FORMAÐUR kjördæmisfélags Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og suður, Björgvin E. Vídalín, hefur kært framkvæmd nýliðinna alþingiskosninga til dómsmálaráðuneytisins. Að sögn Guðjóns A.

FORMAÐUR kjördæmisfélags Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og suður, Björgvin E. Vídalín, hefur kært framkvæmd nýliðinna alþingiskosninga til dómsmálaráðuneytisins. Að sögn Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins, er kæran lögð fram með vitund og vilja forystu flokksins. Í kærunni fer Björgvin fram á að öll greidd atkvæði í kosningunum verði, að viðstöddum umboðsmönnum flokkanna, endurtalin og að endurúrskurðað verði um þau atkvæði sem úrskurðuð voru ógild af yfirkjörstjórnum við talningu. Leiði slík endurtalning og endurúrskurður ógildra atkvæða til breyttrar niðurstöðu verði niðurstöður sl. alþingiskosninga ógiltar og þeim breytt til samræmis við niðurstöðu endurtalningar.

Til vara er þess krafist að einungis verði endurúrskurðað um þau atkvæði sem úrskurðuð voru ógild af yfirkjörstjórnum við talningu en til þrautavara er þess krafist að endurúrskurðað verði um þau atkvæði sem úrskurðuð voru ógild af yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður við talningu.

Kæran verður framsend frá dómsmálaráðuneytinu til Alþingis en það úrskurðar endanlega um kjörgengi alþingismanna.

Litlu munaði

Í kærunni segir að ástæða þess að farið er fram á endurtalningu sé sú að litlu hafi munað í atkvæðum á landsvísu til þess að verulegar breytingar yrðu á því hverjir teljast rétt kjörnir alþingismenn. Á landsvísu muni aðeins 13 atkvæðum af samtals 185.398 greiddum atkvæðum til þess að oddviti Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður verði rétt kjörinn þingmaður í jöfnunarþingsæti og að frambjóðandi í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í kjördæminu missi þingsæti sitt.

Enn fremur segir í kærunni að svo virðist sem ekki hafi verið samræmi í vinnubrögðum við framkvæmd kosninga eða talningar milli kjördæma og að meðferð vafaatkvæða hafi verið mismunandi eftir kjördæmum.

Bent er á að 58 atkvæði hafi verið ógild í Reykjavíkurkjördæmi suður en 131 í Reykjavíkurkjördæmi norður. "Sami fjöldi kjósenda er í báðum þessum kjördæmum og munur á ógildum atkvæðum því mikill og bendir það einnig til þess að mismunandi forsendur hafi ráðið mati á atkvæðaseðlum við talningu."

Í kærunni kemur fram að ekki er kveðið á um endurtalningu í kosningalögum en þar er heldur ekkert sem bannar endurtalningu eða kveður á um að einungis megi telja greidd atkvæði einu sinni.

Kosningalögin verði skoðuð

Guðjón A. Kristjánsson segir að það sé ekki síður tvennt sem vaki fyrir Frjálslynda flokknum með kærunni. Í fyrsta lagi að það verði sett einhver mörk um hvenær eigi að endurtelja og hvenær ekki, þ.e. hvort mörkin eigi að liggja við þrettán atkvæði, hundrað eða fleiri. "Það hefur aldrei reynt á það í alþingiskosningum hvar þessi lína liggur," segir hann.

Í öðru lagi telur flokkurinn að gera þurfi mikla bragarbót á framkvæmd kosninganna. Til dæmis geti ekki verið viðunandi að farið sé með vafaatkvæði með mismunandi hætti eftir kjördæmum, að sögn Guðjóns.