13. maí 2003 | Minningargreinar | 8407 orð | 3 myndir

HAUKUR CLAUSEN

Haukur í viðbragði á Melavellinum.
Haukur í viðbragði á Melavellinum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haukur Clausen fæddist í Reykjavík 8. nóvember 1928. Hann andaðist á Landspítalanum í Reykjavík 1. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Sesselja Þorsteinsdóttir Clausen, f. 28. desember 1904, d. 6. desember 1995, og Arreboe Clausen, kaupmaður og síðar bifreiðarstjóri í Reykjavík, f. 5. nóvember 1892, d. 8. desember 1956. Foreldrar Sesselju voru hjónin Arnheiður Magnúsdóttir og Þorsteinn Jónsson, bóndi í Eyvindartungu og í Úthlíð í Biskupstungnahreppi í Árnessýslu. Arnheiður var dóttir Arnheiðar Böðvarsdóttur og Magnúsar Magnússonar hreppstjóra, sem bjuggu um skeið í Úthlíð og síðar á Laugarvatni, og Þorsteinn var sonur Kristínar Árnadóttur og Jóns Collins Þorsteinssonar, bónda í Úthlíð. Foreldrar Arreboes voru Holger Peter Clausen, kaupsýslumaður í Liverpool, Kaupmannahöfn og í Melbourne í Ástralíu, síðar kaupmaður og alþingismaður í Ólafsvík, á Búðum, í Stykkishólmi og Reykjavík, og seinni kona hans, Guðrún Þorkelsdóttir Clausen. Haukur átti einn albróður, Örn, sem var tvíburabróðir hans, og Alfreð Clausen, hálfbróður samfeðra, f. 1918 og látinn fyrir allmörgum árum.

Eftirlifandi kona Hauks er Elín Hrefna Thorarensen, f. 17. febrúar 1944, og gengu þau í hjúskap 11. marz 1967. Foreldrar Elínar voru Ragnheiður Hannesdóttir Hafstein, f. 4. janúar 1903, d. 22. ágúst 1981, og Stefán Oddsson Thorarensen, apótekari í Laugavegs Apóteki í Reykjavík, f. 31. júlí 1891, d. 31. október 1975. Dætur þeirra eru Ragnheiður Elín, f. 16. maí 1968, og Þórunn Erna, leikkona, f. 12. september 1975. Börn Hauks af fyrri hjónaböndum eru Örn Friðrik sölufulltrúi, f. 13. júlí 1951, Anna Marie tannfræðingur í Kanada, f. 25. nóvember 1954, og Haukur Arreboe tölvufræðingur, f. 9. október 1959.

Haukur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1948 og cand. odont. frá Háskóla Íslands 1952. Hann stundaði framhaldsnám í tannlækningum við University of Minnesota í Minneapolis í Bandaríkjunum 1952-1953. Er heim var komið stofnaði hann sína eigin tannlæknastofu, sem hann rak til júlí 1994, er hann lét af störfum. Haukur lagði stund á málaralist og hélt tvær málverkasýningar á Kjarvalsstöðum, 1981 og 1987. Haukur gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir tannlækna, var meðal annars formaður stjórnar Tannlæknafélags Íslands 1974-1976 og í samninganefnd félagsins við Tryggingastofnun ríkisins 1974-1986. Hann var gerður að heiðursfélaga Tannlæknafélags Íslands árið 1999. Haukur tók virkan þátt í frjálsum íþróttum á árunum 1946-1951 og keppti á Ólympíuleikunum í London 1948 og á Evrópumeistaramóti í Brussel 1950. Hann varð Norðurlandameistari í 200 m hlaupi 1947 og átti bezta tíma (21,3 sek.) í Evrópu í 200 m hlaupi 1950, sem var Norðurlandamet í 7 ár og Íslandsmet í 27 ár, auk þess sem hann setti fjölda annarra Íslandsmeta í frjálsum íþróttum.

Útför Hauks verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Haukur Clausen, mágur minn, andaðist á 75. aldursári 1. maí sl. eftir löng og ströng veikindi síðastliðin fjögur og hálft ár. Andlegri reisn hélt hann til hinzta dags, þótt líkamlega væri hann farinn að heilsu.

Það er erfitt að skrifa um Hauk án þess að Örn, bróðir hans, komi einnig við sögu, svo nátengdir voru þeir. Ef nafn annars var nefnt, fylgdi nafn hins venjulega á eftir. Það tók mig nokkuð langan tíma að venjast því, að þegar Örn sagði "við", þá átti hann ekki við sig og mig, konu sína, heldur sig og bróður sinn. Hann talar í raun alltaf um sig í fleirtölu. Lýsandi dæmi um þetta er atvik, sem gerðist fyrir mörgum árum, er eldri dóttir mín var 4-5 ára gömul. Þá vorum við einu sinni sem oftar staddar í hádeginu hjá systur minni, og voru háfleygar samræður í gangi við borðið. Einhver sagði þá: "Eitt er þó víst. Maðurinn fæðist nú einu sinni einn og deyr einn." Eftir drykklanga stund sagði sú stutta: "En, sumir fæðast tveir." Og þannig var það. Eins ólíkir og Örn og Haukur voru að skapferli voru þeir sem einn maður.

Haukur og tvíburabróðir hans, Örn, fæddust í Kirkjuhvoli í Reykjavík, synir hjónanna Sesselju Þorsteinsdóttur Clausen og Arreboe Clausen. Þeir voru bráðgerir og segir sagan, að þeim hafi verið gefið saltkjöt og baunir að borða þriggja vikna gömlum. Sagan segir einnig, að þeir hafi velt barnavagninum, þegar þeir voru átta mánaða gamlir, og skriðið út í Templarasund, þar sem þeim var bjargað úr bráðri hættu af hjálpsömum vegfaranda. Þeir voru ungir, er þeir byrjuðu að æfa fótbolta, og sögðu foreldrar þeirra, að oft hefðu það verið 10 tíma hálfleikir. Haukur var miklu blíðari en Örn en jafnframt latari. Haukur gat frá upphafi sjarmerað allar konur, og þá einnig móður sína. Hún trúði því statt og stöðugt, að hann kynni ekki að bursta skó og gæti ekki gert hitt og þetta, sem lenti þá á Erni, sem ekki er sporlatur maður, og var það ekki heldur sem barn. Það lenti því stundum í rimmu milli bræðranna, en Haukur var alltaf fljótari að hlaupa en Örn, sem náði honum aldrei fyrr en á kvöldin, en þá var líka allt fallið í ljúfa löð, og aldrei fóru þeir ósáttir að sofa. Um 15 ára aldur byrjuðu þeir að stunda frjálsar íþróttir og höfðu afburða hæfileika á því sviði og gerðu garðinn frægan bæði hér á landi og erlendis. Þeir hættu keppni í frjálsum íþróttum 22 ára gamlir.

Að loknu tannlæknanámi frá Háskóla Íslands 1952 stundaði Haukur framhaldsnám við University of Minnesota í Minneapolis í Bandaríkjunum, og hóf störf sem tannlæknir í Reykjavík 1953. Tannlæknastofu rak hann síðan allt til 1994.

Haukur var skemmtilegur maður, sem gaman var að umgangast. Það er ekki algengt, að fólk hlakki til að fara til tannlæknis. En það var ekki laust við, að svo væri, þegar farið var í stólinn hjá Hauka. Fyrir utan að spila fallega músík, sem hann söng gjarnan með hástöfum, Vínarmúsík, Oklahoma og Show Boat, þá notaði hann tækifærið, er hann hafði fyllt munninn á sjúklingnum, svo að hann gat ekki komið hljóði frá sér. Þá byrjaði hann að prédika, og það er rétt að taka fram, að hann hafði mjög ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum. Ég fékk oft að heyra það óþvegið frá honum, ef hann var ekki sammála mér í því, sem ég var að gera, og ég gat auðvitað enga björg mér veitt, múlbundin í stólnum.

Ekki er unnt að minnast Hauks, án þess að geta um tómstundastarf hans, sem var málaralist. Haukur byrjaði snemma að mála undir handarjaðri föður síns. Það var sjálfur Jóhannes Sveinsson Kjarval, sem gaf honum fyrsta vatnslitakassann eftir að hafa fylgzt með honum sem ungum dreng við að mála. Haukur málaði fyrst og fremst landslags- og kyrralífsmyndir og náði ótrúlegri leikni í meðferð vatnslita og krítarlita. Hann var afkastamikill málari og stundirnar, sem hann sat við málaratrönurnar, voru honum hugleiknar.

Samband Hauks og Arnar við móður sína var mjög sérstakt. Hún var reyndar sérstök kona. Hún var ekki allra og sagði meiningu sína hispurslaust og dró ekkert undan. Hún tók alltaf málstað lítilmagnans og þoldi ekki flærð og óhreinlyndi. Samband hennar og sona hennar var einstakt. Það leið aldrei sá dagur, að þeir kæmu ekki til hennar, og hringdu oft á dag. Þeir fóru alltaf í hádegismat til hennar á laugardögum og hún fór með þeim í ferðalög innanlands sem utan. Engin veizla var haldin á heimilum þeirra, án þess að hún væri þar. Hún lifði fyrir syni sína, gagnrýndi þá aldrei fyrir neitt, sem þeir gerðu, heldur elskaði þá skilyrðislaust og alla þá, sem þeim voru kærir. Ég held, að ég hafi aldrei þekkt fallegra samband milli mæðgina en milli Sesselju, tengdamóður minnar, og sona hennar.

Ég sagði fyrr, að Haukur hefði verið skemmtilegur maður. Þegar hann kom inn í herbergi, þá lýstist það upp. Hann var þeirri gáfu gæddur að kunna að segja frá, svo að allir hlustuðu. Hann sagði frá á þann hátt, að allir heilluðust og vildu heyra meira. Í gleðskap var hann hrókur alls fagnaðar. Hann var vanur að syngja með sinni fallegu röddu sín uppáhaldslög, sem voru mörg og góð. Enn í dag finnst mér mikið vanta í gleðskapinn, að Haukur skuli ekki standa við píanóið að syngja: "Wien, Wien, nur du allein".

Ég sagði fyrr, að Haukur hefði verið blíður maður. Hann var það, en hann var fastur á sínum skoðunum, og sjálfstæðisstefnan var honum í blóð borin. Hann hafði ákaflega sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og hélt þeim fram hvar og hvenær sem var. Hann lét víða gott af sér leiða, þótt það kæmi hvergi fram, og ekkert aumt mátti hann sjá. Ég vil nefna sem dæmi, að fyrir rúmum 30 árum var ég með hund á mínu heimili, sem Hauki var kannski ekkert of vel við, enda fór hann oft inn í hans garð og skildi eftir sig sinn úrgang. Um það bil 10 árum eftir að ég eignaðist hundinn varð hann fyrir bíl að kvöldi til og dó. Það var mikil sorg á mínu heimili. Haukur hafði ekki verið hrifinn af því, að ég væri með hund, og hafði margoft látið þá skoðun í ljós. En hver var fyrsti maður, sem kom til mín morguninn eftir að hundurinn dó? Auðvitað Haukur, sem kom með stóran blómvönd og tár í augum.

Við Haukur höfum búið hlið við hlið frá árinu 1967. Þá var hann nýgiftur Ellí, sem hefur verið hans stoð og stytta síðan. Börnin okkar hafa verið næstum eins og systkini. Ég held, að þeir bræður hafi alltaf litið á börnin hvor annars sem sín eigin og eitt er víst, að börnin mín hafa alltaf litið á Hauk eins og annan pabba. Haukur kom gjarnan yfir til okkar í morgunkaffi, áður en hann fór í vinnuna, hér áður fyrr. Ég er þekkt fyrir annað en að vera skrafhreifin á morgnana, en Haukur lét það ekki á sig fá, og kom inn syngjandi á hverjum morgni, kannski ekki við mikla gleði af minni hálfu, en í endurminningunni var hann góður gestur. Og það er einmitt það, sem hann var.

Aldrei hefur borið skugga á 36 ára sambúð tvíburanna Hauks og Arnar hér í Arnarnesinu. Það má að miklu leyti þakka konu Hauks, henni Ellí. Hún hefur staðið við hlið manns síns sem klettur. Það var örugglega ekki auðvelt fyrir hana, kornunga konu, er hún giftist Hauki, sem hafði verið út og suður í margvíslegum skilningi. En Ellí kunni á sinn mann. Þeirra hjónaband hefur verið farsælt, enda er hún gædd sömu kímnigáfu og Haukur. Ellí, og dætur þeirra, Ragnheiður og Þórunn, hafa ekki vikið frá Hauki undanfarin ár, eftir að hann veiktist, og verið hans stoð og stytta.

Það er erfitt að kveðja mann, sem hefur verið stór hluti af lífi manns í meira en 40 ár. Minningarnar sækja á, en upp úr stendur, að lífið hefði verið svo miklu tómlegra án hans.

Ég þakka samfylgdina og allar góðu minningarnar.

Guðrún Erlendsdóttir.

"Oh, What a Beautiful Morning, Oh, What a Beautiful Day..." Hvern einasta sólbjartan morgun, frá fyrstu tíð okkar í Arnarnesinu, kom Hauki frændi syngjandi inn úr dyrunum til að fá sér einn kaffibolla áður en hann fór til vinnu. Og jafnvel þótt morgunninn væri ekkert sólbjartur, heldur hreinlega rigning, þá söng hann samt! Það voru kannski ekki allir heimilismenn jafnhressir Hauka svona snemma dags, en fyrr en varði var komið bros á alla við morgunverðarborðið. Dagurinn varð betri. Maður var bara í sólskinsskapi það sem eftir var dags. Svona var Hauki. Hann var einhver lífsglaðasti maður sem við höfum nokkru sinni kynnst. Og hann hreif fólk með sér. Lagstúfur hér, gamansaga þar, og hláturinn var svo smitandi að maður réð ekkert við sig og hreifst með.

Hauki, sem á sínum yngri árum var einhver besti íþróttamaður í Evrópu, var ekkert sérlega mikið fyrir að eyða kröftum í óþarfa íþróttasprikl svona síðustu fimmtíu ár ævinnar eða svo. Hann var einu sinni spurður hvort það kæmi aldrei yfir hann löngun til að fara út að hlaupa eða hreyfa sig núna á þessum tímum líkamsræktar og eróbikks. Þá sagði Hauki: "Jú, það kemur einstaka sinnum yfir mig. En þá sest ég í stólinn, lygni aftur augunum og það líður ljúflega hjá!" Hauki tók daginn jafnan snemma og geislaði hreinlega af orku og skemmtilegheitum. Stundum hnippti hann í mann og sagði: "Veistu, að ég sef hreinlega ekki fyrir gáfum! Og ef það gerist, að ég festi blund, hrekk ég óðara upp aftur út af kröftum!" Þessu fylgdi síðan Haukahlátur.

Pabbi og Haukur voru óvenjulega nánir bræður. Segja má að þeir hafi nánast verið óaðskiljanlegir í næstum þrjá aldarfjórðunga. Þeir bjuggu sér heimili hlið við hlið í Arnarnesinu og við nutum þess, krakkarnir, að hafa þetta mikla nábýli við Hauk og Ellí og stelpurnar þeirra. Á vissan hátt má segja að við höfum verið svo lánsöm að eiga tvo pabba og það eru ekki ýkjur, að okkur þótti jafnvænt um Hauka og okkur þykir um foreldra okkar.

Það er afskaplega skrítin og tómleg tilfinning núna, þegar Hauki er búinn að kveðja okkur. Það var sjaldan talað um annaðhvort Örn eða Hauk. Þeir voru nánast eins og eitt. "Brødrene Braun" var nafnið, sem þeir gáfu sér sjálfir. Þegar maður fer að hugsa út í þetta þá er það nokkuð merkilegt, að jafn sterkir karakterar og þeir eru báðir, hvor í sínu lagi, skuli jafnan hafa verið teknir sem ein heild. Auðvitað spilar þar inn í að þeir voru eineggja tvíburar, sem á yngri árum voru svo líkir, að það var ekki fyrir ókunnuga, eða ómannglögga, að þekkja þá í sundur. Ekki hefur það heldur dregið úr, að Clausenbræður voru ekki bara líkir í útliti. Þeir voru sannir vinir og félagar. Hins vegar voru þeir á margan hátt ólíkir og alls ekki alltaf sammála þótt skoðanir þeirra væru eindregnar og lífssýn þeirra sú sama. Það eina, sem kom í veg fyrir, að þeir fæddust inn í Sjálfstæðisflokkinn, var sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki stofnaður fyrr en tæpu ári eftir að þeir fæddust.

Hann Haukur hafði mjög heilsteypta og heilbrigða lífssýn. Hann var frjálslyndur íhaldsmaður af gamla skólanum. Hann var sjálfstæðismaður af bestu gerð og það var síður en svo leyndarmál. Á hans tannlæknastofu fengu framsóknarmenn ekki deyfingu, sagði hann. Og hann stóð við það. Stórvinur hans frá barnæsku, Steingrímur Hermannsson, var til dæmis aldrei deyfður í stólnum hjá Hauki. Þetta var reyndar með samþykki beggja því Denni vildi aldrei láta deyfa sig, en sagan er ekki verri fyrir það. Það voru tveir forsetar Bandaríkjanna, sem Haukur hafði mestar mætur á. Þetta voru þeir Nixon og Reagan. Svona í og með í prakkaraskap varð hann sér úti um ljósmyndir af forsetunum í bandaríska sendiráðinu. Myndirnar voru settar upp á vegg á tannlæknastofu hans í Drápuhlíðinni, og hefur þetta örugglega komið ýmsum spánskt fyrir sjónir. Hauki kærði sig að sjálfsögðu kollóttan um álit annarra í þessum efnum, enda ekki vanur að fara í felur með skoðanir sínar.

Clausenbræður voru náttúrulega fyrst og fremst þekktir fyrir árangur sinn í frjálsum íþróttum. Á þeim vettvangi voru þeir í hópi vaskra merkisbera ÍR. Raunar byrjuðu þeir feril sinn í KR og hafa löngum sagt svo frá, að þeir hafi verið í KR allt þar til þeir fóru að hafa vit. Haukur og Örn fylgdust að á sínum íþróttaferli og það mun hafa verið svo, að þjálfari unglingastarfs KR hafði heitið hverjum þeim, sem gæti gengið á höndum yfir allt gólf KR-heimilisins túkalli í verðlaun. Sjálfsagt hefur hann ekki búist við að neinn þeirra drengja, sem á æfingunni voru, gæti unnið slíkt afrek. Haukur gerði sér hins vegar lítið fyrir og gekk yfir þvert og endilangt KR-heimilið á höndum og var svo svikinn um túkallinn. Clausenbræður sögðu skilið við KR og kepptu ávallt undir merkjum ÍR framvegis. Nokkrum árum síðar, þegar Örn var beittur órétti af hálfu íþróttayfirvalda, hættu þeir bræður báðir keppni rétt liðlega tvítugir að aldri, þegar búnir að skipa sér í sveit mestu afreksmanna álfunnar. Það kom aldrei til greina að aðeins annar tvíburinn hætti keppni, því Haukur tók ekki annað í mál en að standa með bróður sínum. "Brødrene Braun" stóðu alltaf saman, sem einn maður.

Hann Hauki auðgaði líf allra þeirra, sem voru svo heppnir að fá að kynnast honum. Sjálfur var hann lánsmaður en varla er það ofsagt að hans stóra lán í lífinu var að kynnast henni Ellí og eignast hana að lífsförunaut. Hauki hafði verið kvæntur áður, en í Ellí fann hann einstaka manneskju, sem varð hans sálufélagi og, rétt eins og mamma okkar gagnvart pabba, hafði hún húmor fyrir "Brødrene Braun". Þegar þeir sögðu "við" þá þýddi það "við bræðurnir". Þetta var ekkert illa meint hjá þeim. Þeir höfðu jú verið óaðskiljanlegir frá fyrsta degi. Fyrir nokkrum árum varð Hauki fyrir alvarlegum heilsubresti og var ekki hugað líf um nokkurra mánaða skeið. Á einhvern ótrúlegan hátt náði Hauki aftur nokkurri heilsu með hjálp Guðs og góðra manna, eða réttara sagt kvenna, því þær mæðgur Ellí, Ragnheiður og Þórunn viku ekki frá honum á sjúkrabeðnum. Líkamlega náði hann sér aldrei að fullu en andlega sló hann ekki feilpúst. Þrátt fyrir að hafa legið í dái um margra mánaða skeið var það gamli góði Hauki sem vaknaði upp. Kollurinn var í topplagi og húmorinn á sínum stað. Fyrir vikið hafa börnin okkar verið svo heppin að fá að kynnast Hauka frænda, sem þau raunar litu á sem auka-afann sinn í Blikanesinu. Söknuðurinn er sár hjá þeim núna.

Ragnheiður og Þórunn sjá núna á bak föður, sem sá ekki í sólina fyrir þeim. Þær eru báðar miklar pabbastelpur, sem höfðu borið pabba sinn á höndum sér í veikindum hans, rétt eins og hann bar þær á höndum sér þegar hann hafði fullt þrek. Þeirra missir er mikill og við biðjum Guð að gefa þeim styrk. Einnig viljum við biðja Guð að styrkja Önnu Marie, dóttur Hauka af fyrra hjónabandi, sem bjó hjá Hauka og Ellí eftir að hún missti móður sína, 15 ára gömul, svo og syni hans Örn Friðrik og Hauk Arreboe.

Mestur er þó missir Ellíar, sem hefur alltaf staðið sem klettur við hlið Hauka. Styrkur hennar, hlýja, og hennar dásamlegi húmor hefur verið ómetanlegur fyrir okkur öll á erfiðum stundum. Við vitum, að það var líka svo fyrir Hauka. Stundum fannst okkur að við ættum að vera til staðar fyrir hana en einhvern veginn var það hún, sem sýndi styrkinn og fleytti okkur í gegnum hlutina. Við biðjum Guð að veita henni styrk í sorginni.

Það er skrítið að vera nú komin að kveðjustund. Hugurinn leitar til baka til allra litlu hlutanna, sem rifjast nú upp, þegar Hauki er farinn frá okkur. Það rifjast upp jól hjá okkur blönkum í námi í útlöndum, þegar meðal jólapakkanna að heiman leyndist lítið umslag frá Hauka. Það rifjast upp heimsóknir til Hauka og Ellí í Sviss. Það rifjast upp skottúrar að Skaftafelli eða Heklu til að taka myndir í fallegu veðri. Það rifjast upp morgnarnir í eldhúsinu í Blikanesinu. Það er ekki hægt að horfa á Nýárskonsertinn í Vínaróperunni í sjónvarpi án þess að hugsa til Hauka frænda, þótt Hansa hafi nú á sínum tíma talað um "djöfulsins Vínarblut", þegar henni þótti nóg um! Vínarmúsík var í það minnsta í algeru uppáhaldi hjá Hauka, jú, og góðir bandarískir söngleikir.

"Oh What a Beautiful Morning, Oh What a Beautiful Day. I've Got a Wonderful Feeling, Everything's Going My Way!" Þau eru mörg lögin, sem koma upp í hugann núna, þegar við kveðjum Hauka. Við sjáum Hauka fyrir okkur við fallega sólarupprás, syngjandi þetta fallega lag úr Oklahoma. Hann er í góðum félagsskap, þar sem hann er núna, því margir góðir eru farnir á undan. Við mætum seinna og tökum undir lagið.

Hugurinn er hjá Ellí, Ragnheiði og Þórunni og öðrum þeim sem eiga sárast um að binda núna. Minningin um besta og skemmtilegasta frænda í heimi lifir.

Kveðja, Óli, Budda og Hansa.

Ólafur, Guðrún Sesselja og

Jóhanna Vigdís Arnarbörn.

Allt frá því að ég flutti frá Íslandi fyrir níu árum, þá fimm ára gamall, hef ég alltaf komið heim á sumrin. Ég hef aðallega verið hjá ömmu og afa í Blikanesi, og í næsta húsi bjuggu þau Hauki frændi og Ellí, og frænkur mínar Ragnheiður og Þórunn. Ég, og svo seinna Dísa, systir mín, skruppum á hverjum degi (stundum oft á dag) yfir til þeirra. Við vorum alltaf velkomin og það var alltaf skemmtilegt að koma til þeirra. Ég naut þess að sitja og rabba við Hauka um alla mögulega hluti, hann var svo skemmtilegur og hafði ákveðnar skoðanir á málunum. Það skipti engu máli þó að aldursmunurinn á milli okkar væri sex áratugir - hann talaði alltaf við mig eins og jafningja.

Hauki var alltaf í góðu skapi og hafði þannig áhrif á umhverfi sitt að allir urðu léttir og glaðir þar sem hann var nálægt.

Hauki var minn góði vinur. Ég mun alltaf sakna hans og þegar ég kem heim núna verður það því miður til að kveðja hann í síðasta sinn. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að verja tíma með honum. Ég mun segja yngri bræðrum mínum frá hálf-afa okkar, honum Hauka, sem var mikil hetja og riddari og vann allar orrustur, nema þá síðustu, og eins og sannur riddari barðist hann hetjulega til síðustu stundar.

Elsku Ellí, Ragnheiður og Þórunn, við skulum reyna að brosa í gegnum tárin.

Örn Ólafsson.

Það er ekki auðvelt að kveðja góðan vin í nokkrum minningarorðum, vin sem maður hefur bundist svo traustum og góðum böndum, frá ærslafullum æskuárum og fram að ellinni.

Það mun hafa verið vorið 1945 sem sameiginlegur félagi okkar í ÍR fór með mig á gamla góða Melavöllinn að kynna fyrir mér það sem fram færi bakvið bárujárnið. Sú för og árin þar á eftir eru mér ógleymanleg og þar kynntist ég mörgum af mínum bestu vinum og kunningjum sem mér eru kærir enn þann dag í dag. Þar á meðal voru aðsópsmikir tvíburar sem gustaði af svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ekki var hægt að kynnast öðrum án þess að kynnast hinum, svo samrýndir voru þeir eins og gjarnan er með tvíbura.

Árin sem í hönd fóru á þessum unglingsárum eru ógleymanleg bæði í leik og í keppni á hinum ýmsu íþróttamótum, bæði hér heima og erlendis þó að hæst beri þátttöku okkar og samveru á Ólympíuleikunum í London 1948. Þegar alvara lífsins tók við af þessum glöðu og áhyggjulausu árum var þá ekkert um annað að ræða en hætta leik, þó að bestu íþróttamenn og síðar afreksmenn allstaðar í kringum okkur væru rétt að hefja sinn feril. Svona var þetta bara, þó að breytingar hafi á orðið með tilkomu alls konar styrkja, fjárhagslegra og á annan hátt. Þegar íþróttaferli okkar lauk hófst alvara lífsins fyrir alvöru. Ég fór að byggja mér hús en Haukur að gera við tennur fólks og Örn fór í lögfræðina. Ekki rofnuðu tengsl okkar samt, því við vorum nábúar, þeir á Freyjugötu og ég á Mímisvegi. Of langt mál er að rifja upp allt það helsta sem brallað var.

Lengi vel dáðist ég að Hauki vegna íþróttaafreka hans og langaði mjög að gera eins vel og hann. En maður má ekki vanmeta sjálfan sig því þar kom að hann vildi gera eins og ég, nefnilega að kvænast einni af heimasætunum af Sóleyjargötu 11 og þar með vorum við orðnir svilar.

Vegna tengsla minna við íþróttafélag Reykjavíkur er mér ljúft og skylt að færa Hauki innilegustu þakkir okkar fyrir hvað hann gerði og var fyrir ÍR. Ferill hans á íþróttasviðinu er ótrúlegur miðað við hvað ungur hann var þegar hann náði sínum bestu árangrum. Hann var einn besti spretthlaupari Íslands, Norðurlandanna og Evrópu árin 1946-1951. Setti unglingamet í öllum hlaupum frá 80 m og upp í 400 metra, 200 m grindahlaupi og boðhlaupum með ÍR, Íslandsmet karla í 100, 200 og 400 m hlaupum og 200 m grindahlaupi og boðhlaupunum með ÍR og landsliðinu árin 1947-1950.

Einn glæsilegast sigur hans og ógleymanlegur þeim sem á horfðu, var þegar hann varð Norðurlandameistari í 200 m hlaupi þá aðeis 18 ára. Datt manni ekkert annað í hug en þar færi berserkur. Ekki var Haukur í náðinni hjá íþróttaforystunni er valið var lið Íslands á Evrópumótið í Brussel 1950, en þakkaði fyrir sig með því að setja Íslandsmet og Norðurlandamet í 200 m í Svíþjóð um sama leyti (21,3 sem hefði dugað til Evrópumeistaratitils). Það Norðurlandamet stóð á annan áratug og sem Íslandsmet í nær þrjá áratugi.

Var í landsliði Íslands sem sigraði Dani og Norðmenn í keppni í Noregi 1951. Keppti aðeins einu sinni í tugþraut og náði þá öðrum besta árangri Íslendings frá upphafi. Tók þátt í Ólympíuleikunum í London 1948, eins og áður sagði. Haukur var traustur bakhjarl ÍR-inga í áratugi. Hann brást aldrei félagi sínu, Íþróttafélagi Reykjavíkur, ÍR, þegar til hans var leitað. Fyrir það og margt annars var Haukur sæmdur heiðursorðum félagsins, sem lítils þakklætisvotts frá félaginu. Nafn hans verður með gullnu letri skráð í íþróttasögu Ísland þegar hún verður rituð er fram líða stundir.

Fyrir hönd stjórnar Íþróttafélags Reykjavíkur og formannafélags ÍR færi ég þér bestu þakkir fyrir traust og tryggð við félagið í gegnum árin.

Elsku Elín, Ragnheiður og Þórunn, Guð veri með ykkur og kæri "Addi bróðir", missir þinn er mikill. Haukur minn, far þú í friði.

Reynir Sigurðsson.

Haukur Clausen vinur minn er látinn. Með honum er genginn afreksmaður á alla lund. Ég átti því lífsláni að fagna að fá að kynnast honum og njóta vinskapar hans og hlýju sem einkenndi allt hans far. Hæfileikar hans sköruðu fram úr á öllum sviðum. Hann var íþróttamaður á heimsmælikvarða, afburða góður læknir og listamaður. Hann var fyrst og fremst hjartahlýr og góður maður.

Ungur að árum gekk ég til hans á tannlæknastofuna á Öldugötunni og fylgdi honum þar til hann lét af störfum. Þrátt fyrir mikla líkamsburði var hann fínhentur og varkár læknir. Með léttri lund og frásagnargáfu sem var honum einum gefin eyddi hann kvíða og sársauka sem oft fylgja heimsókn til tannlæknisins.

Það var alltaf skemmtilegt að vera í námunda við Hauk. Á meðan faðir minn leigði Þverá í Borgarfirði voru Clausen-bræður alltaf við opnun árinnar. Þá var glatt á hjalla, sungið, spilað og sagðar sögur. Veiðiáhuginn var honum í blóð borinn og þegar fyrsti laxinn lá silfurgljáandi á bakkanum var kátínan í hámarki. Þessar stundir við Þverá eru ógleymanlegar. Hvorki veður, vindur né veiðileysi gátu skyggt á þá gleði sem ríkti í kringum Hauk.

Eftir að ég flutti utan heimsótti Haukur mig nær árlega. Við ókum um fögur landsvæði Sviss og áttum það sameiginlegt að heillast af landslaginu en gættum þess líka að fararskjótinn væri góður. Hlógum við oft og innilega að bíladellunni sem hrjáði okkur báða og ákváðum að leita ekki lækninga við henni.

Haukur hafði næmt auga fyrir fögru landslagi og endurspegluðust þessir hæfileikar hans í þeim listaverkum sem hann lætur eftir sig. Málverkin hans sem prýða heimili mitt eru dýrmætar gjafir manns sem sýndi mér traust, ást og umhyggju á meðan ævi entist.

Á kveðjustundu er hugurinn hjá fjölskyldu Hauks; Ellý, Ragnheiði og Þórunni. Þau syrgja elskulegan eiginmann, föður og vin sem við öll vildum eiga. Guð blessi minningu Hauks Clausen.

Jón Kjartansson.

"Haukur kvaddi klukkan hálfsjö." Þannig var mér tilkynnt andlát míns góða vinar, Hauks Clausen, að kvöldi fimmtudagsins fyrsta maí. Eftir mikil veikindi kom andlát Hauks ekki á óvart. Engu að síður skilur Haukur eftir sig mikið skarð. Hann var þannig maður.

Við Haukur kynntumst ungir við Tjörnina. Þeir bræður, Haukur og Örn, bjuggu í Vonarstrætinu og ég í Tjarnargötunni. Við urðum félagar í Röskum drengjum, lékum okkur á Tjörninni og á Landakotstúninu þar sem Haukur tók sín fyrstu skref í spretthlaupum. Þar kom í ljós að efnið var gott og keppnisskapið mikið. Það var ekki síst skapið sem bar Hauk oft til sigurs. Leiðir okkar lágu síðan saman í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar vorum við bekkjarbræður í sex ár. Þessi æskukynni okkar leiddu til ævilangrar vináttu, sem aldrei bar skugga á.

Allt sem Haukur vildi gera gerði hann með ágætum. Haukur var einn fremsti íþróttamaður, sem við Íslendingar höfum átt. Á þeim vettvangi var hann þjóð sinni til sóma. Haukur var mjög góður málari. Hygg ég, að það hafi verið sú tómstundaiðja, sem hreif hann mest. Sem tannlæknir var Haukur frábær. Um þetta allt verður eflaust fjallað vel af öðrum. Það, sem ég met þó mest, eru okkar mörgu samverustundir, ekki síst á okkar yngri árum. Á kveðjustundu leita þær minningar á hugann, minningar um góðan dreng.

Með þessum fátæklegu orðum kveð ég vin minn, Hauk Clausen. Við Edda vottum eiginkonu Hauks, Elínu Thorarensen, börnum, Erni bróður Hauks og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Steingrímur Hermannsson.

Mjög góður vinur og félagi, Haukur Clausen, er látinn.

Hann átti í baráttu við erfið veikindi um árabil. Barðist eins og hetja uns yfir lauk.

Þessa lífsglaða góða drengs og listamanns er sárt saknað. Kynni okkar hófust í Vatnsmýrinni fyrir tæpum sex áratugum, þegar ungir frjálsíþróttamenn úr ÍR komu saman til æfinga. Árum saman var keppt á gamla Melavellinum, oft við erfiðar aðstæður þess tíma.

Framfarir voru ótrúlega miklar, sem urðu til þess að leiðir lágu til keppni í útlöndum. Haukur keppti m.a. á Ólympíuleikunum í London 1948, Evrópumeistaramótinu í Brussel 1950 og Norðurlandameistaramótinu í Stokkhólmi 1947, þar sem hann varð meistari í 200 m hlaupi, yngstur allra keppenda á mótinu, aðeins 18 ára gamall.

Haukur setti fjölda Íslandsmeta á ferlinum, sem því miður var alltof stuttur.

Hvergi kynnast menn betur en við íþróttaæfingar og ferðalög í því sambandi.

Það er margs að minnast þegar litið er til baka.

Oft var "barist" um sentimetra og sekúndubrot og gekk á ýmsu, sigrar og töp eins og gengur. Keppnin styrkti okkur í lífsbaráttunni og veit ég að það var okkur til heilla.

Þegar þeir bræður Haukur og Örn voru að byggja sér framtíðarhúsnæði í Garðabænum hringdi Haukur í mig og sagði að það væri laus lóð við hliðina á þeim bræðrum og við hjónin ættum að kaupa hana. Það var slegið til og bygging hafin skömmu síðar.

Þarna vorum við nábúar í tuttugu ár og varð vinskapurinn við Hauk og Ellí þeim mun meiri sem árin liðu. Samband við fjölskyldu Hauks var náið.

Elsku Ellí, Ragnheiði og Þórunni, sem eiga um sárt að binda, sendum við fjölskyldan innilegar samúðarkveðjur. Sömuleiðis Erni og öðrum ættingjum.

Finnbjörn Þorvaldsson.

Kveðja frá Tannlæknafélagi Íslands

Haukur Clausen, heiðursfélagi í Tannlæknafélagi Íslands og fyrrverandi formaður þess, er látinn. Tannlæknar minnast hans með söknuði og þakklæti.

Hann hafði mikinn metnað fyrir hönd tannlækninga á Íslandi og var óþreytandi við að hvetja menn til að leita sér frekari þekkingar. Sjálfur var hann lýsandi dæmi þar um. Hann var farsæll í starfi og uppskar vinsældir og virðingu þeirra sem til hans leituðu.

Í félagsmálum vann Haukur mikið starf fyrir Tannlæknafélag Íslands og gegndi þar fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann bretti upp ermarnar ef með þurfti, fór fyrstur í baráttuna og hreif menn með sér. Hann fór fyrir tannlæknum á líflegum tíma í sögu félagsins og reyndist þá sannur leiðtogi. Haukur var litríkur og skemmtilegur persónuleiki. Hann hafði mótaðar skoðanir, sem hann fylgdi eftir af ómældum sannfæringarkrafti. Mörg tilsvör hans og spakmæli eru þekkt og munu lifa ásamt minningunni um ósérhlífinn baráttumann en jafnframt hlýjan og góðan dreng.

Við viljum á þessari stundu þakka fyrir hans mikla starf í þágu tannlækninga og vottum fjölskyldu, ættingjum og vinum Hauks okkar dýpstu samúð.

Þórarinn Jónsson.

Kveðja frá ÍR

Íþróttafélag Reykjavíkur kveður góðan félaga, Hauk Clausen. Haukur var mikill afreksmaður í frjálsum íþróttum og landsþekktur frá unga aldri.

Hann átti stóran þátt í að gera ÍR að stórveldi í frjálsum og bar uppi merki félagsins með afrekum sínum.

Haukur varð Norðurlandameistari í 200 metrum 18 ára gamall og hann átti fjölda Íslandsmeta í spretthlaupum og þótti glæsilegur á hlaupabrautinni.

ÍR kveður Hauk með þakklæti og vottar aðstandendum samúð.

Íþróttafélag Reykjavíkur.

Íslensk íþróttasaga er löng og litrík. Þar hafa margir komið við sögu og mörg afrek verið unnin. En í áranna rás rísa sumir atburðir upp úr, sumir sigrar verða dýrmætari og eftirminnilegri en aðrir, sumir einstakir íþróttamenn verða sveipaðir dýrðarljóma um aldur og ævi.

Þannig var um árin sem Clausensbræðurnir kepptu og sigruðu og gerðu garðinn frægan. Örn og Haukur ásamt mörgum öðrum fræknum köppum, Huseby, Torfa, Finnbirni, Jóel Sigurðssyni, Skúla Guðmundssyni og fleirum og fleirum. Þetta var tímabilið í kringum 1950, gullaldartíminn í frjálsum.

Haukur var þar fremstur meðal jafningja, Norðurlandameistari og Norðurlandamethafi, stórkostlegur hlaupari á heimsmælikvarða og þó var hann ekki nema 23 ára þegar hann hætti keppni. Hvílíkur ferill. Og þó hefði hann getað lagt heiminn að fótum sér, ef hann hefði haldið áfram og notið þeirrar þjálfunar og aðstöðu, sem víðar og seinna gafst færi á.

En þannig voru íþróttirnar í þá daga, áhugamennska háð duttlungum, félagarígur og fordómar og kylfa réð kasti, hvort viðkomandi sjálfur hefði áhuga, tækifæri eða tíma til að sinna þeim hæfileikum, sem honum voru gefnir. Og þeim Clausensbræðrum var svo sannarlega gefinn sá náttúrutalent, sú náðargáfa, eins og hún gerist best enn í dag. Frábær líkamsbygging, sprengikraftur, ótrúlegur hraði og keppnisskap sem lýsti upp brautina og þá sjálfa. Þetta allt fengu þeir í vöggugjöf, tvíburarnir, og Haukur, var engu líkur. Nema þá Erni bróður sínum!

Ég man enn þá tíð.

Seinna á lifsleiðinni átti ég því láni að fagna að kynnast þessum manni, þessari goðsögn, og það sópaði að honum, það geislaði frá honum og það fór aldrei á milli mála að þar var enginn meðalmaður á ferð. Hann var stór í sniðum, í hverju sem hann tók sér fyrir hendur. Og íþróttum unni hann alla tíð, fylgdist vel með, gaf góð ráð og var óragur við að segja sínar meiningar um menn og málefni. Hann var jafnan fyrstur í mark, hann Haukur, hvar sem hann haslaði sér völl.

Íslensk íþróttahreyfing syrgir lát hans, þessa mikla afreksmanns, þessarar þjóðhetju, þessarar íþróttakempu, sem átti í rauninni aldrei neinn jafningja. Sem kom og fór eins og hvítur stormsveipur, en markaði spor sín með svo glæsilegum hætti að nafn hans verður skráð gylltum stöfum í íþróttasögunni, svo lengi sem íþróttir verða stundaðar hér á landi.

Ellert B. Schram.

Í dag er lagður til hinstu hvílu Haukur Clausen tannlæknir, einn þeirra fræknu íþróttamanna sem svo eftirminnilega unnu stóra og glæsta sigra á fjölda frjálsíþróttamóta hér heima og vítt og breitt um Evrópu laust upp úr lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, á árunum 1946-51, en það tímabil er ýmist nefnt "frjálsíþróttavorið" eða gullaldartímabil frjálsra íþrótta á Íslandi. (Sjá bók Ómars Ragnarssonar "Mannlífsstiklur", Fróði 1996.)

Frammistaða þessara æskumanna okkar og afrek þeirra á þessum tíma voru slík, að erlendir íþróttablaðamenn, íþróttaforkólfar sem og áhugafólk gat vart skilið að íþróttamenn langt norðan úr hafi, þar sem hlutu að ríkja mjög óblíðar aðstæður, gætu verið þess megnugir að vinna slík afrek og skjóta iðulega stórþjóðum aftur fyrir sig í stigakeppnum á alþjóðlegum stórmótum. Gunnar heitinn Huseby ruddi brautina þegar hann sigraði svo óvænt í kúluvarpi á Evrópumeistaramótinu í Ósló 1946. Þegar næsta mót var haldið í Brussel árið 1950 hafði heldur betur bæst í hópinn. Þar var mættur stór hópur afreksmanna héðan, þ.ám. fjölmargir mjög góðir spretthlauparar, Torfi Bryngeirsson og tvíburabræðurnir Haukur og Örn Clausen, en Haukur hafði orðið Norðurlandameistari árið 1947 í 200 metra hlaupi, aðeins 18 ára gamall. Huseby, sem var mættur aftur í hringinn eftir nær þriggja ára hlé frá æfingum og keppni, sigraði með miklum yfirburðum í kúluvarpi (16,74) og setti Norðurlandamet. Torfi sigraði í langstökki (7,32) á nýju íslensku meti - í mótvindi - og Örn Clausen hlaut silfurverðlaun í tugþraut eftir harða keppni við Frakkann Heinrich og setti nýtt Norðurlandamet.

Haukur komst í úrslit í 100 metra hlaupi en fararstjórar okkar skráðu Hauk ekki til keppni í 200 metra hlaupið þrátt fyrir eindræga ósk hans þar um. Örfáum dögum síðar setti Haukur nýtt Íslandsmet (21,3) í þessari grein á stórmóti í Svíþjóð. Þessi tími var sá besti í Evrópu það ár, hefði nægt til sigurs á EM og var Norðurlandamet sem stóð á annan áratug og sem Íslandsmet í aldarfjórðung. Árið eftir, þá aðeins 23 ára að aldri, hætti hann keppni sem og bróðir hans Örn. Keppnisferill þeirra stóð aðeins í fimm ár. Þeir hættu á þeim aldri þegar flestir aðrir eru rétt að byrja. Þeir bræður sem og félagar þeirra æfðu og kepptu hér á landi við mjög frumstæðar aðstæður samanborið við það sem nú þekkist. Á Melavellinum voru malarbrautir og sandgryfjur, lyftingatæki og slík áhöld þekktust ekki og innanhúss fóru æfingar fram í íþróttahúsum þar sem einungis var unnt að hlaupa örfá skref.

Sótt var um gjaldeyrisleyfi hjá Gjaldeyrisskömmtunarnefnd til þess að kaupa gaddaskó fyrir EM-farana árið 1950. Leyfi fékkst til gjaldeyrisyfirfærslu til kaupa á einu pari! Parið gekk síðan á milli manna. Það var ekkert verið að mylja neitt sérstaklega undir okkar menn, enda peningar þá sjálfsagt af skornum skammti. Hver og einn gekk til sinnar vinnu, oftar en ekki stritvinnu, skurðgraftar, uppskipunar o.s.frv. Svo æfðu menn af og til og kepptu þegar færi gafst og þrek var aflögu. Það sóttu þessir menn í feitt ket, soðningu og lýsi.

Afrek þeirra smituðu út frá sér. Þeir voru fyrirmynd. Hvarvetna mátti sjá strákahópa á túnblettum og öðrum svæðum í borginni að æfa sig og keppa sín á milli í frjálsum íþróttum. Og ekki var áhuginn minni úti á landsbyggðinni.

Haukur Clausen sem nú er kvaddur var mikill afreksmaður, drengur góður og mikill ÍR-ingur sem ávallt reyndist sínu gamla félagi og íþróttunum vel. Fyrir það og annað er nú þakkað.

Eftirlifandi eiginkonu hans Elínu, börnum, bróður hans Erni og öðrum ættingjum er vottuð innileg samúð við fráfall hans. Blessuð sé minning Hauks Clausen.

Jón Þórður Ólafsson.

Haukur Clausen setti svo sannarlega svip á umhverfi sitt og samtíð. Þar sem Haukur fór var hann í fararbroddi. Hann var meðal fremstu íþróttamanna sem þjóðin hefur átt, meðal virtustu tannlækna landsins auk þess að vera forystumaður í félagsmálum tannlækna. Hann var einn þekktasti frístundamálari landsins. Auk þess var hann glæsimenni að útliti og yfirbragði þannig að eftir var tekið.

Haukur útskrifaðist sem tannlæknir frá Háskóla Íslands árið 1952, en hugur hans stóð til frekara náms og að sjálfsögðu komu aðeins Bandaríkin til greina. Dvaldi hann við framhaldsnám við tannlæknaháskólann í Minnesota 1952-1953 og lagði einkum stund á krónu- og brúarsmíði. Hann stundaði síðan tannlækningar í Reykjavík í rúm 40 ár og var meðal þekktustu og vinsælustu tannlækna landsins. Allan þann tíma sótti hann reglulega námskeið og ráðstefnur í faginu bæði heima og erlendis og var jafnan tannlækna fyrstur til að tileinka sér nýjungar. Haukur tók virkan þátt í félagsstarfi tannlækna og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum og var m.a. formaður Tannlæknafélagsins um skeið. Á aðalfundi árið 1999 varð hann þess heiðurs aðnjótandi að vera kjörinn heiðursfélagi TFÍ.

Haukur var mjög laghentur og listrænn að eðlisfari og hafði afburða litaskyn sem kom að góðum notum í starfi sínu sem tannlæknir. Hann lærði ungur að nota liti og mála. Vegna anna við tannlækningar fór minna fyrir málaralistinni framan af starfsævinni. En eftir miðjan aldur tók Haukur að sinna betur list sinni og málaði einkum landslagsmyndir. Hélt hann m.a. tvær málverkasýningar á Kjarvalsstöðum sem fengu góða dóma.

Haukur var einhver skemmtilegasti maður sem ég hef þekkt, mikill húmoristi og sögumaður. Hann var oftar en ekki miðpunkturinn, hvort sem var í annríki starfsins, á mannamótum eða góðum stundum með félögunum þar sem hann með bros í augum sagði léttkryddaðar gamansögur af mönnum og málefnum. Í kaupbæti fylgdu oft frásögninni leikræn tilþrif sem hefðu sómt sér á hvaða leikhúsfjölum sem var, með þessum létta hvískrandi stríðnishlátri inn á milli.

Undir galsanum bjó líka afskaplega hlý persóna með gott hjartalag og djúpt mannlægt innsæi sem gott var að leita til, hvort sem var um að ræða dægurmálefni eða málefni af persónulegri toga. Áttu þar margir "Hauk í horni", ekki síst öldruð móðir hans sem hann heimsótti nær daglega eftir erilsaman stofudag.

Haukur gekk til allra verka af krafti og dugnaði enda bæði keppnis- og málafylgjumaður. Þótt hann gæti á stundum verið hvass og ákveðinn og oft gustaði töluvert af honum átti hann auðvelt með að umgangast fólk. Hann hafði ákveðnar skoðanir í flestum málum og lét þær óhikað í ljósi. Um stjórnmálaskoðanir hans og sýn á alþjóðamál velktist enginn í vafa. Til áréttingar hékk mynd af Richard Nixon á tannlækningastofunni og seinna bættist Ronald Reagan í félagsskapinn.

Leiðir okkar Hauks lágu fyrst saman í tannlæknaháskólanum í Minnesota, ég sem ungur kennari þar og hann að heimsækja sinn gamla skóla. Yfirmaður minn Dr. Romano hafði sagt mér að þar hefði verið Íslendingur sem hann mundi ekki hvað hét og hefði verið með sér í skóla. Sá hefði verið gerður að heiðursfélaga í félagi tannlæknanema, svokölluðu "dental fraternity". Félagsskapur þessi átti sitt eigið hús og þar hittust tannlæknanemar gjarna eftir skóla eða skemmtu sér eins og maður sér stundum í amerískum bíómyndum. Ástæðan fyrir upphefð íslendingsins var sú að hann hafði leyst þrautir þær sem voru skilyrði inngöngu margfalt betur og hraðar en nokkur hafði áður gert. Auk þess hefði hann verið svo góður í íþróttum að félag tannlæknanema hefði unnið allar frjálsíþróttakeppnir stúdenta með því að tefla fram þessum eina manni. Ég kannaðist ekkert við persónuna og lét inn um annað og út um hitt enda algengt að kanar séu ekki sterkir í landafræðinni. Einn daginn kom Romano blaðskellandi og sigri hrósandi og sagði "hann er hér" og kynnti mig fyrir Hauki Clausen.

Og Haukur vann hugi fleiri en tannlæknanema í Minnesota. Valdimar Björnsson, sem lengi vel var fjármálaráðherra í Minnesota, sagði mér að í einni kosningarbaráttunni hefði Haukur verið bílstjóri hjá sér á kosningaferðalögum. Hann hefði alltaf kynnt Hauk á kosningafundum sem son sinn og látið hann segja fáein orð með góðum skandinavískum hreim sem flestir þekktu vel frá forfeðrum sínum. Hefði þetta aflað margra atkvæða enda hlyti manni sem ætti svona myndarlegan son sem talaði auk þess með hreim gamla landsins örugglega að vera treystandi fyrir fjármálum fylkisins.

Vinátta okkar Hauks hófst fyrir alvöru þegar ég var aðstoðartannlæknir á stofu hans í nokkur misseri eftir að ég flutti heim frá Minnesota. Þetta er án vafa skemmtilegasti vinnustaður sem ég hef starfað á, enda alltaf líf og fjör í kringum Hauk. Ekki voru síðri ferðir okkar til margra ára á tannlæknaráðstefnur í Chicago sem voru oftast með viðkomu á fornum slóðum í Minneapolis. Og þegar við urðum þreyttir á fundahöldum og vísindum stakk Haukur gjarnan upp á að fara að "valsa" eins og hann kallaði það, en þá vissi hann oftast um eitthvert kaffi- eða öldurhús þar sem hægt var að taka púlsinn á mannlífinu, svo ég tali nú ekki um árlega bílasýningu sem ætíð var í Chicago á sama tíma, en Haukur var forfallinn bíladellukarl. Og aldrei klikkuðum við á að hafa nóg af Fannie May-konfekti á hótelherberginu, en Haukur var vel liðtækur sælkeri, a.m.k. þekkti hann alla bestu veitingastaðina á svæðinu.

Lífshlaupi heimsmannsins Hauks Clausen er lokið eftir erfið veikindi. Með söknuði kveð ég góðan samferðamann og vin. Ég votta eiginkonu hans og börnum, Erni bróður hans og fjölskyldunni allri mína innilegustu samúð.

Sigfús Þór Elíasson.

Haukur vinur minn er látinn, ég hrökk við þegar ég heyrði fregnina og þó hafði ég mátt lengi búast við henni, því þegar svo er komið sem raun var á þarf naumast að spyrja um lokin.

Það var með ólíkindum hvað hann var búinn að berjast lengi við hið óumflýjanlega af miklum dugnaði og járnvilja. Hann var ekki einn í baráttunni, Ellí og dæturnar stóðu með honum af ómælanlegri fórnfýsi og kærleika og samstaða bræðranna var aðdáunarverð. Það voru mér sérstök forréttindi að eiga þau öll að vinum og nágrönnum í marga áratugi, hlýjan og hjálpsemin voru einstök af þeirra hálfu.

En nú er silfurþráðurinn slitinn og gullskálin brotin, eftir er skilið duftið eitt, hið jarðneska dust, er hverfur til jarðarinnar. En andinn er farinn til Guðs, sem gaf hann. Áin niðar. Elfur lífsins fellur fram að úthafi eilífðar. Á ströndinni hinum megin við það haf bíða foreldrarnir með opna arma og taka á móti syninum.

Elsku Ellí, dæturnar og Örn, ég votta ykkur djúpa samúð. Minningin um glæsilegan íþróttamann, góðan dreng og mikilhæfan listamann, einlægan vin og nágranna lifir um ókomna tíð, blessuð sé sú minning.

Friðrik Eiríksson frá Hesti.

Með Hauki Clausen er einn helsti frumkvöðull tannlækninga á Íslandi fallinn frá. Kynni okkar hófust þegar ég var við nám í Háskóla Íslands fyrir tæpum tuttugu árum. Þegar stutt var í námslok bauð Haukur mér að kaupa tannlæknastofu sína. Ég varð svolítið hissa enda var Haukur rétt rúmlega sextugur og í fullu fjöri. Félagar Hauks voru enn meira hissa og margir jafnvel hneykslaðir. En þar sýndi hann einmitt hversu mikill frumkvöðull hann var. Vildi koma rekstrinum og ábyrgðinni yfir á yngri aðila en halda sjálfur áfram að eigin vild og áhuga.

Haukur var ótrúlegur dugnaðarforkur. Hann útskrifaðist árið 1952 úr tannlæknadeild HÍ en hélt þá til Bandaríkjanna til að kynna sér tannlækningar betur. Þá tíðkaðist ekki að menn færu utan í framhaldsnám, enda engin námslán eða þvíumlíkt. Haukur sagðist aldrei hafa verið jafnfátækur á ævinni. Hann bjargaði sér m.a. með því að vaxa upp krónur með aðstoð gaseldavélar á heimili vinar síns og tók þrjá dollara fyrir stykkið. Þegar heim var komið ári seinna opnaði Haukur sína fyrstu tannlæknastofu að Túngötu og hjá Hauki hafa margir helstu sérfræðingar landsins stigið sín fyrstu spor sem aðstoðartannlæknar. Og betri handleiðslu var ekki hægt að fá. Haukur var duglegur að kynna sér nýjungar og fór reglulega til Bandaríkjanna að sækja sér endurmenntun. Hann var sá fyrsti á Íslandi sem notaði kælingu við að bora, sá fyrsti sem fór að nota ljós til að herða plastefni og var frumkvöðull í að gera skorufyllur. Eitthvað sem okkur af yngri kynslóðinni finnst sjálfsagt í dag, var þá alls ekki sjálfsagt.

Það var gaman að heyra Hauk segja frá því þegar kollegarnir fussuðu og sveiuðu yfir vitleysunni í honum, en komu svo með skottið á milli lappanna nokkrum árum síðar og viðurkenndu að eiginlega hefði hann haft rétt fyrir sér. Allavega með kælinguna við að bora. Og reyndar margt fleira. Hins vegar voru ekki allir alltaf sammála Hauki. Einhverjum þótti óviðeigandi að tannlæknir ætti hlut í sælgætisverksmiðju, þó í stuttan tíma hafi varað. Og aðilar Tryggingastofnunar í samninganefnd hugsuðu Hauki oft þegjandi þörfina. En Haukur var alltaf samkvæmur sjálfum sér og bugaðist aldrei. Eitt sinn var hann eini tannlæknirinn sem var utan sjúkrasamlags til að mótmæla reglugerð sem heilbrigðisráðherra hafði sett. Í heila sex mánuði, eða þar til reglugerðinni var breytt. Þetta var alveg dæmigerður Haukur.

Faglega var Haukur ávallt á undan samtíðinni og hafði ótrúlega gott innsæi í heimi tannlækninga. Haukur hafði fagmennskuna í fyrirrúmi og hafði ímugust á tilraunum opinberra yfirvalda til að skerða gæði tannlækninga í þeim tilgangi að lækka kostnað. En þrátt fyrir að Haukur væri oft töff á yfirborðinu, leyndist ljúfur og góður drengur undir þykkum skráp. Það var alltaf gott og gaman að koma í Blikanesið og hlusta á Hauk, en hann gat endalaust sagt sögur frá liðinni tíð. Af þessum sögum er hægt að læra svo mikið. Og Haukur var umvafinn hlýju fjölskyldu sinnar, sem hefur nú misst mikið, en líka mikils fengið að njóta. Því það getur enginn fyllt skarð Hauks Clausen. Og við eigum eftir að sakna hans.

Bjarni og Kristín.

Okkur langar að minnast fyrrverandi yfirmanns okkar, Hauks Clausen, með nokkrum orðum. Hann var meðal fyrstu tannlækna til að nýta sér tannfræðinga í starfi, hafði tannsmið á stofunni og var alltaf með tvær klíníkdömur sér við hlið. Þegar við unnum hjá Hauki hafði hann verið með tannlæknastofu í tæp þrjátíu ár og talaði hann oft um að við værum besta "settið" sem hann hefði haft.

Þótt það séu mörg ár síðan við hættum að vinna hjá Hauki lifir þessi tími ávallt í minningunni. Það var alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast í kringum Hauk og margir skemmtilegir gestir sem vöndu komur sínar á stofuna í Drápuhlíð 36 og fengu sér kaffibolla með okkur. Þó að þetta væru persónulegir vinir Hauks fengum við alltaf að vera með í samræðunum. Fólk kom hvaðanæva úr heiminum til að koma í tannviðgerðir til hans, t.d. frá Lúxemborg og Ameríku svo eitthvað sé nefnt.

Haukur elskaði klassíska tónlist og ameríska söngleiki og byrjaði hver dagur á því að Haukur kom inn um dyrnar, syngjandi: "Oh, what a beautiful morning." Já, það var ekki hægt annað en að mæta í góðu skapi í vinnuna hjá Hauki.

Haukur var mikill húmoristi og gerði óspart grín að sjálfum sér. Það var mjög skemmtilegur og góður andi á tannlæknastofunni, oft hlegið hátt og við vorum eins og samrýmd fjölskylda. Við fórum oft út að skemmta okkur saman, fórum heim til hans í boð, út að borða með honum og Ellýju og þá á fínustu veitingahús borgarinnar. Aldrei fundum við fyrir kynslóðabili, þótt árin milli okkar hafi verið mörg, og því síður fyrir stéttaskiptingu því Haukur fór aldrei í manngreinarálit.

Hann var einstakur vinnuveitandi sem gerði ýmislegt sem ekki tíðkaðist meðal vinnuveitenda á þessum tíma. Til dæmis fengum við jólabónus, lengra sumarfrí og fjórum sinnum kom það fyrir að tvær okkar voru ófrískar á meðan við störfuðum hjá Hauki og þá tók hann ekki annað í mál en að við hættum að vinna mánuði fyrir fæðingu barnsins og borgaði okkur kaup á meðan. Hann var einstaklega bóngóður og það var ekkert sem hann vildi ekki fyrir okkur gera, hann borgaði fyrir okkur myndlistarkúrsa, aðstoðaði okkur með veisluföng í afmælisveislur og margt fleira. Við vorum tilbúnar að gera ýmislegt á móti sem ekki var innan verksiðs okkar því við vissum að hann myndi gera slíkt hið sama fyrir okkur.

Það kom stundum fyrir að það fauk í hann og hann snöggreiddist, en hann var jafnfljótur að jafna sig og sá þá alltaf strax eftir reiði sinni og var fyrstur til að viðurkenna mistök sín.

Haukur bar mikla ást og umhyggju fyrir sínum nánustu og var sérstaklega góður við móður sína og heimsótti hana t.d. á hverjum degi eftir vinnu á meðan hún lifði. Hann var alla tíð mjög náinn bróður sínum, Erni, og talaði við hann á hverjum degi. Það mættu margir taka Hauk til fyrirmyndar hvað fjölskyldurækni varðar því nú á tímum er hraðinn í þjóðfélaginu orðinn það mikill að fólk hefur ekki lengur tíma fyrir sína nánustu.

Já, við mættum glaðar í vinnuna á hverjum degi hjá Hauki. Sá tími er okkur ógleymanlegur og það fór þó aldrei svo að orð hans yrðu að sönnu, en hann sagði oft við okkur: "Já, stelpur, þið eigið einhvern tímann eftir að vera þakklátar fyrir það að hafa verið samtíðarmenn mínir." Við erum svo sannarlega þakklátar því. Við sjáum eftir góðum vini og biðjum Guð að vaka yfir fjölskyldu Hauks, sérstaklega Ellýju, Ragnheiði og Þórunni.

Jónína Ómarsdóttir, Hulda Björg Rósarsdóttir og Kolbrún Baldvinsdóttir.

Við starfsfólk Thorarensen - Lyfja kynntumst Hauki Clausen er hann hætti sem tannlæknir og kom til starfa sem sölumaður. Haukur kom fyrir sem glaðlyndur maður, hann hafði reynt margt og deildi lífsreynslu sinni með okkur yngra fólkinu. Helst komst hann á flug þegar hann talaði um klassíska tónlist, óperettur o.fl. og eins voru veiðisögurnar óborganlegar. Haukur var listhneigður og hafði ákveðnar skoðanir á því hvað væri góð list. Við fengum að njóta þess því að á vegg fyrirtækisins hékk falleg landslagsmynd eftir Hauk sjálfan. Hvar sem Haukur kom var tekið eftir því hvað hann hafði mikla útgeislun og var óspar á að láta skoðanir sínar í ljósi. Við minnumst hans með söknuði og sendum fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Starfsfólk Thorarensen - Lyfja.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.