur Skarphéðinsson.
Við erum orðin stór gætu þau verið að segja, frambjóðendur Samfylkingarinnar, sem hér fagna fyrstu tölum. Frá vinstri: Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar Karl Haraldsson og Össur Skarphéðinsson.
Eftir kosningarnar líkist flokkakerfið meira því sem gerist í hinum norrænu ríkjunum, en þó vantar upp á að Samfylkingin geti talizt "stór" jafnaðarmannaflokkur á norræna vísu, skrifar Ólafur Þ. Stephensen. Ríkisstjórnin heldur velli tvennar kosningar í röð og kemst þannig hugsanlega á blað með Viðreisnarstjórninni sem langlífasta stjórn sögunnar.

Í KOSNINGAÚRSLITUM helgarinnar felast talsverð tíðindi þegar horft er á þróun íslenzka flokkakerfisins undanfarna áratugi. Annars vegar eru það auðvitað tíðindi að í annað sinn eftir að flokkakerfið tók á sig mynd skuli ríkisstjórn halda meirihluta sínum tvennar kosningar í röð. Flest bendir nú til að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitji í þrjú kjörtímabil eins og Viðreisnarstjórnin 1959-1971. Hins vegar nær Samfylkingin þeim áfanga að fá meira en 30% fylgi.

Í hinu hefðbundna fjögurra flokka kerfi er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur, þá kemur Framsóknarflokkurinn, svo róttækur vinstri flokkur (Sósíalistaflokkurinn, Alþýðubandalagið) og loks jafnaðarmannaflokkurinn (Alþýðuflokkurinn). Í síðustu þingkosningum árið 1999 tókst Samfylkingunni að verða næststærsti flokkurinn, en engu að síður mistókst að sameina alla íslenzka vinstrimenn í stóra breiðfylkingu og 26,8% fylgi olli samfylkingarfólki talsverðum vonbrigðum. Meginástæða þess að þannig fór var á þeim tíma talin sú að róttæki vinstriflokkurinn neitaði að renna inn í breiðfylkinguna; vinstri grænir náðu rúmlega 9% fylgi yzt á vinstri jaðrinum.

Jafnaðarmannaflokkurinn loksins orðinn stór?

Röð flokkanna í kerfinu er nú áfram sú sama en Samfylkingarfólk túlkar það sem sálrænan sigur að "rjúfa 30% múrinn" eins og það er orðað. Það hefur engum flokki öðrum en Sjálfstæðisflokknum tekizt allt frá því í árdaga fjögurra flokka kerfisins; árið 1931 fékk Framsóknarflokkurinn 35,9% fylgi.

Hins vegar má spyrja hvort tíðindin hafi ekki fremur verið að Samfylkingin kom svo illa út í síðustu kosningum en að hún hafi náð 31% fylgi í þessum. Þegar horft er á fylgi flokkanna, sem síðan runnu inn í Samfylkinguna (Þjóðvaka, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista) í kosningunum 1995 var það samanlagt 37,8%.

Jafnframt má spyrja hvort Samfylkingin hafi náð sessi norrænna jafnaðarmannaflokka, sem eru flestir í lægð um þessar mundir. Þannig hefur norski Verkamannaflokkurinn fengið 34,3% til 42,3% atkvæða í þingkosningum síðastliðin þrjátíu ár, þar til í kosningunum 2001, að hann fékk 24,3%. Sænski Jafnaðarmannaflokkurinn hefur í undanförnum fimm kosningum, þ.e. frá 1988, fengið 36,4% til 45,3% fylgi, er nú með 39,9%. Danskir flokksbræður Samfylkingarinnar fengu 29,1% í seinustu kosningum en fengu 34,6% til 37,4% í þrennum kosningum þar á undan.

Samfylkingin náði því ekki að verða stærsti flokkurinn, sem var eitt af markmiðum hennar í kosningabaráttunni, og ekki heldur að verða hinn "náttúrulegi" stjórnarflokkur eins og systurflokkarnir í Skandinavíu, enda mistókst stjórnarandstöðunni að fella ríkisstjórnina í kosningunum. Raunar má spyrja hvort Samfylkingin sé orðin "stór" jafnaðarmannaflokkur á norræna vísu fyrr en hún hefur sýnt að hún geti haldið fylginu í yfir 30% í meira en einar kosningar. Í ljósi þess að sá leiðtogi, sem þótti hvað líklegastur til að gera Samfylkinguna að stóru afli í íslenzkri pólitík, náði ekki betri árangri, má spyrja hversu líklegt sé að það takist að endurtaka leikinn.

Staða Ingibjargar erfið

Samfylkingarfólk fagnar því vafalaust að eiga nú fyrsta þingmann í tveimur kjördæmum, Össur Skarphéðinsson í Reykjavík norður og Margréti Frímannsdóttur í Suðurkjördæmi, en spyrja má hvaða praktíska þýðingu þeir titlar hafi þegar í slaginn á Alþingi er komið. Þó má ekki gleyma því að vinstrimaður hefur ekki verið fyrsti þingmaður neins kjördæmis frá því Lúðvík Jósepsson formaður Alþýðubandalagsins vann mikinn sigur í Austurlandskjördæmi í kosningunum 1978.

Það hlýtur að draga úr sigurgleði Samfylkingarfólks að sjá hvorki fram á miklar líkur á stjórnarsetu né að hafa náð "forsætisráðherraefni" sínu, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, á þing. Staða Ingibjargar í flokknum er óviss í ljósi kosningaúrslitanna og hún virðist í raun dæmd til að víkja aftur til hliðar fyrir svila sínum Össuri Skarphéðinssyni, formanni flokksins. Eina leiðin fyrir hana að gera tilkall til leiðtogahlutverks er að hljóta kosningu sem formaður flokksins á flokksþingi í haust. Nú hefur Össur reyndar sagt að hann hyggist sækjast eftir endurkjöri og hafi til þess stuðning Ingibjargar. Hvað sem gerist, verður Össur leiðtogi flokksins á Alþingi. Spyrja má hvort stjórnarandstöðustíll Össurar, með hraðaupphlaupum sem enda sjaldnast með marki, nema þá sjálfsmarki, sé það sem "stóri" jafnaðarmannaflokkurinn þarf á að halda, ætli hann að festa sig í sessi. Þessi stíll hefur fremur þótt henta smáflokkum.

Talsvert áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Kosningaúrslitin eru Sjálfstæðisflokknum talsvert áfall. Hann fékk 33,7% atkvæða, sem er þriðji lakasti árangur flokksins í kosningum frá stofnun hans 1929. Árið 1978 fékk hann 32,7% fylgi og 1987, þegar Albert Guðmundsson hafði klofið flokkinn og stofnað Borgaraflokkinn, fékk hann 27,2%. Flokkurinn tapar sjö prósentustigum frá síðustu kosningum, þegar hann fékk 40,7%. Það var reyndar bezta útkoma flokksins frá 1974, er hann fékk 42,7% fylgi. Meðalfylgi Sjálfstæðisflokksins í þingkosningum frá 1931 er rétt um 39% og árangurinn núna er augljóslega langt frá því.

Sjálfstæðisflokkurinn getur unað við að ríkisstjórn undir hans forystu hefur haldið meirihluta þrennar kosningar í röð. Hins vegar munu kosningaúrslitin nú áreiðanlega verða tilefni til naflaskoðunar. Meðal þess sem sjálfstæðismenn munu skoða er hvernig hægt verði að styrkja stöðu kvenna innan flokksins, en aðeins fjórar konur eru nú í þingflokknum. Jafnframt munu menn vafalaust velta fyrir sér hvernig þeir geti varizt árásum Frjálslynda flokksins á sjávarútvegsstefnuna. Þá er byrjað að tala um það innan flokksins að endurskoða verði skipulag kosningabaráttunnar, sem þykir ekki hafa verið nægilega markviss á lokasprettinum.

Framsókn er ekki komin á mölina

Framsóknarmenn hafa gert talsvert úr því að þeir hafi haldið sjó í kosningunum og aðeins tapað 0,7 prósentustigum frá síðustu kosningum. Það er auðvitað alveg rétt, en ekki má gleyma því að Framsókn var alls ekki ánægð með síðustu kosningaúrslit, sem voru þau þriðju lélegustu í sögu flokksins. Rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn er Framsóknarflokkurinn nú að fá sína þriðju lökustu kosningu, verstu útkomuna frá 1978. Hins vegar geta framsóknarmenn talað um varnarsigur vegna þess hversu langt niður þeir voru komnir í skoðanakönnunum skömmu fyrir kosningar, jafnvel niður fyrir 10% fylgi. Þeir stóðu sig óneitanlega bezt á lokaspretti kosningabaráttunnar og Halldór Ásgrímsson, formaður flokksins, styrkti stöðu sína.

Ímynd Framsóknarflokksins yfirleitt hefur breytzt verulega á undanförnum árum og í hinum nýja þingflokki hans er talsvert af nýjum andlitum, sem hafa ekki á sér hið hefðbundna framsóknar/landbúnaðar/samvinnu-yfirbragð. Það breytir ekki því að Halldóri Ásgrímssyni hefur enn ekki tekizt að breyta Framsóknarflokknum úr dreifbýlisflokki, færa hann á mölina eins og það hefur verið orðað. Ef litið er á fylgi flokksins í landsbyggðarkjördæmunum þremur er það á bilinu 21,7% til 32,8%. Í kjördæmunum á höfuðborgarsvæðinu er það hins vegar 11,3% til 14,9%. Með öðrum orðum er fylgi Framsóknar enn u.þ.b. helmingi minna á suðvesturhorninu en á landsbyggðinni.

VG að festast í sessi sem smáflokkur

Vinstri-grænir töpuðu smávægilegu fylgi í kosningunum, aðeins 0,3%, en misstu engu að síður einn þingmann. Þeir geta út af fyrir sig vel við unað að kjósendur þeirra skuli ekki hafa fallizt á þau rök Samfylkingarinnar að eina leiðin til að fella ríkisstjórnina væri að kjósa hana. Niðurstaðan sýnir að vinstri-grænir ganga að ákveðnu fylgi vísu og hafa fest sig í sessi sem smáflokkur yzt á vinstri jaðrinum. Þeir flokksmenn, sem létu sig dreyma um að starfa í stórum vinstriflokki, ættu hins vegar væntanlega fremur að ganga til liðs við Samfylkinguna.

Sigur Guðjóns og frjálslyndra

Frjálslyndi flokkurinn getur vel við kosningaúrslitin unað, þótt þau séu ekki í takt við það mesta, sem honum var spáð í skoðanakönnunum. Hann fer úr 4,2% í 7,6% og tvöfaldar þingmannatölu sína, úr tveimur í fjóra. Útkoma flokksins er langbezt í kjördæmi formannsins, Guðjóns Arnars Kristjánssonar, en þar fékk hann 14,2% og tvo menn kjörna. Úrslitin eru því ekki síður persónulegur sigur fyrir Guðjón.

Hitt er svo annað mál hvort Frjálslyndi flokkurinn á framtíð fyrir sér. Fjórflokkurinn hefur í áranna rás ævinlega hrist fimmta flokkinn af sér og fylgið leitað í sama farið. Frjálslyndi flokkurinn er fjórði flokkurinn utan fjórflokksins sem kemur mönnum á þing tvennar kosningar í röð, hinir voru Bændaflokkurinn, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna og Kvennalistinn. Síðastnefndi flokkurinn hélt lengst út, fernar kosningar.

Þingmenn flokksins, aðrir en formaðurinn, eru óskrifað blað og reynslulausir í pólitík. Það fer mikið eftir því hvernig þeir reynast á þingi hvort flokkurinn heldur trúverðugleika sínum gagnvart þeim kjósendum, sem kusu hann vegna óánægju með núverandi sjávarútvegsstefnu stjórnvalda.

Líkara skandinavíska mynztrinu - en ekki eins

Á heildina litið má segja að eftir þessar einu kosningar líkist flokkakerfið meira en áður því, sem gerist í Skandinavíu; með tiltölulega stórum jafnaðarmannaflokki, myndarlegum miðjuflokki, litlum vinstrisinnuðum jaðarflokki og svo eins máls "vinsældaflokki", sem hér gerir reyndar út á óánægju með fiskveiðistjórnun en ekki innflytjendur eða skattamál. Eitt grundvallaratriði er þó öðruvísi, að Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stærsti flokkurinn. Þetta skiptir auðvitað höfuðmáli enda hvergi annars staðar á Norðurlöndunum sem hægriflokkur nýtur jafnmikils fylgis. Víðast hvar er hinn borgaralegi vængur þar klofinn í tvo eða fleiri flokka. Og eins og reynslan sýnir er alltof snemmt að afskrifa gamla fjögurra flokka kerfið.

olafur@mbl.is