Spurning : Mig langar að biðja um upplýsingar um Sjögrens-heilkenni. Hvers eðlis er þessi sjúkdómur og getur hann verið banvænn?
Spurning: Mig langar að biðja um upplýsingar um Sjögrens-heilkenni. Hvers eðlis er þessi sjúkdómur og getur hann verið banvænn?

Svar: Sjögrens-sjúkdómur eða Sjögrens-heilkenni (heilkenni er safn sjúkdómseinkenna) er langvinnur sjúkdómur sem getur lagst á mörg líffærakerfi. Mörkin milli þess sem kallað er sjúkdómur (á ensku disease) og heilkenni (á ensku syndrome) eru óljós og þessi orð hafa oftast sömu merkingu. Þetta heilkenni getur tekið á sig ýmsar myndir en oftast er um að ræða þreytu, verki frá stoðkerfi (liðum og vöðvum), augnþurrk og munnþurrk. Ýmis önnur einkenni geta verið til staðar. Algengasta einkennið er líklega augnþurrkur en þurrkur getur einnig verið til staðar í nefi, hálsi, barka, lungnapípum, leggöngum og húð. Hafa ber í huga að augnþurrkur og munnþurrkur eru algeng óþægindi sem verða algengari með hækkandi aldri og hafa venjulega ekkert með Sjögrens-heilkenni að gera. Sjögrens-heilkenni er í flokki sjálfsnæmissjúkdóma eða bandvefssjúkdóma þar sem ónæmiskerfið ræðst gegn frumum líkamans og skemmir þær. Aðrir sjúkdómar svipaðs eðlis eru iktsýki (ein tegund liðagigtar) og rauðir úlfar en um þriðjungur sjúklinga með Sjögrens-heilkenni fá óþægindi frá liðum. Orsakir allra þessara sjúkdóma eru óþekktar. Augnþurrkur getur valdið miklum óþægindum og getur leitt til skemmda á hornhimnu augans með sjónskerðingu ef ekkert er að gert. Sama má segja um munnþurrk sem getur leitt til mikilla tannskemmda. Sjögrens-heilkenni er langvinnur sjúkdómur en yfirleitt ekki banvænn. Sjaldgæfir fylgikvillar eru lungnabólga, nýrnaskemmdir og eitlakrabbamein. Þetta getur verið hættulegt, jafnvel lífshættulegt, en er sem sagt mjög sjaldgæft. Greining byggist á einkennunum þreytu, verkjum og þurrum slímhúðum, mælingum á myndun tára og munnvatns og stundum fleiri rannsóknum. Venjulega koma óþægindin hægt og sígandi og oft líða fjöldamörg ár frá því að óþæginda varð fyrst vart og þar til sjúkdómurinn greinist. Nýleg rannsókn á Íslandi bendir til þess að um 0,2% fólks sé með Sjögrens heilkenni (um 2 af hverjum 1000) og er það nokkru lægri tala en komið hefur fram í erlendum rannsóknum.

Ekki er til nein sértæk meðferð við Sjögrens-heilkenni og ekki eru þekkt nein ráð sem lækna sjúkdóminn. Sjálfsagt er að lifa heilbrigðu lífi, borða hollan og fjölbreyttan mat, taka fjölvítamín og lýsi, stunda hæfilega líkamsrækt og forðast reykingar. Nauðsynlegt er að hugsa sérstaklega vel um munn og tennur og sumir þurfa að nota gervitár (sérstakir augndropar) og gervimunnvatn. Forðast þarf lyf sem geta valdið augn- eða munnþurrki. Til eru lyf sem geta aukið myndun tára og munnvatns og þau hjálpa stundum. Flestir sjúklingar með Sjögrens-heilkenni þurfa reglulega aðstoð og eftirlit hjá gigtarlækni, augnlækni, tannlækni og háls-, nef- og eyrnalækni.