5. júní 2003 | Viðskiptablað | 983 orð

Framsækni eða íhaldssemi

"Í heimi þar sem breytingar eiga sér stað með stigvaxandi hraða stendur ekkert lengi í stað. Það er ómögulegt að nema staða

Á ÁRUNUM 1965 til 1981 áttu sér stað verstu og lengstu tímabil sögunnar hvað varðar slaka ávöxtun hlutabréfa í Bandaríkjunum.
"Í heimi þar sem breytingar eiga sér stað með stigvaxandi hraða stendur ekkert lengi í stað. Það er ómögulegt að nema staðar. Fyrirtæki munu annaðhvort vaxa eða dragast saman. Sterk sókn er besta vörnin. [...] Fyrirtækjum sem hefur mistekist í því að fara upp á við hafa undantekningarlaust farið niður á við - og ef slíkt á við um fortíðina mun það enn frekar eiga við um framtíðina." (Philip A. Fisher, í bókinni Conservative Investors Sleep Well ).

Á ÁRUNUM 1965 til 1981 áttu sér stað verstu og lengstu tímabil sögunnar hvað varðar slaka ávöxtun hlutabréfa í Bandaríkjunum. Tuttugu árin þar á undan höfðu verið hlutabréfafjárfestum afar gjöful og var tiltrúin um að slíkt héldi áfram hugsanlega farin að endurspeglast í verðmati hlutabréfa. Hækkandi vaxtastig, sem fór að myndast um miðbik sjöunda áratugarins var e.t.v. fyrirboði þess að fjárfestar tóku að beina sjónum sínum frekar að skuldabréfum og innstæðureikningum. Á seinni hluta þess áratugar brenndu margir fjárfestar sig á fjárfestingum í framsæknum fyrirtækjum m.a. tengdum raftækni. Í kjölfar þessara hremminga jókst fjöldi þeirra er fjárfestu í stöndugum stórum fyrirtækjum sem talið var að gætu veitt stöðugan vöxt hagnaðar án mikilla áfalla og voru þau fyrirtæki gjarnan nefnd "Nifty Fifty" fyrirtækin. Eftirspurnin eftir þessum hlutabréfum varð hins vegar til þess að markaðsverðmæti þeirra náði hæðum sem ólíklegt var að þau gætu til lengri tíma staðið undir. Mikið verðfall varð á mörgum þeirra, oft óháð rekstri, næstu árin. Svartsýnin náði líklegast hámarki árin 1973-1974 þegar að olíukreppan reið yfir með slæmum afleiðingum fyrir efnahag vesturlanda. Hlutabréfavísitölur höfðu lækkað í líkingu við það sem fjárfestar hafa upplifað undanfarin þrjú ár og fjölmiðlar fjölluðu títt um einhverskonar endalok fjárfestinga í hlutabréfum.

Ofangreind þróun sem hafði leitt til slíkrar neikvæðni gagnvart hlutabréfafjárfestingum var ein af helstu hvötum skrifa bókarinnar "Conservative Investors Sleep Well" eftir Philip A. Fisher sem var gefin út árið 1974. Sextán árum áður hafði hann gefið út bókina "Common Stocks and Uncommon Profits" sem er af mörgum talin vera hornsteinn eigindlegra (qualitative) þátta hlutabréfafjárfestinga, en þar kom fram það helsta sem Fisher taldi skipta máli í hlutabréfafjárfestingum og byggðist á reynslu hans í meira en aldarfjórðung. Conservative Investors Sleep Well er að vissu leyti samantekt af fyrri bókinni að því leyti að í forgrunni eru lögmál Fisher varðandi grunngreiningu og tímasetningu á hlutabréfakaupum. Fisher bendir hins vegar á - þá í skugga mikils verðfalls hlutabréfa í stöndugum fyrirtækjum - að fjárfestingar sem lengi höfðu verið taldar vera íhaldssamar gætu leitt til hrikalegs taps hjá fjárfestum. Oft rugla fjárfestar íhaldssömum fjárfestingum saman við það sem flokkast undir almennt viðurkenndar fjárfestingar hverju sinni. Íhaldssöm fjárfesting að mati Fisher er fjárfesting sem varðveitir raunvirði fjárfestingar með sem minnstri áhættu og skilningi á þá þætti sem mynda grunn að íhaldssömum fjárfestingum.

Conservative Investors Sleep Well er skipt í fjóra hluta. Fyrstu tveir hlutarnir fjalla um eigindlega þætti sem skoða þarf í rekstri fyrirtækja til að þau geti talist verðug til að skoða nánar sem fjárfestingarkost. Kostnaður við framleiðslu, styrkur í markaðssetningu, vægi og árangur rannsókna, skilningur á kostnaði og áherslur á tekjuþætti sem skila mestum hagnaði fjárfestingar eru grunnþættir í rekstri fyrirtækis sem þarf að vera framúrskarandi til að hlutabréf þess geti talist til íhaldssamrar fjárfestingar. Slík athugun í fyrsta hlutanum einblínir á stöðu fyrirtækis eins og það er í dag. Annar hlutinn beinir sjónum að því hvaða drifkraftar sköpuðu núverandi stöðu og hvort líklegt sé að þeir drifkraftar verði áfram fyrir hendi í framtíðinni. Starfsmenn fyrirtækja eru fyrst og fremst slíkir drifkraftar og skilja á milli miðlungsfyrirtækja og þeirra sem skara framúr. Flest framúrskarandi fyrirtæki þjálfa starfsmenn sína til að vinna saman að skýrt settum markmiðum. Í því sambandi skiptir máli, að mati Fisher, hvort yfirmenn séu almennt ráðnir innanhúss eða fengnir annarstaðar frá. Ef tilhneiging er til þess að ráða utanaðkomandi aðila í stjórnunarstöður er það oft merki um að núverandi stjórn sé ekki nægilega hæf, auk þess sem velta á slíkum stjórnendum er oft mikil. Sterk liðsheild er lykillinn að góðum rekstri fyrirtækja.

Þriðji hlutinn fjallar um þá þætti sem stuðla að því að sum vel rekin fyrirtæki halda hagnaði stöðugum og hærri en samkeppnisaðilar þess. Fisher telur að slíkt byggist fyrst og fremst á yfirburðastöðu fyrirtækis á sínu sviði. Þetta á ekki aðeins við í rekstrarlegum skilningi, meðal annars til að bægja frá samkeppni, heldur einnig við traust neytenda til vörumerkja fyrirtækisins. Hann nefnir IBM, General Electric og Sears sem dæmi í því sambandi, allt fyrirtæki sem tæpum 30 árum síðar eru enn yfirburðafyrirtæki á sínu sviði. Verðmat fyrirtækja er meginefni síðasta hlutans. Þó svo að fyrirtæki uppfylli öll skilyrði sem íhaldssamir fjárfestingarkostir í fyrstu þremur hlutunum er ekki þar með sagt að hlutabréf þeirra séu vænlegur fjárfestingarkostur á öllum stundum. Á slíku höfðu margir hlutabréfafjárfestar nýlega brennt sig illilega þegar bókin var útgefin og lofað sjálfum sér að forðast allar hlutabréfafjárfestingar til eilífðarnóns. Í markaðsvirði fyrirtækja endurspeglast núverandi afstaða fjármálaheimsins gagnvart einstökum fyrirtækjum, þeim iðnaði sem þau starfa í og til hlutabréfa almennt. Að mestu leyti er galdurinn við að meta hverju sinni hvort fjárfestingar í fyrirtækjum séu vænlegar eða ekki er að meta hversu mikið skilur á milli núverandi markaðsvirðis, vegna ofangreindra þátta, og virðis fyrirtækja út frá skynsamlegri rökhyggju. Fisher taldi að virði fyrirtækja árið 1974 væri miklu meira en afstaða fjármálaheimsins til hlutabréfa gaf almennt til kynna og segir í lok bókarinnar að sjaldan hafi verið jafn góð tækifæri til staðar til íhaldssamra fjárfestinga í hlutabréfum á vænlegum verðum, eins og kom svo sannarlega á daginn.

Conservative Investors Sleep Well fæst í dag sem viðbót við bókina Common Stocks and Uncommon Profits. Sú bók er víða skyldulesning í viðskiptaháskólum, m.a. Stanford, og ekki að ósekju. Oft er sagt að Fisher hafi haft jafnvel meiri áhrif á helsta fjárfesti heimsins í dag, Warren Buffett, en sjálfur lærifaðir hans, Benjamin Graham. Þessi skrif eru undirstöðuatriði í eigindlegum fræðum hlutabréfafjárfestinga og ættu ekki að fara framhjá neinum sem tekur þátt í ákvörðunum tengdum hlutabréfakaupum.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.